135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:50]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er síknt og heilagt rekinn á gat varðandi skiptingu ýmissa mála undir liðnum Menntamál. Ég hef ekki skiptinguna á þeim 140 millj. kr. sem eiga að fara til verknámsdeilda, ef ég man rétt, á Suðurnesjum og Vestfjörðum. Við skulum með gleði vinna þær upplýsingar í fjárlaganefnd og koma þeim til hv. þingmanns.

Hv. þingmaður spurði um orðræðu hæstv. iðnaðarráðherra. Ég er innilega sammála því sem fram kom í máli ráðherra. Ég held þó að hann hafi ekki tekið jafnsterkt til orða og hv. þingmaður gaf til kynna. Hins vegar hljóta, líkt og kom fram í framsögu minni áðan, íbúar annarra svæða sem standa höllum fæti að gera kröfu til þess að unnið verði að úrbótum á þeirra svæðum með hliðsjón af því hvernig unnið var fyrir Vestfirði. Því ber að fagna og ég fagna sérstaklega og treysti góðu samstarfi við hæstv. iðnaðarráðherra í þeim efnum.