135. löggjafarþing — 33. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[00:43]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég mátti greina í máli þingmannsins einhverja gamansemi eða hvað það var þegar hann sagðist ekki ætla að vera með hnjóðsyrði í garð okkar vinstri grænna því hann hefði ekki lagt það í vana sinn.

Mér var full alvara með þeim orðum sem ég viðhafði um Framsóknarflokkinn og vek athygli á því að ég átti í farsælu meirihlutasamstarfi við framsóknarmenn og ýmsa aðra í borgarstjórn Reykjavíkur í 12 ár. Ég hef mikla reynslu af því að vinna með fólki í þeim flokki og hún er að mestu leyti prýðileg svo að því sé nú haldið til haga.

Það þýðir ekki að við séum alltaf sammála um alla hluti, alls ekki. Ég vísa því að sjálfsögðu algjörlega á bug að við séum með óábyrgar áherslur í atvinnumálum. Við erum að vísu ekki alveg sammála framsóknarmönnum um alla þætti í atvinnuuppbyggingu. En við höfum að sjálfsögðu kynnt atvinnustefnu okkar, okkar sjálfbæru atvinnustefnu, og við teljum að hún sé ábyrg. Það sama á við um breytingartillögur okkar við fjárlagafrumvarpið. Breytingartillögur okkar eru komnar fram, bæði að því er varðar tekjuhliðina og útgjaldahliðina. Ekki er loku fyrir það skotið að einhverjar fleiri tillögur kunni að koma milli 2. og 3. umr. Það verður bara að koma í ljós.

En við höfum kynnt tillögur okkar eða að minnsta kosti lagt þær fram og ræðumenn okkar hafa gert grein fyrir einstökum tillögum. Fleiri þingmenn Vinstri grænna eru á mælendaskrá í þessari umræðu þannig að það á eftir að gera grein fyrir einhverjum af þeim tillögum sem við höfum lagt fram. En þær eru sem sagt í meginatriðum komnar fram, bæði tekjulega og útgjaldalega. Ég er sannfærður um að þær eru afskaplega ábyrgar. Ég er líka sannfærður um að við gætum náð saman um margar þeirra. Ef framsóknarmenn mundu leggja sig niður við að glugga í þær og skoða er ég sannfærður um að við gætum orðið sammála um margar af þeim tillögum.