135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

kristilegt siðgæði í starfsháttum grunnskóla.

240. mál
[18:54]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka menntamálaráðherra fyrir gott svar og góða útlistun á mikilvægi kristinnar trúar og hvaða gildi hún hefur í skólastarfi okkar og samfélagi. Mér finnst því miður að það skuli eiga að gera þá breytingu á lögum sem hún rakti. Það er eitt atriði sem mig langar að minnast á sem er um siðferðileg gildi, og það er spurningin hvort einhver önnur siðferðileg gildi séu hjá kristnu fólki en þeim sem játast undir aðra hugmyndafræði eða trúarbrögð. Það er nú einu sinni svo og úr því getum við ekki gert lítið.

Það sem við höfum byggt á — og það kom svo skýrt fram í svari menntamálaráðherra — er að við erum kristin þjóð, byggjum á þeim siðferðilegu gildum sem kristin trú setur um náungakærleika, umburðarlyndi og fyrirgefningu. Það er það sem við umfram allt verðum að leggja rækt við og þau lýðræðislegu sjónarmið sem kristið siðferði byggir á.