135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fyrirspurn á dagskrá.

[18:05]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að koma hér upp og spyrja virðulegan forseta út í þetta mál sem hv. þm. Jón Björn Hákonarson tók hér upp, hvort þetta sé ekki harla óvenjulegt. Stundum er samið um að fyrirspurnir bíði út af einhverjum ástæðum sem koma upp en í þessu tilviki var búið að setja fyrirspurnina á dagskrá, hún er nr. 24 á dagskrá þannig að það stóð til að svara henni. Fyrirspurnir eru ekki settar á dagskrá nema hæstv. ráðherra sé tilbúinn til svara. Það er alltaf haft samband við ráðherrana áður og þeir spurðir: Ertu tilbúinn til að svara þessari fyrirspurn á morgun eða eftir tvo daga? o.s.frv. Hæstv. ráðherrar svara annaðhvort já eða nei, eða ég þarf meiri tíma. Þeir ákveða sjálfir hvort á að setja málið á dagskrá eða ekki. Þess vegna finnst mér þetta mjög óvenjulegt. Þar sem málið er komið á dagskrá hlýtur hæstv. heilbrigðisráðherra, aðstoðarmaður hans eða ritari eða einhver í ráðuneytinu að hafa sagt að ráðherra væri tilbúinn til svara nú þegar varaþingmaðurinn er tilbúinn til þess að fara í umræðuna. Mér finnst þetta mjög sérstakt. Það er ljóst að hæstv. ráðherra er ekki upptekinn, hann er hérna frammi núna, situr hér frammi eftir blaðamannafund vegna öldrunarmála. Hæstv. heilbrigðisráðherra er á staðnum og hefur samþykkt að svara þessu miðað við það að málið sé á dagskrá en allt í einu er því kippt til baka.

Virðulegi forseti. Þetta er mjög óvenjulegt og væri ágætt að heyra hvort virðulegi forseti hefur einhverjar frekari upplýsingar um þessa óvenjulegu stöðu.

Þetta mál hefur verið til skoðunar í langan tíma. Það hefur verið fréttaflutningur af því í fjölmiðlum og það eru mjög margir MS-sjúklingar sem bíða eftir niðurstöðum um hvort hægt sé að byrja að nota lyfið Tysabri hér. Sérfræðingar á Landspítalanum hafa tjáð sig um málið í fréttum og því er alveg ljóst að þó að einhver veikindi hafi verið í heilbrigðisráðuneytinu þá hefði alveg verið hægt að fá aðstoð, t.d. hjá Landspítalanum, við að undirbúa svona svar. Það vekur mikla furðu að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli ekki treysta sér til að svara jafneinfaldri spurningu um hvort það standi til að hefja notkun á lyfinu hér á landi. Ef ekki er búið að ákveða það þá hefði hæstv. heilbrigðisráðherra getað sagt að málið væri í skoðun.

Þetta er alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, að málið sé á dagskrá og að hæstv. heilbrigðisráðherra víki sér undan því að svara í jafnbrýnu máli og meðferð fyrir MS-sjúklinga er. Þetta er ágengur og erfiður sjúkdómur og ég vil spyrja virðulegan forseta hvort hún hafi einhverjar frekari fréttir af þessum málum.