135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. síðasta ræðumann um að við höfum flutt tillögur undanfarin ár um aðgerðir til að bæta fjárhag sveitarfélaganna — ég sé nú að þingmaður er að ganga í sæti sitt. Við lögðum t.d. til á sínum tíma, þegar tekjuskattsprósentan var lækkuð, að hluti af þeirri lækkun færðist yfir í auknar útsvarsheimildir sveitarfélaga. Við höfum flutt árlega tillögur um aukin framlög til tekju- og aðstöðujöfnunar í jöfnunarsjóði og ríkissjóði og þar fram eftir götunum. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þær tillögur.

Ég tók þessa umræðu hins vegar upp til að fá fregnir af stöðu málsins hjá ríkisstjórn, sérstaklega í ljósi þess að nú líður að lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarps og ekki seinna vænna að koma einhverju í verk ef það stendur til. Það er hægt að tala og setja einhverja stafi á blað en það örlar ekki á því að ríkisstjórnin ætli að aðhafast neitt. Menn virðast skjóta því fyrir sig að fjármálareglur vanti til þess t.d. að hægt sé að ganga til aðgerða sem snerta lækkun skulda sveitarfélaganna, sem fyrirheit hafa verið gefin um og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði fyrir kosningar og samþykkti á landsfundi síðasta vor.

Er það þá það sem strandar á, hinum nýju spennitreyjureglum sem hneppa á sveitarfélögin í? Ég fæ ekki betur séð en það sé ákveðin aðför að fjárhagslegu sjálfstæði þeirra. Þarf einhverjar sérstakar reglur aðrar en gildandi lög og lög um bókhald og ársreikninga og annað það sem sveitarfélögin eru hvort sem er bundin af? Ríkið ætlar að þvinga lög yfir sveitarfélögin gegn þeirri gulrót að það muni hjálpa þeim eitthvað við að lækka skuldirnar.

Er þá eitthvað að gerast í þessum efnum? Mun eitthvað koma inn við 3. umr. fjárlaga sem verður liður í því að taka á skuldum verst settu sveitarfélaganna? Verða framlög til tekju- og aðstöðujöfnunar hækkuð? Sveltistefnan gagnvart sveitarfélögunum hefur unnið ómælt tjón á undanförnum árum og hefur neytt sveitarfélögin út í sársaukafullar aðgerðir eins og eignasölu og (Forseti hringir.) að hrekjast út í leiðir einkafjármögnunar í framkvæmdum. Það er löngu tímabært að því linni.