135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

viðskipti með aflamark og aflahlutdeild.

213. mál
[20:34]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að svara spurningunni eins vel og mér var unnt, m.a. með því að lesa spurninguna þar sem m.a. var kveðið á um að ég svaraði spurningu um hvernig fara ætti með hlut ríkissjóðs úr þeim viðskiptum sem ættu sér stað þegar menn keyptu eða leigðu aflaheimildir. Það er auðvitað heilmikill kjarni í þessari umræðu allri saman, ég reyndi að færa fyrir því tiltekin rök og reyndi að útskýra með hvaða hætti hin skattalega löggjöf væri. Ég vakti t.d. athygli á því að þegar um er að ræða að menn kaupi varanlegar aflahlutdeildir þá er það þannig að menn geta ekki eignfært þær. Það var að vísu hægt áður fyrr og menn eignfærðu þær og afskrifuðu þær og gátu þar með gjaldfært þær í sínum rekstri en það er ekki svo núna. Þess vegna er alveg ljóst að hin skattalega meðferð að þessu leyti er sérstök varðandi aflahlutdeildirnar sem gerir það að verkum að sá sem selur er í langflestum tilvikum að greiða af söluhagnaði og greiða tekjuskatt þess vegna.

Um hitt sem hv. þingmaður sagði, þegar við vitum að útgerðarmenn leigja eða selja hver öðrum aflaheimildir, þá gilda um það tilteknar reglur vegna þess að við erum með kjarasamninga sem kveða á um að útgerðarmanni sé ekki heimilt að láta áhafnir taka þátt í kaupum á kvóta. Við tókum um það pólitíska ákvörðun í vetur, að mig minnir í góðri samstöðu, að styrkja þær heimildir sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur til að fylgjast með þessu til að koma í veg fyrir að útgerðarmenn séu t.d. að láta sjómenn sína taka þátt í kvótakaupum sem gæti síðan leitt til þess sem hv. þingmaður var að segja. Slíkt er einfaldlega ólöglegt og það stangast á við samninga og við vorum að styrkja eftirlitshlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs til að taka á þessum hlutum. Það má því segja að þótt það sé ekki beinlínis í þeim lögum sem hv. þingmaður vísaði til þá erum við að taka á því með öðrum hætti í löggjöfinni til að koma í veg fyrir að menn stundi óeðlileg viðskipti með (Forseti hringir.) fiskveiðiréttinn sem er einstaklingsbundinn og framseljanlegur.