135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

291. mál
[22:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í gærkvöldi var þingfundur, stóð allt kvöldið og fram á nótt, ég held að klukkan hafi verið orðin hálfeitt þegar þingstörfum lauk. Þegar formenn þingflokka komu saman til að ráða ráðum sínum eða öllu heldur til að hlýða á hugmyndir hæstv. forseta um þinghaldið í dag var rætt um það hvort þingfundi yrði haldið fram á kvöldið. Ekkert var endanlega ákveðið í því efni en fyrir mitt leyti lýsti ég eindregnum andmælum við því að þingfundur stæði lengur en til klukkan tíu. Ég skildi það svo, þótt ekkert yrði fastmælum bundið á þeim fundi að sönnu, að þingfundur yrði ekki látinn standa mjög langt fram á kvöldið. Ég ítreka að ekkert var fastmælum bundið um þetta atriði en lagði fyrir mitt leyti, og fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, áherslu á að þingfundur stæði ekki lengur en til klukkan tíu.

Hér hafa farið fram ágætar umræður um mikilvæg málefni, við erum búin að afgreiða einhver mál til þingnefnda en nú er mál að linni. Ég óska eftir því að hlé verði gert á þessum fundi eða að forseti geri okkur heyrinkunnugt að þingfundi verði lokið. Ég óska eftir svörum.