135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:43]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að vekja þessa umræðu og hafa frumkvæði að henni. Ég tek fúslega undir með honum að meginmarkmið okkar sem þjóðar á að vera það að byggja landið allt. Liður í því verki er að gera fólki kleift að búa sem víðast um landið og einn stór liður í því á Austurlandi var það verkefni sem hér hefur komið til umræðu og nefnist virkjun við Kárahnjúka og stóriðja á Reyðarfirði. Vissulega er það umdeilt mál. En það getur ekki verið umdeilt meðal Íslendinga að við ætlum okkur að lifa af gögnum og gæðum landsins, hvort heldur er til lands eða sjávar, og það fylgir því að við hljótum að þurfa að ganga á og nýta náttúruna. Við reynum að gera það alla tíð af virðingu gagnvart og fyrir náttúrunni.

Það er óumdeilt að í dag hefur þetta verkefni skapað um 800 ný störf á Austurlandi. Ætlar einhver að dirfast að mótmæla því að það komi þeim landsfjórðungi til góða? Á sama tíma stöndum við frammi fyrir samdrætti í þorskveiðum og hefur verið vitað í mörg herrans ár að Íslendingar mundu þurfa minni mannafla til að stunda þá atvinnugrein. Við verðum að mæta því með einhverjum hætti og ég tel að Kárahnjúkaverkefnið sé mjög gott dæmi um það hvernig tækniþekkingu og menntun þjóðarinnar hefur fleygt fram og nýtist okkur til að byggja upp á nýjum sviðum.

Varðandi það sem komið hefur fram varðandi stöðu annarra svæða á Austurlandi tek ég heils hugar undir að þar eru jaðarsvæði sem okkur ber að taka á með sama hætti og hefur verið gert gagnvart Norðvesturkjördæminu. Hjá hæstv. iðnaðarráðherra hefur komið fram vilji til þess að vinna að því með Austfirðingum á þeim jaðarsvæðum sem þar eru. Ég fagna því sérstaklega og lýsi því yfir fyrir hönd þingmanna Norðausturkjördæmis að þeir eru fúsir til samstarfs við hæstv. ráðherra í því efni.