135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:30]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur flutt þessa hvatningu áður úr þessum ræðustól en ég lýsi því einfaldlega yfir að efnahags- og skattanefndin mun gera grein fyrir afstöðu sinni fyrir 3. umr. Við erum með umrædda efnahagsskrifstofu hjá fjármálaráðuneytinu sem fer yfir þessa hluti og hún hefur auðvitað endurnýjað spána reglulega og birtir niðurstöður sínar reglulega. Að öðru leyti mun efnahags- og skattanefndin sem fer yfir tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins fara yfir þá hluti.

Ég vil síðan sérstaklega nota tækifærið og minna hv. þingmann og aðra á það að varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, mun gera ítarlega grein fyrir sundurliðun gjaldahliðar í ræðu sinni á eftir.

Þá vil ég einnig nota tækifærið og hvetja hv. þm. Jón Bjarnason, líkt og hann sjálfur kom að og hefur lagt áherslu á í nefndinni eins og aðrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, til að ná samstöðu við okkur hin um sem flestar tillögur sem eru til umfjöllunar. Ég á ekki von á öðru en að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar muni greiða atkvæði með fjölmörgum tillögum sem fram koma í umræddum breytingartillögum, enda hefur stjórnarandstaðan komið að þeim og tekið þátt í þeirri tillögugerð með okkur hinum, hv. þingmönnum fjárlaganefndar, þrátt fyrir að skrifa ekki upp á nefndarálitið eins og má kannski segja að eðlilegt sé og venja.

Nú liggur fyrir að hlýða á nefndarálit minni hlutans og vil ég þar af leiðandi ljúka þessu andsvari og tel að ég hafi komið þessu til skila til hv. þm. Jóns Bjarnasonar.