135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram umræða um fjárlög ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Jón Bjarnason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í fjárlaganefnd hefur gert grein fyrir megináherslum okkar við fjárlagasmíðina og viðbrögð við tillögum ríkisstjórnarmeirihlutans. Ég vil gera hans orð að mínum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur farið ítarlega yfir stöðu efnahagsmála og afstöðu okkar á því sviði. Ég vil gera hans orð að mínum. Aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa fjallað um einstaka málaflokka og tek ég undir þau sjónarmið sem þar hafa komið fram.

Ég tala hér fyrir tillögum sem við leggjum fram á sviði heilbrigðismála. Það erum við hv. varaþingmaður, Dýrleif Skjóldal og ég sem flytjum þessar tillögur fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en það var fulltrúi VG í heilbrigðisnefnd sem hafði veg og vanda af undirbúningi þessara tillagna.

Við leggjum til að framlag til sjúkratrygginga verði hækkað um 70 millj. kr. og því beint inn í forvarnaátak til tannlækninga. Að sjúkrahúsið á Akureyri fá 100 millj. kr. til viðbótar því sem því er ætlað á fjárlögum eða í fjárlagafrumvarpi. Að Landspítalinn fái 600 millj. kr. til viðbótar við það sem honum er ætlað. Að til heilsugæslunnar almennt verði varið til viðbótar 150 millj. kr.; 100 millj. kr. til eflingar sérfræðiþjónustu og 50 millj. kr. til eflingar geðheilbrigðisþjónustu.

Að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu fái 300 millj. kr. til viðbótar því sem henni er ætlað samkvæmt frumvarpi stjórnarmeirihlutans. Að heilbrigðisstofnun Austurlands fái 410 millj. kr. til viðbótar og framkvæmdir þar vegna öldrunarþjónustu, undirbúningsframkvæmdir 50 millj. kr. Samtals gerir þetta 1.680 millj. kr. Í öðrum tillögum koma fram hugmyndir okkar um hvernig tekna skuli aflað.

Ég vísa til röksemda sem við setjum fram. Annars vegar í minnihlutaáliti hv. þm. Þuríðar Backman, frá minni hluta heilbrigðisnefndar í ítarlegu skjali. Þar kemur fram að þær tillögur sem við leggjum hér fram duga varla og ekki til þess að rísa undir þeim rekstri sem við viljum sjá í þessum stofnunum, engan veginn, en þetta er tilraun okkar til málamiðlunar. Þannig teljum við að Landspítali þurfi milljarð að minnsta kosti til að halda í horfinu. Ég vísa í álitsgerðir og áskoranir sem hafa komið frá aðstandendafélögum fólks á dvalarheimilunum aldraðra og reyndar eru önnur gögn sem ég mun reifa við 3. umr. fjárlaga.

Ég ætla að hafa ræðu mína stutta, ég vísa í þessi minnihlutaálit. Ég gleymdi að geta um minnihlutaálit hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, varaþingmanns, um félagsleg málefni. Ég ætla ekki að rekja það sem þar kemur fram nú en mun fjalla ítarlegar um það við 3. umr. fjárlaga. Ég mun óska eftir því að við 3. umr. fjárlaga þegar ég fer yfir þessa málaflokka, að hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra verði viðstödd umræðuna.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur verið viðstaddur þessa umræðu svo og fulltrúar stjórnarflokkanna í fjárlaganefnd. Þeir hafa verið viðstaddir alla umræðuna. En ég sakna þess mjög að fagráðherrar skulu ekki vera viðstaddir umræðuna og það má segja að það hvíli á okkur sú skylda að reyna að skipuleggja umræðuna með þeim hætti að þeir séu jafnan til svara fyrir sína málaflokka. Það setur að sjálfsögðu skyldur á okkar herðar líka að sjá til þess í skipulagningu og við undirbúning umræðunnar að svo geti orðið.

En ég ítreka, hæstv. forseti, að ég krefst þess mjög eindregið að hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra verði viðstödd 3. umr. þegar ég fer yfir þessi mál. Þá tel ég eðlilegt, þar sem svo óheppilega vill til að hæstv. forsætisráðherra hefur verið fjarverandi þessa umræðu um fjárlög hans eigin ríkisstjórnar vegna þess að hann hefur dvalist utan lands, að hann verði einnig viðstaddur alla 3. umr. fjárlaga. Að þessu sögðu lýk ég máli mínu.