135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fullorðinsfræðsla.

223. mál
[18:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir fyrirspurn hennar þar sem hreyft er mjög mikilvægu máli sem hefur mikla þýðingu í allri umræðu um menntamál, þ.e. fullorðinsfræðslu og símenntun sem slíkri.

Spurt er:

„Stendur til að setja nýja löggjöf um fullorðinsfræðslu í landinu á þessu þingi? Hvar er vinna við slíka löggjöf á vegi stödd?“

Ég skil, frú forseti, fyrirspurn hv. þingmanns þannig að spurt sé hvort lagt verði fram frumvarp um fullorðinsfræðslu á þessu þingi. Að sjálfsögðu hníga margvísleg rök að setningu laga um fullorðinsfræðslu utan hins formlega skólakerfis. Á vettvangi OECD og Evrópusambandsins er stöðugt lögð ríkari áhersla á mikilvægi þessa málaflokks. Harðnandi samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum, breytt aldurssamsetning þjóða, mikilvægi upplýsingatækni og stöðugt aukinn fjöldi innflytjenda kalla ásamt öðru á aukna fullorðinsfræðslu utan formlega skólakerfisins.

Ýmis hugtök og atriði er varða rétt einstaklinga á þessu sviði hafa ekki verið skilgreind formlega hér á landi. Það er mikilvægt að svo verði gert, t.d. í lögum. Sem dæmi má nefna að það þarf að skilgreina hvað átt er við með vissum meginhugtökum eins og t.d.: Hvað þýðir fullorðinsfræðsla? Hvað þýðir símenntun? Hvað þýðir raunfærnimat eða einingabært nám? Hverjar eru skyldur fræðsluaðila?

Nefna má að fjárveitingar ríkisins til þessa málaflokks hafa aukist mjög mikið og hlutfallslega mjög hratt, ekki síst á undanförnum árum, m.a. í tengslum við kjarasamninga. En jafnframt hefur verið reynt að efla símenntun og fullorðinsfræðslu. Það er mikilvægt að rammi sé settur um það í löggjöf.

Það er rétt að geta þess að fyrr á þessu ári, rétt undir lok sumars, lýsti ég því yfir að ég teldi mikilvægt að setja heildarlög um fullorðinsfræðslu en að mörgu er að hyggja áður en við komumst svo langt að gera lagarammann sem slíkan. Eins og ég sagði þurfum við að skilgreina þessi meginhugtök.

Fyrir um ári skilaði verkefnisstjórn um símenntun mér skýrslu þar sem m.a. var lagt til að sett yrðu lög sem tryggja mundu fullorðnum einstaklingum, sem hafa af einhverjum ástæðum hætt námi en hyggjast hefja það að nýju, rétt til að ljúka námi við hæfi, þ.e. að þeir fái að halda áfram í skólakerfinu sem hafa einhverra hluta vegna tekið sér hlé. Í ráðuneytinu hefur verið farið vandlega yfir tillögur verkefnisstjórnarinnar og hvernig megi útfæra þær í löggjöf. Vissulega þarf að skoða mörg álitamál í þessu sambandi, þar á meðal hversu víðtæk löggjöf um fullorðinsfræðslu utan hins formlega skólakerfis eigi að vera.

Sem dæmi má nefna að í nágrannalöndunum nær fullorðinsfræðslulöggjöfin víðast til menntunar í atvinnulífinu, fatlaðra, tungumálakennslu innflytjenda og jafnvel til fræðslustarfa frjálsra félagasamtaka líka. Þar er skilgreiningin á fullorðinsfræðslu mun víðtækari en tillögur verkefnisstjórnar um símenntun koma inn á og snertir málefnasvið fleiri ráðuneyta en ráðuneyti menntamála.

Fyrsta skref menntamálaráðuneytisins er að ljúka þeirri gagnaöflun sem lögð verður til grundvallar stefnumótun í þessum málaflokki. Hún verður að sjálfsögðu unnin í nánu samráði við alla hagsmunaaðila. Þegar meginniðurstöður í stefnumótun liggja fyrir með skilgreiningu og afmörkun á þeim málefnum sem taka þarf á í löggjöf mun vinna strax hefjast við gerð frumvarps. Samkvæmt áætlun sem unnin hefur verið í ráðuneytinu er gert ráð fyrir að frumvarpsdrög muni liggja fyrir næsta vor. Við bindum vonir við að við náum því þannig að þetta komist til meðferðar á þinginu þótt það verði hugsanlega ekki afgreitt á vorþingi en engu að síður, að það komist til þingsins. Ég tel að það skipti miklu. Við erum að vinna að þessu.

Ég vil líka geta þess að við erum með opnasta framhaldsskóla í heimi. Við erum t.d. með miklu opnari framhaldsskóla en Norðmenn sem hafa framhaldsskóla þrjú ár og ef nemandi ætlar að fara í stúdentspróf þarf að leita eitthvað annað. Hér höfum við mýmörg dæmi um eldri nema, þ.e. að sá hópur fólks sem ekki tilheyrir árgöngum sem kemur upp úr grunnskóla er hlutfallslega mun stærri hér. Enda er það svo, sem er annað viðfangsefni og önnur skref sem við þurfum að taka til að bæta það, að því miður er hér enn hátt hlutfall þeirra sem ekki hafa aflað sér framhaldsskólamenntunar. En að fenginni reynslu síðustu missira höfum við saxað mjög á þá tölu.

Ég vil geta þess, af því að það eru þingmenn víða að hér í salnum, að t.d. varðandi Fjölbrautaskóli Snæfellinga, þar sem við gerðum ráð fyrir að nýta nýja tækni í samvinnu við aðra skóla, gerðum við ráð fyrir því, tölur sýndu það, að yrðu 130–140 nemendur. En við erum í dag með 260–270 nemendur í þeim skóla. (Forseti hringir.) Það er ekki síst vegna þess að þar koma inn eldri nemendur, mun fleiri en við gerðum ráð fyrir. Ég tel það mikið ánægjuefni.