135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:51]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég skal viðurkenna að það fór svo fyrir mér við framsöguræðu Jóns Bjarnasonar hér áðan að ég tapaði á stundum þræðinum í því sem sett var fram en hv. þingmaður tilkynnti að hann mundi flytja hér aðra ræðu síðar við umræðuna. (EMS: Og hafa hana lengri.) Þá er spurning hvort hann geri okkur ekki þann greiða að endurtaka það sem hann sagði hér í framsögu sinni.

Hv. þingmaður nefndi að ýmislegt vantaði inn í mótvægisaðgerðirnar og fleiri þætti. Engum getur þó dulist að undirliggjandi ástæða fyrir málflutningi hans er ákveðin gremja yfir því að hafa ekki náð inn í meiri hluta í stjórnarsamstarfinu. Hann horfir líka til þess að ríkisbúskapurinn er nú með miklum blóma og af nógu að taka til þess að ráðstafa fénu sem þar er afgangs. Ég skil því mætavel gremju hv. þingmanns að fá ekki tækifæri til að koma áherslum sínum inn í þau áherslumál og verkefni sem hann setur í forgang.