135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins.

[20:06]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég hef margítrekað óskað eftir gögnum um Þróunarfélagið, verið lofað þeim en þau koma ekki. Ég skrifaði ríkisendurskoðanda bréf, eða upplýsingasviði Alþingis, bað um þessi gögn og fékk þær skýringar að ríkisendurskoðandi hefði ekki heimild til að afhenda mér þau. Ég hélt að ríkisendurskoðandi heyrði undir forsætisnefndina og ég lít svo á að ríkisendurskoðandi sé að setja stein í götu mína, þá götu sem ég á að feta sem þingmaður til eftirlits með fjármunum ríkisins, tekjum og gjöldum.

Ég tek líka undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að það er algerlega óþolandi að svona sé hringlað með dagskrána. Flokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skipuleggur sig fyrir fram fyrir daginn. Við vorum búin að skipuleggja okkur og undirbúa þessa umræðu í kvöld, áframhaldandi umræðu um bandorminn. Nú er búið að kippa því máli af dagskrá og taka upp önnur málefni sem menn eru ekki undirbúnir fyrir sem eru hér á staðnum. (Gripið fram í.) Á mælendaskrá voru sex eða sjö sem áttu ólokið ræðum sínum í bandormsmálinu. Ég verð að gagnrýna þetta. Mér finnast þessi vinnubrögð óeðlileg og ég endurtek það sem ég spurði um — ég held að það hafi verið í gærkvöldi: Hvers er að vænta með fundartíma í kvöld? Hvenær má ég vænta þess að komast heim og sinna fjölskyldumálum á þessu fjölskylduvæna þingi þar sem ræðutíminn einn virðist vera alfa og omega allra siða?

Ég spyr, herra forseti: Hvers er að vænta með lengd fundartíma í kvöld?