135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

fundarstjórn.

[21:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég geri engar sérstakar athugasemdir við skýringar formanns og varaformanns fjárlaganefndar eða nefndarmanna úr meiri hlutanum í fjárlaganefnd. Í sjálfu sér skiptir ekki máli hvað hefur orðið til að tefja það að nefndarálit og breytingartillögur lægju fyrir, en veruleikinn er sá að það sleppur með naumindum að þær komist fram fyrir nóttina á þessum framlengda fyrirspurnafundi, eða útbýtingarfundi sem nær væri að kalla þetta, til að ekki þurfi að taka það fyrir með afbrigðum á morgun. Hér nægir ekki að vísa til þess sem hefur verið á dagskrá í fjárlaganefnd, heldur verður að hafa í huga stöðu þeirra þingmanna sem ekki eiga sæti í fjárlaganefnd, í hvaða stöðu þeir eru settir við að undirbúa sig og ræða þessi mál þegar allt hefur verið í þoku fram á síðustu stundu um hvert yrði innihald breytingartillagna meiri hlutans.

Hin hefðbundna röð hlutanna er sú að þær liggi fyrir með allgóðum fyrirvara þannig að minni hlutinn og þingmenn sjái hvaða úrlausn einstök mál fá í gegnum breytingartillögur meiri hlutans og geti þá áttað sig á því hvort þeir sjái efni til að flytja sérstakar breytingartillögur eða telji þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til fullnægjandi, eða fjárlaganefnd í heild sinni ef svo vel væri að menn ynnu hlutina saman eins og oft var áður þegar stór hluti breytingartillagnanna var sameiginleg afurð vinnu fjárlaganefndar og það skarst ekki í odda nema þá í einstökum tilvikum.

Það er ekki að ástæðulausu, frú forseti, sem frestir eru byggðir inn í þingsköpin. Þeir eru til að verja þingmenn fyrir því að umræður um meiri háttar mál komi á dagskrá fyrirvaralítið, svo ekki sé talað um fyrirvaralaust. Þess vegna skulu líða svo og svo margir sólarhringar frá því að mál kemur fram og þangað til það er tekið til 1. umr. og sólarhringur á milli umræðna, sólarhringur frá því að nefndarálit og breytingartillögur hafa litið dagsins ljós o.s.frv. Það er auðvitað alls ekki við hæfi, það er alls ekki gott verklag og það er alls ekki hægt að verja það sem eitthvað sérstaklega vandað að meira að segja þegar sjálf fjárlögin eiga í hlut þurfi menn að stytta sér leið með þessum hætti. Þess vegna ætti forseti auðvitað að sjá sóma sinn í að fallast á óskir okkar um að 2. umr. yrði frestað. Eins og ég segi skiptir ekki öllu máli hvað hefur orðið til þess að málin eru komin í þá stöðu sem raun ber vitni. Því veldur sjálfsagt ýmislegt eins og hringlið með Stjórnarráðið og vandamál sem því eru samfara að fara að hringla með fjárlagaliði milli ráðuneyta áður en komin eru lög um það að færa verkefnin til eins og virðist eiga að fara að gera í mörgum tilvikum. Það er auðvitað kapítuli út af fyrir sig að menn skuli ætla að vera með breytingartillögur og stefna í að afgreiða fjárlög í blóra við gildandi lög í landinu um verkefni og verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Það segir í raun og veru allt sem segja þarf um þessi ósköp.

Ég endurtek (Forseti hringir.) að það er formleg og eindregin ósk af okkar hálfu að forseti fresti 2. umr. fjárlaga um (Forseti hringir.) a.m.k. sólarhring.