135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Tekjur ríkissjóðs af sköttum á tekjur einstaklinga hafa hækkað mjög mikið. En af hverju það? Það er vegna þess að laun á Íslandi hafa hækkað meira en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Ég veit ekki til þess að það sé vandamál. Ef það er vandamál að launin hafi hækkað svona mikið umfram verðlag þá finnst mér það ánægjulegt vandamál.

En vegna þess hvernig tekjuskattstiginn er uppbyggður á Íslandi þá hefur tekjuskattur af þessum launum hækkað meira vegna þess að fleiri eru orðnir ríkir, hátekjumenn eru fleiri. Ef launin hefðu hækkað eins og verðlag, eins og margir vildu gjarnan, þá væri ekki um neina skattahækkun að ræða vegna þess að frítekjumarkið hefur haldið í við verðlag, neysluvísitölu, en ekki miðað við laun, að sjálfsögðu ekki.

Það skyldi þó ekki vera að lækkun skatta á atvinnulífið og einstaklinga, því að þeir skattar hafa verið lækkaðir líka í prósentum, hafi valdið gífurlegri hækkun launa hér á landi? Mér finnst það alveg sérstaklega ánægjulegt vandamál ef menn vilja kalla það svo. Mér finnst mjög ánægjulegt að laun Íslendinga, jafnt hátekjumanna sem lágtekjumanna, hafi hækkað miklu meira en laun annars staðar í heiminum.

Ef hv. þingmaður getur nefnt mér eitt land þar sem launin hafa hækkað meira umfram verðlag og lífskjörin hafa batnað meira þá yrði ég líka mjög ánægður. Ég væri mjög ánægður með að fá eitt dæmi, en hann finnur það ekki, enda eru Íslendingar með bestu lífskjör í heimi eins og fram kom í skýrslu fyrir nokkrum dögum.