135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

skýrsla frá Ríkisendurskoðun og ummæli þingmanns.

[13:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vek athygli forseta á því að fyrir nokkru, fyrr í dag, var frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2007 tekið út úr fjárlaganefnd gegn vilja mínum, gegn atkvæði mínu, og það laut einmitt að þeim kafla í fjáraukalögunum sem snertir rekstur fyrrum varnarsvæða á Keflavíkurflugvelli, þ.e. sölumeðferð á eignum og einnig á samningum og þeim skuldbindingum sem eru á bak við gjöld. Ég hef ítrekað óskað eftir gögnum í fjárlaganefnd frá fjármálaráðherra sem þetta mál heyrir undir. Ég hef ítrekað óskað eftir gögnum um alla samninga sem lúta að sölu þessara eigna, hvernig verð var fundið, hvort gætt hafi verið þar jafnræðis. Ég hef líka óskað eftir gögnum um samninga sem gerðir hafa verið um verkkaup, þjónustu og annað af hálfu þróunarfélagsins sem er á ábyrgð fjármálaráðherra og ég tel að þingið geti ekki, herra forseti, tekið frumvarp til fjáraukalaga til umræðu fyrr en þessi gögn eru öll komin fram og óvissu hefur verið eytt um áreiðanleika þessara gagna og umgjörð þeirra.

Ég tel að það sé alveg skilyrðislaust nauðsynlegt fyrir þingið að það fái þessi gögn fram. Ég skora á hæstv. forseta að beita sér gagnvart fjármálaráðherra til að þessi gögn verði lögð fyrir þingnefndir og þingið (Forseti hringir.) áður en frumvarp til fjáraukalaga verður borið fram.