135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:17]
Hlusta

Jón Björn Hákonarson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þarfa umræðu um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fjármál sveitarfélaga. Því er ekki að neita að þetta er gífurlegt áhyggjuefni. Þrátt fyrir að sveitarfélögin skili afgangi, eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra, er það samt svo að þegar við horfum yfir sveitarfélögin í heild sinni sjáum við ákveðin sveitarfélög á þenslusvæðum sem það gera en ástandið er mun alvarlegra annars staðar.

Við horfum vissulega á fækkun en því er ekki að neita að breyting þegar kemur að fjármagnstekjuskatti hefur haft gífurleg áhrif og það þekkja margir hv. þingmenn. Við getum tekið dæmi um sveitarfélög úti á landi sem hafa orðið fyrir gífurlegri tekjuskerðingu í kjölfar ehf.-væðingarinnar eða einkahlutafélaganna. Það var mikið áfall að hæstv. fjármálaráðherra skyldi á fjármálaráðstefnunni svo að segja blása það út af borðinu að um þátttöku í fjármagnstekjuskatti væri að ræða. Þetta hefur gríðarmikil áhrif, sérstaklega á minni sveitarfélög, og til þess verður að horfa.

Sveitarfélögin hafa líka á liðnum árum tekið á sig ýmis verkefni. Ég held að við getum öll verið sammála um það hér, hv. þingmenn, að þau hafa oftast leyst þau mál af miklum glæsibrag. En um leið hefur líka komið í ljós að með þeim verkefnum verða að fylgja nægir tekjustofnar.

Ég fagna því, þó að kannski sé lítið sagt afdráttarlaust í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar um þau mál. Nú í vikunni liggur fyrir frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um breytingu á grunnskóla og leikskóla. Það hefur legið í orðanna hljóðan í umræðum í fjölmiðlum að sú breyting kalli á aukinn kostnað sveitarfélaganna. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin sé þá farin að hugsa til þess hvernig koma skuli til móts við það. Ég geri þá ráð fyrir að frumvörpin verði lögfest á þessu þingi.