135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:37]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki á því af hverju þingmenn þurfa að yfirvinna flatarmál. Þeir eru ekki kjörnir til að yfirvinna flatarmál, þeir eru kjörnir til að setja þjóðinni lög. Ég veit ekki heldur hvaða tæknilegu hindranir hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir þarf að yfirvinna til að komast í Trékyllisvík eða hvaða erindi hún á þangað yfir höfuð. En hins vegar skal ég viðurkenna að þekking hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur á landafræði er yfirgripsmikil og góð og það er í sjálfu sér ágætt.

Ég lít hins vegar ekki þannig á að starf þingmannsins sé fyrst og fremst það að ferðast aftur á bak og áfram um kjördæmi sitt. Ég lít á það sem hlutverk þingmannsins að vera í sambandi við fólk í sínu kjördæmi og þess vegna landsmenn varðandi þau löggjafarmálefni sem eru til meðferðar hverju sinni og hlusta eftir óskum fólks, hverju það vill að þingmaðurinn sinni, hverju það sé andvígt o.s.frv. En það getur gerst og gerist án þess að fólk þurfi að vera á staðnum. Aðstæður hafa hvað þetta varðar gerbreyst frá því sem var meðan menn voru meira og minna símasambandslausir og þurftu að vera á staðnum og hitta viðkomandi. Á tímum hestvagnanna hefði kannski verið hægt að skoða þetta.

En ég ítreka að þingmenn eru kjörnir af fólki til að setja lög fyrir fólkið í landinu. Þeir eru ekki kosnir af flatarmáli, engjum, fjósum eða byggingum. Það er mergurinn málsins. Það verður að líta á stöðu þingmanna sem þingmanna þjóðarinnar sem setja lög fyrir þjóðina en ekki einstaka landshluta. Þess vegna eiga kjör þingmanna að vera þau sömu óháð því úr hvaða kjördæmi þeir eru kosnir.