135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa staðið miklar deilur í íslensku samfélagi um skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Fyrirsjáanlegar eru deilur á komandi missirum um það efni. Ég held að mjög hafi farið um margan manninn sem hlustaði á hæstv. forsætisráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, lýsa því yfir að fyrir einkavæðingar- og einkarekstrarsinna væri gósentíð í grennd eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fann eins þægilegan pólitískan lífsförunaut og Samfylkingin ætlar að reynast.

Það sem hins vegar kemur á óvart er að einnig varðandi sjúklingaskattana, komugjöldin, ætlar Samfylkingin að ganga fram. Þessi tillaga er tilraun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkur og, nota bene, Samfylkingin ásælist fjármuni veiks fólks.