135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:33]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil við upphaf þessarar umræðu af minni hálfu og fyrir hönd Framsóknarflokksins taka sérstaklega undir það sem þingflokksformaður okkar sagði hér á dögunum, hv. þingmaður, Siv Friðleifsdóttir, með leyfi forseta:

„Alþingi Íslendinga verður að hlýða kalli tímans. Það eru breyttir tímar og við verðum að taka það til greina í vinnubrögðum okkar. Það er ekki mönnum bjóðandi að hafa ræðutímann eins og hann hefur verið og þetta segi ég, þó að ég sé í stjórnarandstöðu. Hér hafa stundum verið fluttar ræður sem staðið hafa í marga klukkutíma, heilu næturnar og þetta er vopn sem stjórnarandstaðan hefur oft beitt til að reyna að koma málum af dagskrá.“

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir þessi varnaðarorð og ég vil segja við upphaf þessarar umræðu að við Íslendingar segjum oft á mikilvægum stundum að við eigum elsta þjóðþing heimsins. Stofnað á Þingvöllum árið 930, elsta og virðulegasta þjóðþing heimsins, sem á mörgum sviðum hefur verið fyrirmynd margra annarra þjóðþinga og menn hafa horft hingað reynslunnar vegna og viljað læra af okkur. Þess vegna er það náttúrlega mjög mikilvægt fyrir okkar forna og nýja þing að vera áfram í þeim fararbroddi, finna til í stormum samtímans, taka breytingum og kalli breyttra tíma til þess að vera áfram í fremstu röð.

Íslendingar voru oft veikir, og það er kannski vert að minnast þess líka hér að Alþingi Íslendinga var um langt skeið lagt niður og marga hugsjónamenn okkar á 19. öldinni dreymdi um að þing yrði endurreist. Þar voru Fjölnismenn og snarorðir snillingar sem sáu að frelsi þjóðarinnar og staða Íslendinga yrði veik og engin ef ekki risi upp öflugt Alþingi.

Jónas Hallgrímsson, sá mikli snillingur sagði:

 

Hörðum höndum

vinnur hölda kind

ár og eindaga;

siglir særokinn,

sólbitinn slær,

stjörnuskininn stritar.

Traustir skulu hornsteinar

hárra sala;

í kili skal kjörviður;

bóndi er bústólpi,

bú er landstólpi,

því skal hann virður vel.

 

Svo bætti hann við:

 

Ríða skulu rekkar,

ráðum land byggja,

fólkdjarfir fyrðar

til fundar sækja,

snarorðir snillingar

að stefnu sitja;

þjóðkjörin prúðmenni

þingsteinum á.

 

Sannarlega eru þetta orð í tíma töluð á hverjum tíma, þjóðkjörin prúðmenni, menn sem að virða hvern annan, hvort þeir skipa meiri hlutann í þetta sinn eða hinn tímann. Kannski er það nú svo þegar ég fer yfir stöðu Alþingis um langa hríð — ég hef fylgst með Alþingi lengi, setið hér lengi, og geri mér grein fyrir því að þingið, Alþingi Íslendinga er ekki lengur í fremstu röð í heiminum sakir vinnubragða sinna. Alþingi Íslendinga er ekki það sjálfstæða þing sem menn dreymdi um. Alþingi Íslendinga er veik stofnun af mörgum ástæðum.

Hér tala menn mjög um virðingu stjórnarandstöðunnar og það þurfi að styrkja stjórnarandstöðuna. Það er útúrsnúningur og fyrirsláttur. Alþingi Íslendinga er fyrst og fremst veikt af því það hvílir í fangi framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarflokkanna á hverjum tíma. Það er kannski sá aðskilnaður og sú stóra stund sem þarf að renna upp til þess að breyta hér starfsháttum, að menn átti sig á því að þar liggur veikleiki þingsins.

Ég er búinn að sitja hér dálítið langan tíma, eins og ég sagði. Því miður hefur mér fundist að þingmenn stjórnarflokkanna hefðu oft og tíðum ekki það frelsi sem þeir ættu að hafa og nýti þeir það frelsi þá eru þeir stundum ekki lengur í sátt í sínum hópi. Því miður sjáum við gerast hér í þinginu hluti sem ekki eiga að eiga sér stað. Þá á ég t.d. við það mál sem við ræðum á morgun. Hvernig má það vera að tveir forustumenn sem stýra ríkisstjórn semji um stjórnarráðslögin og breytingar á milli ráðuneytanna á einum tveggja manna fundi á Þingvöllum? (Gripið fram í: Við vorum fjögur.) Þannig að það er ljótur svipur á slíkum vinnubrögðum.

(Gripið fram í.) Nú grípur hér fram í sá garpur sem hefur haldið 500 ræður á hverju einasta þingi, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skýtur hér kolli sínum inn í ræðu mína. Ég held satt að segja að við þurfum líka að fara yfir það hvernig þingið starfar. Löngu ræðurnar setja ljótan svip á þinghaldið. Ég minnist þess t.d. þegar ég var að byrja á þingi þá vorum við hér oft dag og nótt. Við vorum stundum fram á Þorláksmessu eða nánast aðfangadag. Við vorum á milli jóla og nýárs. Og ég minnist þess með einstöku þakklæti þegar forsætisnefnd einhvern tíma á tíunda áratugnum fór að senda út í sjónvarpið umræður Alþingis. (Gripið fram í: … málþóf á milli jóla og nýárs.) Ég hef aldrei haldið langar ræður í þinginu, aldrei verulega langar. Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið málþófsflokkur, (Gripið fram í.) hefur aldrei verið málþófsflokkur.

Við verðum líka að greina á milli hvað er málþóf og hvað er ekki málþóf. Ég get t.d. tekið sem dæmi af því hv. þingmaður grípur hér fram í að það hafa margir hringt í mig utan úr þjóðfélaginu út af umræðunni um 2. umr. fjárlaga sem var rétt fyrir helgina og harma það hvað hún var einhliða af því tveir menn yfirtóku allan miðjan daginn. Þetta fólk sem fylgist með Alþingi vildi á þessum tíma meiri lýðræðislega umræðu. Það vildi heyra í fleiri mönnum en tveimur. Og þótt allir flokkar sem hér eru hafi tekið þátt í málþófi þá vitum við að Alþingi styrkist ef það hverfur frá löngum ræðum yfir í beittar umræður.

Breska þingið er t.d. á margan hátt til fyrirmyndar þar sem oft verða mjög snörp átök á milli ráðherra og þingmanna. Það er lýðræðislegt og það vekur áhuga fyrir þinginu. Þess vegna er ég sannfærður um að það sem við undirbjuggum hér í lok síðustu aldar, það þingskapafrumvarp sem nú liggur fyrir, það mun bæta Alþingi Íslendinga, það eru málamiðlanir og að menn nái samkomulagi, eins og hefur komið fram.

Ég fagna því að Alþingi starfi t.d. allt árið. Það er komið að því að við þurfum ekkert að vera að kveðjast hér fyrir jólin og fara í svokallað jólafrí. Þingið getur komið saman hvenær sem er. Alveg eins á vorin. Við þurfum að lengja þingtímann og gera hann skipulagðari. Því að hverfa heim á vorin, kannski í maí og koma ekki aftur saman fyrr en í október, þá er þingið ekki með í þjóðfélagsumræðunni.

Ég hefði að vísu t.d. viljað sjá það að 1. september kæmi saman nýtt þing, ekki gamla þingið, að nýtt þing byrjaði aftur 1. september og ég hygg að það verði svo í framtíðinni. Það er því margt í þessu. Eins er það með ræðutímann. Við gætum auðvitað velt því fyrir okkur hvort við séum að ganga of langt á einhverjum sviðum. Erum við að gera alveg hárrétt? En þetta er niðurstaða sem hefur orðið til.

Það er ágreiningur á milli flokkanna. Þingmenn vinstri grænna hafa ekki fallist á þessa niðurstöðu. Sú niðurstaða sem kom eftir margra vikna umræðu meðal formanna þingflokka í forsætisnefnd þingsins, í stjórnmálaflokkunum kom mér að vísu dálítið á óvart, af því mér fannst það vera vilji allra að ná saman.

Ég skal viðurkenna það, hæstv. forseti, að mér sárnar það á þessari stundu að forustumenn vinstri grænna skuli bera það á aðra eins og þeir hafa gert í dag, og lýsa því yfir við þjóðina að aðrir hafi verið í einhverri kaupmennsku. Umræða um að versla með réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðunnar. Það er mjög rangur áburður og mjög alvarlegur áburður.

Hv. þingmenn sem hafa, alveg eins og við hinir, skrifað undir drengskaparheit um að fylgja sannfæringu sinni eiga ekki að bjóða okkur þessar umræður. Það gerðu sér allir ljóst þegar þessi umræða hófst hjá hæstv. forseta Sturlu Böðvarssyni, sem hafði eins og okkur mörg dreymt um að þingið stigi ný skref, að þar var auðvitað verið að ræða um stórt mál, bæði til þess að breyta þinginu og styrkja það á svo mörgum vígstöðvum. Þetta hlaut út af fyrir sig að vera eitt mál og menn gátu ekki klofið það og valið úr því við þessar aðstæður. Þannig gerist ekkert þegar svo stórt mál er tekið fyrir í þinginu. Ég bið menn því að gæta hófs í þeirri umræðu.

Við í Framsóknarflokknum margræddum þetta mál. Við komum athugasemdum okkar á framfæri, við sjáum mjög margt í þessu máli sem breyta mun þinginu og efla það en það er ekki þar fyrir að við teljum allt sé eins og það eigi að vera. Sannarlega er það svo með mig.

Þegar þessi klofningur varð hittumst við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og ræddum þetta okkar á milli. Við höfðum náð saman með meiri hlutanum á þinginu en við gengum á fund hæstv. forseta Sturlu Böðvarssonar til að fara yfir það hvort einhver leið væri til að ná saman með Vinstri grænum. Nú hefur það ekki orðið. Ég átta mig að vísu ekki á þeim ágreiningi. Mér finnst hann fyrst og fremst snúa að því að þeir vilji halda áfram sínum löngu ræðum hér. Ég minni t.d. á að Alþýðubandalagið gamla, sem er grunnur að Vinstri grænum, var líklega fyrsti þingflokkurinn sem tók að takmarka ræðutíma á þingflokksfundum. Mig minnir að það hafi verið þrjár mínútur. Það var því ekki mikið frelsi gefið til langrar umræðu á þeim tíma.

Margrét Frímannsdóttir, sem þá var þingflokksformaður, gerði sér auðvitað grein fyrir því að þarna voru margir mælskir menn sem vildu taka langan tíma. Ég held að þetta hafi verið svona, að um hvert mál sem til umræðu var gátu menn talað í þrjár mínútur. Ég hefði alveg getað lifað með Alþýðubandalaginu og haft gaman af þessum fundum. En ég verð að segja fyrir mig að mér finnst þinghaldið með þeim löngu ræðum sem við ástundum ekki heillandi vettvangur. Það er ekki heillandi fyrir þá sem vinna hér. Það er ekki líklegt til að menn sitji í þingsalnum því að enginn hefur verið kjörinn til þess að sitja hér undir hverju sem er. Menn yfirgefa þingsalinn og fara út á skrifstofur sínar. Það er ekki heillandi fyrir þá mörgu sem í vaxandi mæli hafa tamið sér að fylgjast með þinginu. Og ég er sannarlega þeirrar skoðunar, eins og ég rakti áðan, að ræður þingmanna hafi batnað þegar farið var að sjónvarpa frá þingfundum. Þær styttust, þær breyttust og þær urðu markvissari.

Ég held að það sé stórt mál fyrir þingið að hugsa til þess hvort ekki sé hægt að útvarpa og sjónvarpa hverri einustu umræðu sem fram fer í þinginu. Sú umræða sem nú er fer fram hér í skjóli kvölds og nætur verður í sjónvarpinu í fyrramálið. Það væri mikill fengur að því ef hún gæti verið inni á heimilunum í kvöld. Menn geta jú horft á þingið á netinu og gera það sjálfsagt um víða veröld en ég held að við þurfum að huga að þessum breytingum. Við skulum gá að því að ríkisstjórnin hefur breytt störfum sínum, ráðherrarnir ráðuneytum. Hæstiréttur hefur breytt störfum sínum í takt við tímann. (Gripið fram í.) og takmarkað ræðutíma. Og eitt er ljóst, hv. þm. Jón Bjarnason, sem ert nú málglaður hér og tekur langan tíma að fréttir fjölmiðlanna eru jafnlangar hvern einasta dag hvað sem um er að vera. (Gripið fram í.) Það er rétt, við erum ekki þar. En við verðum samt sem áður að koma þinginu í það horf að þar geti bæði verið rökræða, kappræða og lifandi umræða. Ég held að full ástæða sé til þess að breyta mörgu í störfum okkar .

Við eigum líka að velta einu fyrir okkur sem ég held að sé stórmál og getur ráðist af umgjörð þingsins og vinnubrögðum: Sækist ungt fólk í dag eftir þingmennsku? Jú, sem betur fer sjáum við það koma en samt sem áður skal ég viðurkenna það að aðstæður í íslensku samfélagi eru allt aðrar en þær voru þegar ég kom inn á þing fyrir 20 árum. Ungt, vel menntað fólk á úr miklu meiru að velja. Virðing þingsins veltur á aðbúnaði, hún veltur á vinnutíma og hún veltur líka á launakjörum sem hér er boðið upp á. Við erum mjög sátt við það, alþingismenn, að þurfa ekki að ráða kaupi okkar sjálf. Ég held að það gengi aldrei upp. En það má spyrja sig að því, miðað við þá breyttu stöðu og breyttu tækifæri sem nú eru í samfélaginu: Hvernig hugsar kjararáð t.d. þegar það markar alþingismönnum samtímans laun? Markar það þingmönnum laun eins og þeir séu í hlutastarfi? Því sannleikurinn er sá, þegar við skoðum stöðuna í dag og hið breytta þjóðfélag, að gríðarlega há laun eru borguð hjá mörgum stéttum samfélagsins. Millistjórnendur í bankakerfinu eru sjálfsagt með tvöföld þingmannslaun. Við sjáum að Kjaradómur markar ríkisforstjórum mun hærri laun en þingmönnum og ráðuneytisstjórar eru á hærri kjörum en ráðherrarnir. Einkageirinn hefur náttúrlega gengið allt of langt á mörgum sviðum í að taka margföld laun ráðherra og alþingismanna. Við þurfum því að velta þessu fyrir okkur: Fjallar kjararáð um Alþingi eins og það starfi bara hálft árið eins og var t.d. fyrir 35 árum?

Við þingmenn, a.m.k. landsbyggðarinnar, vinnum mjög langan vinnudag, við erum oft og tíðum að vinna með okkar fólki og fara um landið þá daga sem þing er ekki að störfum, að halda fundi og hitta fólk. Við vitum að þingið hefur lagt það á þingmenn sína með breytingu á kjördæmalögunum að kjördæmin eru orðin gríðarlega stór og erfið og eiginlega óvinnandi vegur fyrir menn að sinna öllum þeim skyldum sem þeir sannarlega þurfa að gera með sínu fólki. Það er ekki bara spurning um að láta sjá sig, fólkið á landsbyggðinni gerir kröfur um að þingmenn kynni sér málin og haldi fundi og séu á vettvangi. Þarna hafa orðið miklar breytingar.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því þegar við sitjum yfir þessari breytingu á þingsköpum og ræðutíma að sveitarstjórnastigið á Íslandi hefur tekið stórkostlegum breytingum. Sveitarstjórnarmenn, hvort sem er í borgarstjórninni í Reykjavík eða í sveitarstjórnum á landsbyggðinni, hafa horfið að mestu frá hinum löngu ræðum. Þeir hafa takmarkað ræðutímann. (Gripið fram í.) Þeir hafa breytt fundarforminu og ég hygg að það sé svo komið a.m.k. í borgarstjórn Reykjavíkur að launakjör borgarfulltrúa eru mun hærri en alþingismanna. Svo ég taki það sem dæmi. (Gripið fram í.) Enda heyri ég einn hv. þingmann kalla inn að hann hafi stórlega lækkað í launum með því að koma til starfa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Svo er það hárrétt, sem betur fer, að hér er annar þingmaður sem fimmfaldaði laun sín með því að setjast inn á þing í stuttan tíma og það segir okkur kannski hversu mikil misskiptingin er í launakjörum á vinnumarkaðnum

Þegar ég fer yfir það frumvarp sem hér er til umræðu þá styð ég heils hugar aðalatriði þess, að lengja reglulegan starfstíma Alþingis. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Þingið getur ekki verið fjarri vettvangi, ég held að við öll séum sammála um það. Þingið verður að geta komið saman nánast fyrirvaralaust, það verður að starfa sumar, haust, vetur og vor. Það fylgir þessari breytingu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að efla eftirlitshlutverk þingsins. Framtíðin er auðvitað sú að gera nefndarstörf á Alþingi enn þá öflugri, einnig mætti opna nefndirnar fyrir fjölmiðlum ákveðna daga og við ákveðna umræðu og almenningur gæti þá fylgst með þeim störfum sem þar fara fram til að gera nefndarstarfið skilvirkara

Það er líka alveg skýlaus krafa, sem ég hygg að flestir þingmenn séu sammála um og vinstri grænir líka, að draga úr kvöld- og næturfundum því að það er ekki fallegur svipur á þessum vinnubrögðum og þess vegna er mjög mikilvægt að marka fundartíma skýrt. Ég segi fyrir mig að það hlýtur að vera skylda forsætisnefndar, eftir að ræðutími hefur verið takmarkaður með þessum hætti, að afmarka þinghaldið við dagvinnutíma. (Gripið fram í.) Menn þurfa að fara yfir það því að við ætlum að skapa öðruvísi umræðu sem mun á einhverjum tíma þróast þannig, en þá megum við ekki standa frammi fyrir því að menn hafi sama frelsið til að tala fram á kvöldið og inn í nóttina og áður var.

Þá er atriði sem mér finnst mjög mikilvægt, að ráðherrar komi oftar á fundi þingnefnda, sem ekki hefur verið regla hér í þinginu. Ég hygg t.d. að þann tíma sem ég starfaði sem landbúnaðarráðherra, í átta ár, hafi ég aldrei verið kallaður á fund landbúnaðarnefndar, kannski treystu nefndarmenn mér mjög vel og flest það sem ég var að gera var auðvitað gott eins og þingmenn þekkja. (Gripið fram í.) Ég held að það sé bæði gagnlegt fyrir ráðherrann og nefndina að hittast. Auðvitað hittumst við stundum, ég átti góða stund með nefndinni einu sinni á ári til að skiptast á skoðunum og kynnast og síðan í ágætum ferðalögum um landið sem gaman var að.

Að gera umræður markvissari og styttri. Ég held að þetta atriði sé allt af hinu góða.

Síðan er það sem kannski skiptir máli þegar við hugsum um Alþingi Íslendinga, löggjafarþingið sjálft, mikilvægustu stofnun Íslands, að það er enginn vafi að þingið hefur í rauninni sætt sig við það, eins og ég var að rekja, að ríkisstjórn á hverjum tíma stjórni þinginu að vissu marki. Og sannarlega er það svo þó að mörgum finnist stundum, a.m.k. þegar laun alþingismanna eða ráðherra hækka og þegar einhver kostnaður er í viðbót, að þingið sé dýrt en þegar við gætum að kostar Alþingi Íslendinga minna en flest ráðuneytin og undirstofnanir þess. Íslenska þjóðin er því ekki að leggja mjög mikið í löggjafarþing sitt hlutfallslega. Í rauninni eigum við að kalla eftir meiri virðingu, vinnu og aðhaldi og störfum í þinginu en um leið kallar það á viðbótarfé til þess að tryggja lýðræði og eftirlit og störf hér.

Undir þetta allt saman tek ég. Svo er hitt auðvitað ljóst sem kom fram í dag, skyldur á Alþingi hafa vaxið stórlega á síðustu árum í alþjóðlegu starfi Alþingis og alþingismanna sem eru líka mjög mikilvægar. Þegar ég var strákur var það einn maður sem fór til útlanda oft og tíðum, það var utanríkisráðherrann. Það voru teiknaðar af honum myndir og gert að honum grín fyrir að vera á miklum ferðalögum. Nú eru það orðnar miklu meiri skyldur á öllum ráðherrum, forsetanum og sem betur fer á þingnefndum og þingmönnum. Þeir þurfa að taka þátt í þessu alþjóðlega og evrópska starfi til að fylgjast með, geta sótt og varið íslenska hagsmuni, vera vel að sér í þinginu í umræðu og koma afstöðu Íslendinga áfram. Hér er stórt verkefni og í rauninni stigið stutt skref til að breyta þinginu.

Ég er sannfærður um að við hvert skref sem við stígum munum við sjá að við þurfum að stíga ný skref til að bæði efla þingið og breyta því. Starfsvettvangur fyrirtækjanna er öðruvísi en hann var fyrir 10 eða 15 árum. Ákvarðanir þarf að taka með markvissari hætti og á styttri tíma.

Ég tel, hæstv. forseti, að hér séum við á réttri leið en ég hvet auðvitað til þess að menn fari vel yfir málið á milli umræðna og leiti sátta og hvort menn nái saman um þær breytingar. Mig langar t.d. til að heyra við umræðuna — ég er ekki búinn að heyra það — hvað það er sérstaklega sem vinstri grænir vilja leggja áherslu á. Þeir eru í rauninni búnir að segjast vera sammála öllum þeim atriðum sem ég hef rætt um. Þeir vilja að vísu kljúfa í sundur málið og klára annan hluta þess en ekki hinn. Þeir vilja geyma ræðutímann. Kannski er það þessi svellkalda þrá þeirra til að tala í 3–4 tíma hver og einn í hverju einasta máli. (Gripið fram í: Gerum við það?) Mjög margir. (Gripið fram í: Gerum við það?) (Gripið fram í: … í hverju máli.) Mjög margir, auðvitað tala menn minna í samstöðumálum, en þó er það svo í málþófi að menn tala oft mikið um samstöðumálin. Ég vildi fá það á hreint hér hvar sá vettvangur er sem þeir, eins og við öll hin, hafa gefið eitthvað eftir. Ég var ekki sáttur við allt. Ég varð að fella mig við það. Ég er einn af 63 þannig að eitthvað sem ég sé fyrir mér í þinghaldinu kemst ekki áfram núna en vonandi síðar. Ég lýsi eftir að fá að heyra það í kvöld hvar vinstri grænir geta mætt okkur í ræðutímanum.

Þegar ég fór í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið voru strax komnir á mælendaskrá 25 þingmenn. Í mörgum þjóðlöndum er þetta gert miklu snarpara. Þá er það talsmaður flokks og styttri, snarpari og lýðræðislegri umræða þar sem skoðanaskiptin komast áfram. Hér var hins vegar a.m.k. einn þriðji þingsins strax kominn á mælendaskrá og við tókum í hana tvo daga. Ég er ekki viss um nema þessi umræða um t.d. fjárlögin hefði verið snarpari með allt öðrum hætti, sterkum talsmönnum í 20 mínútur hver og síðan styttri ræðum til að fylgja eftir og hafa verkaskiptingu innan þingflokka til að fylgja eftir einhverjum aðalatriðum sem við leggjum áherslu á.

Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, að við framsóknarmenn höfum tekið þá afstöðu eftir mjög ítarlegar umræður að fylgja þessu máli eftir og styðja það. Við teljum það skref fram á veginn til að breyta starfsaðstöðu og störfum Alþingis til að gera það að sterkari stofnun. Ég frábið mér umræðu um að þetta sé gert fyrir stjórnarandstöðuna. Þetta er fyrst og fremst gert fyrir þingræðið og ég minni á að stundum er talað um að það sé sundrung í stjórnarandstöðunni. Hvernig í ósköpunum á annað að vera, t.d. milli okkar formannanna, mín og Steingríms J. Sigfússonar — hann harðvítugur vinstri maður úti á kanti, ég leikandi léttur á miðjunni (Gripið fram í: Léttur á bárunni.) — en að einhvern tíma verði ólík sjónarmið okkar á milli? Við erum hvor í sínum flokknum. Ég hef verið í hans flokki, og svona flokkur þarf að vera í hverju einasta þjóðþingi. Gagnrýnendurnir verða að vera til staðar. Ég hef ekkert við það að athuga. Hann er harðvítugur vinstri maður og heiðarlegur stjórnmálamaður þannig að ég hlusta oft á hann. Oft er ég honum sammála en í meginatriðum skilur okkur margt að pólitískt, á vettvangi stjórnmálanna. Þess vegna er mjög undarlegt þegar menn koma hér upp eins og hæstv. iðnaðarráðherra og tala um að stjórnarandstaðan sé sundruð. Við erum miklu meira undrandi á því hvernig þeir sem hafa ákveðið að vera í hjónabandi og ríkisstjórn, eins og nú er, tala hver um annan og hver við annan og láta hin sundurlyndu sjónarmið koma fram. Því fylgja alltaf brestir.

Ég frábið mér umræðu um að þetta sé gert fyrir okkur. Ég tel þetta gert fyrir þingræðið og ég hef lýst því yfir að ég hef áhyggjur af stjórnarmeirihlutanum. Ég hef áhyggjur af hinum frjálsbornu þingmönnum stjórnarflokkanna oft og tíðum og í rauninni er ekkert hættulegra í lýðræðisríki en ef flokksræði tekur völdin. Því miður finnst mér á síðustu árum hafa örlað nokkuð á því að menn sætti sig umræðulaust við mál sem þeir ekki styðja.

Ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, með því að vonast til að samstaða náist um málið, að við getum farið yfir það og náð saman um það. Ég vona að þetta mikla mál sem mun styrkja Alþingi og breyta því verði að lögum fyrir jól.