135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

skerðing örorkulífeyris.

[15:09]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. málshefjanda er kunnugt og væntanlega öllum hér í þessum sal eru lífeyrissjóðirnir með þeirri ráðstöfun sem gerð var að umtalsefni að bregðast við aðstæðum í þeirra eigin ranni á grundvelli samþykkta lífeyrissjóðanna sjálfra. Sjóðirnir telja sér skylt að bregðast við breyttum aðstæðum með þessum hætti. Viðbrögð sjóðanna eru að sjálfsögðu ekkert fagnaðarefni, hvorki ríkisstjórninni né þeim einstaklingum sem þarna eiga hlut að máli. Aðgerðinni var frestað í fyrra til að kanna hvort hægt væri að ganga mildilegar til verks. Sú varð reyndar raunin því að þeim hefur fækkað sem þarna eiga hlut að máli og verða fyrir skerðingu og það er miðað við aðra vísitölu sem er viðkomandi aðilum hagstæðari en í fyrra var ráðgert.

Það sem hefur gerst núna í haust er það að félagsmálaráðherra bauð fram tiltekna fyrirgreiðslu af hálfu ríkisvaldsins með samþykki ríkisstjórnarinnar upp á 100 millj. kr. til að freista þessa að fá lífeyrissjóðina til að falla frá þessum áformum. Þeirri málaleitan var hafnað og til þess hafa lífeyrissjóðirnir að sjálfsögðu fullt frelsi því að þeir starfa ekki samkvæmt boði ríkisstjórnarinnar, heldur á grundvelli þeirra samþykkta sem um þá gilda og um það gilda að sjálfsögðu sérstök lög. Þar við situr hvað þetta varðar.

Ríkisstjórnin mun ekki og getur ekki beitt sér fyrir frekara inngripi í starfsemi lífeyrissjóðanna með frekari fyrirheitum um fjárveitingar. Það er mjög mikilvægt að halda starfsemi lífeyrissjóðanna almennt séð aðgreindri frá ríkisvaldinu. Hins vegar hefur það líka legið fyrir og kom fram við 2. umr. fjárlaga að milli 2. og 3. umr. mun ríkisstjórnin með almennari hætti leita leiða til að breyta almannatryggingalögum til hagsbóta fyrir bæði aldraða og öryrkja. Það mál er núna í vinnslu þó að það sé ekki beint tengt því máli sem hv. þingmaður spurði um.