135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfsemi Íslandspósts hf.

145. mál
[20:00]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur beint til mín fyrirspurn í tveimur liðum um starfsemi Íslandspósts hf. Fyrri fyrirspurnin er svohljóðandi:

Er ráðherra fylgjandi því að Íslandspóstur hf. stundi rekstur í samkeppni við einkaaðila á mörkuðum sem einkaleyfi fyrirtækisins nær ekki til?

Í sjálfu sér er fyrirspurnin þannig orðuð að hægt væri að svara henni annaðhvort með já-i eða nei-i en það mundi teljast nokkuð snubbótt svar. Ef litið er á stöðu Íslandspósts á markaðnum kemur eftirfarandi í ljós: Íslandspóstur hefur um langt árabil verið í samkeppni við einkaaðila á mörkuðum sem einkaleyfi fyrirtækisins nær ekki til enda er meiri hluta tekna félagsins aflað á samkeppnismarkaði. Rekstur fyrirtækisins sem er í samkeppni er t.d. dreifing blaða og tímarita, dreifing ábyrgðarsendinga, birtinga, skeyta og fjölpósts, almenn böggla- og vörudreifing, hraðflutningar og tollmiðlun. Enn fremur er Íslandspóstur í samkeppni við einkaaðila um dreifingu áritaðra bréfa sem þyngri eru en 50 grömm, sölu á hljómdiskum, ritfangaefni, vega- og landakortum, happdrættismiðum, jólakortum, gjafakortum, símakortum og frímerkjavörum ýmiss konar, svo og greiðsluþjónustu svo nokkuð sé nefnt. Samþykktir Íslandspósts hf. bera skýrt með sér að fyrirtækið er rekið sem hvert annað hlutafélag. Lögum samkvæmt er skýr bókhaldslegur aðskilnaður milli þess hluta í rekstri fyrirtækisins sem bundinn er einkarétti og hins sem rekinn er í samkeppni. Stjórnendur fyrirtækisins líta á það sem starfsskyldu sína að tryggja viðgang og vöxt félagsins með hagsmuni viðskiptavina, starfsmanna og eigenda að leiðarljósi. Í samræmi við samþykktir Íslandspósts hf. sem og ákvæði laga og reglugerða um alþjónustu hafa stjórnendur félagsins unnið markvisst að því undanfarin ár að mæta kröfum viðskiptavina um aukna þjónustu eftir því sem hagkvæmt þykir.

Nokkur orð um einkaréttinn og alþjónustuskylduna, íslenska ríkið hefur lögum samkvæmt einkarétt á póstþjónustu vegna áritaðra bréfa allt að 50 gr. og hefur falið Íslandspósti hf. að annast hann. Meðfram einkaréttinum fylgir sú skylda að annast svokallaða alþjónustu sem felst í því að tryggja öllum landsmönnum á jafnréttisgrundvelli aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu með ákveðnum gæðum og á viðráðanlegu verði. Alþjónustuskyldan nær til þess að dreifa öllum árituðum bréfum allt að 2 kg og bögglum allt að 20 kg hvert á land sem er og er alþjónustuskyldan þannig mun víðtækari en einkarétturinn. Slíkri alþjónustuskyldu fylgir jafnframt áskilnaður um að þróa þjónustu Íslandspósts „í takt við tækni-, hagfræði- og félagslegt umhverfi og þarfir notenda“ eins og segir í 6. gr. laga um póstþjónustu, nr. 19/2002.

Ef litið er til annarra landa hafa á undanförnum árum orðið verulegar breytingar á rekstrarumhverfi póstþjónustunnar. Breyting póstþjónustunnar og framþróun hennar hefur reyndar verið með ólíkum hætti í einstökum löndum. Á Norðurlöndum og í Norður-Evrópu hafa fyrirtæki í póstþjónustu sótt fram á nýjum og fjölbreytilegum sviðum og má þar einkum nefna margþætta bréfa- og böggladreifingu, alhliða flutningsþjónustu, vöruhýsingu og birgðahald, skýrsluvélaþjónustu, rafræna sölu- og flutningsmiðlun og auglýsinga- og markaðsþjónustu svo nokkuð sé nefnt.

Með vísan til þess sem ég hef þegar greint frá um markaðsstöðu Íslandspósts og með tilliti til þess að stjórnvöld leggja yfirgripsmikla þjónustuskyldu á fyrirtækið geri ég ekki athugasemdir við það að Íslandspóstur stundi rekstur á samkeppnissviði enda er sá rekstur lögum samkvæmt bókhaldslega aðskilinn frá öðrum rekstri fyrirtækisins.

Hin spurningin er svona, virðulegur forseti: Hyggst ráðherra grípa til einhverra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að Íslandspóstur hf. stundi slíka samkeppni?

Herra forseti. Það leiðir af svari mínu við fyrri hluta fyrirspurnarinnar að ég mun ekki grípa til aðgerða gagnvart fyrirtækinu.