135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:49]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Árna Johnsen. Það er náttúrlega sárt og sorglegt hvernig Vestmannaeyingar eru dregnir á asnaeyrum. Það er auðvitað engin leið að taka Herjólf burtu í einhverja daga. Það er eins og að taka þjóðveginn af byggðinni. Þetta er ófært mál. Síðan hvað þeirra samgöngur varðar þá fæst ekki það fé sem lofað var til rannsókna á jarðgöngum og Bakkafjöruhöfn liggur ekki fyrir enn.

Ég hef lengi talið að nýtt skip sé forsenda framtíðarinnar í Vestmannaeyjum. Fimm ár er langur tími í bið. Og Herjólfur er orðinn gamall eins og hér hefur komið fram. Þess vegna er mikilvægt að samgönguráðherra og stjórnvöld átti sig á því að nýtt skip verður að koma til sögunnar. Það ætti að vera búið að hefja smíði þess fyrir löngu síðan.

Við þekkjum að flugið er stopult en þjóðleiðin til Vestmannaeyja er frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja í dag. Þar verður að vera nýtt stærra og öflugra og hraðskreiðara skip en þar er nú og það verður auðvitað að knýja á um það að úrslit fáist í umræðunni um jarðgöng og Bakkafjöruhöfn sem fyrst. Það dugir ekki að draga öflugt sveitarfélag, eyjarnar sjálfar sem afla gjaldeyris fyrir þessa þjóð, á asnaeyrum eins og því miður er gert. Við verðum að fá niðurstöðu í þessi mál. Og þegar Herjólfur hverfur frá stutta stund á sjúkrahús þá verður annar að sigla á meðan.