135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

lífríki Hvalfjarðar.

73. mál
[19:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin og vil leggja áherslu á að Hvalfjörðurinn er ekki aðeins undir álagi hvað varðar iðnaðinn sem þar er heldur er þetta líka útivistarsvæði. Hvalfjörðurinn er vaxandi ferðaþjónustusvæði og auk þess með þeirri sérstöðu sem Hvalfjörðurinn hefur, þá er hann ábyggilega með mjög sérhæft líf- og vistkerfi sem ekki aðeins hefur áhrif inni í firðinum sjálfum heldur út á haf eins og ég sagði áðan.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hafa rannsóknir á ákveðnum þáttum varðandi lífríki hans fyrst og fremst beinst að mengandi þáttum eða beinum áhrifum frá viðkomandi stóriðju og í næsta nágrenni við hana. Heildstæð úttekt á líf- og vistkerfi Hvalfjarðarins alls hefur ekki farið fram að öðru leyti en því sem hæstv. ráðherra minntist á, árið 1975, sem ég veit ekki nákvæmlega hversu ítarleg hefur verið. Nú hafa sveitarfélögin á þessu svæði óskað eftir því og ég veit að þar er vinna heima fyrir um að taka á þessu máli sameiginlega. Tillaga þeirra sem ég hef kynnt er að stofnuð verði sérstök nefnd, verkefnastjórn heimaaðila beggja vegna Hvalfjarðarins sem taki að sér ákveðna vöktun eða forsjá þess að málið fari í viðhlítandi farveg með umhyggju fyrir lífríki og vistkerfinu og þannig geti bæði heimamenn og aðrir fylgst nákvæmlega með því. Ég vil því, frú forseti, hvetja hæstv. ráðherra til þess að koma að málinu með beinum hætti á móti heimamönnum.