135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt, flestar þeirra minni háttar. Tvær þeirra er þó vert að nefna sérstaklega.

Í fyrsta lagi er lagt til að viðmiðunarfjárhæðir laganna, þ.e. fjárhæðir vegna sjómannaafsláttar, barnabóta og vaxtabóta, hækki í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008. Í því sambandi er rétt að nefna að samkvæmt gildandi lögum um tekjuskatt hækkar persónuafsláttur árlega í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði, þ.e. frá desember til desember ár hvert. Samkvæmt verðlagsforsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008 er áætlað að hækkun vísitölunnar á umræddu tímabili nemi 4,8%. Persónuafslátturinn mun því að óbreyttu hækka í takt við þá forsendu í upphafi næsta árs án sérstakrar lagabreytingar.

Í öðru lagi eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á reglum um greiðslu barnabóta með börnum sem eru heimilisföst í einhverju ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Þeim breytingum er ætlað að tryggja betur að íslenskar reglur um rétt til barnabóta samrýmist reglugerðum Evrópubandalagsins um beitingu almannatryggingareglna, þar með talið greiðslu barnabóta, gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja. Um þann rétt hefur ríkt ákveðin óvissa sem ætlunin er að eyða með frumvarpi þessu.

Evrópusambandsreglugerðirnar eru hluti VI. viðauka EES-samningsins og er þeim m.a. ætlað að koma í veg fyrir að aðildarríki geri búsetu fjölskyldu launþega í aðildarríki að skilyrði fyrir greiðslu fjölskyldubóta þar sem slíkt mundi aftra launþega frá því að nýta sér reglur um frjálsa för launþega. Samkvæmt reglugerðunum skal launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur sem heyrir undir löggjöf aðildarríkis eiga rétt á þeim bótum sem löggjöf þess aðildarríkis gerir ráð fyrir til handa börnum sem eru búsett í öðru aðildarríki, sé hann talinn framfærandi þeirra á sama hátt og þau væru búsett í fyrrgreindu ríki. Þannig á til að mynda íslenskur ríkisborgari sem starfar í Frakklandi en telst framfærandi barns á Íslandi sama rétt á barnabótum frá frönskum stjórnvöldum eins og ef barnið byggi í Frakklandi. Á sama hátt og pólskur ríkisborgari sem starfar hér á landi en er með börn á framfæri í Póllandi rétt á barnabótum frá íslenskum stjórnvöldum eins og ef barnið væri á Íslandi. Með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu ber Íslandi að framfylgja þessum reglugerðum.

Með tillögu frumvarpsins er eins og áður sagði stefnt að því að veita fyrrnefndum reglugerðum traustari lagastoð í íslenskum rétti.

Að lokum eru í frumvarpinu einnig lagðar til ýmsar breytingar á hugtakanotkun og orðalagi, m.a. til samræmis við sambærileg hugtök í lögum um ársreikninga, auk nokkurra leiðréttinga.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.