135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

samningur um framleiðslu dagskrárefnis fyrir RÚV.

[15:37]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Rétt til að svara strax síðustu spurningu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur: Nei, það var aldrei markmið með breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins að einkavæða það og það stendur ekki til. Hins vegar er alveg ljóst að markmiðið með því að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins, og mér þótti vænt um að hv. þingmaður fór yfir eitt af þeim sem ég setti mér, var að efla innlenda dagskrárgerð. Þau sem fylgst hafa með Ríkisútvarpinu nú í vetur sjá það og merkja að dagskrá Ríkisútvarpsins — að mínu mati, þetta er náttúrlega huglægt mat — er mun öflugri en hún hefur verið áður. Hægt er að nefna ýmsa þætti, bókmenntaþætti, menningarþætti og ýmislegt fleira sem menn hafa sett í aukna innlenda dagskrárgerð.

Ég hef samt tekið undir, og gerði það m.a. á sínum tíma, að auka þyrfti framleiðslu hjá Ríkisútvarpinu, það þyrfti að standa sig betur varðandi sjálfstæða framleiðendur, auka framleiðslu á innlendu efni. Það er akkúrat það sem verið er að gera með þessum samningi. Mér finnst miður þegar menn sýna svona mikla tortryggni í garð auðmanna sem koma með fjármagn inn í það sem við köllum menningu, listir — ég get talað um rannsóknir, háskóla þar sem við sjáum farsælt samstarf manna sem hafa viljað setja aukið fjármagn í samfélagsleg verkefni, í háskóla, í menningu og listir, og allt er þetta til að stuðla að því að samfélagið okkar og innviðir þess styrkist.

Hvað er að því að ríkið fái stuðning einkaaðila svo lengi sem reglurnar eru skýrar og gegnsæjar og matið faglegt? Ef það liggur ljóst fyrir eigum við ekki að sýna tortryggni með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði strax í upphafi. Rétt er að 9. nóvember sl. skrifaði útvarpsstjóri undir samning við Björgólf Guðmundsson um samstarf við að efla gerð leikinna sjónvarpsþátta á Íslandi. Samningsaðilar munu verja samanlagt á bilinu 200–300 millj. kr. til ýmissa verkefna næstu þrjú árin. Alls er ráðgert að fjórar til sex þáttaraðir verði framleiddar á þremur árum sem samningurinn tekur til og leggja báðir aðilar til jafnmikið fé. Markmiðið er að auka hlut leikins efnis í sjónvarpinu þar sem fjármunum er veitt í handritsgerð, þróun, framleiðslu, eftirvinnslu og kynningu á sjónvarpsefni. Framangreindu markmiði hyggjast samningsaðilar ná með samstarfi við kvikmyndaframleiðendur og íslenska kvikmyndagerðarmenn, leikstjóra og handritshöfunda.

Rétt er að taka fram að samningurinn hefur ekkert með lög um tekjuöflun Ríkisútvarpsins eða reglur um kostun að gera. Hér er hvorki um að ræða tekjur sem renna beint til Ríkisútvarpsins né kostun þar sem einhvers konar andlag kemur á móti. Vert er að undirstrika það. Hér er einfaldlega um að ræða þátttöku Ríkisútvarpsins í fjármögnun á verkefnum á vegum sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda en með þátttöku sinni tryggir Ríkisútvarpið sér sýningarrétt á því efni sem framleitt er í sjónvarpi á Íslandi. Þrátt fyrir þennan samning munu þeir sjálfstæðu framleiðendur sem starfað verður með eftir sem áður þurfa að fá fjármögnun frá sjóðum, sjónvarpsstöðvum og fyrirtækjum sem tryggja fjármagn í verkefni sín. Í samningnum felst heldur engin útilokun á öðrum samstarfsaðilum, hvorki á vegum framleiðandans né Ríkisútvarpsins. Í fyrsta verkefninu kemur t.d. Glitnir að fjármögnun þess á grundvelli samningsins auk sjónvarpssjóðs Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Vandséð er hvernig það getur falið í sér brot á jafnræðisreglu. Hins vegar munu aukin framlög leiða til þess að innlend dagskrárgerð styrkist og verður hún tryggð með samningnum. Hin auknu framlög munu gera framleiðslufyrirtækjunum auðveldara fyrir að fjármagna framleiðslu á leiknu sjónvarpsefni. Það mun skila sér — í hverju? Jú, í auknu framboði leikins efnis í ríkissjónvarpinu. Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að hafa í huga að það er ávallt Ríkisútvarpið sem tekur endanlega ákvörðun um hvaða verkefni verða fyrir valinu.

Á undanförnum árum hef ég lagt mikla áherslu á að styrkja og auka hlutfall leikins efnis í ríkissjónvarpinu. Vil ég í því sambandi nefna samning við Ríkisútvarpið um útvarpsþjónustu í almannaþágu sem tók gildi 1. apríl á þessu ári, en samkvæmt samningnum á Ríkisútvarpið að vera vettvangur nýsköpunar í dagskrárgerð. Ríkisútvarpið á að styrkja og efla sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð með því að kaupa og sýna efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Samkvæmt samningnum á Ríkisútvarpið að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum eða öðru sjónvarpsefni og verja til þess að lágmarki ákveðnum fjárhæðum.

Frú forseti. Ég tel að við eigum að fagna því þegar fyrirtæki og einstaklingar vilja leggja sitt af mörkum til að efla framleiðslu á innlendu sjónvarpsefni, hvort sem það er í Ríkisútvarpinu eða á öðrum íslenskum sjónvarpsstöðvum. Máli skiptir að efnið sé vandað og við eigum að fagna því þegar menn sjá sér hag í að styrkja listamenn sem eru starfandi á Íslandi.