135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

aðgreining kynjanna við fæðingu.

284. mál
[21:30]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi gera stutta athugasemd til að ítreka það að í þessum sal eru margir jafnréttissinnar og ég vona að ég geti talist til þeirra. Að sama skapi meira en fagna ég því að hæstv. heilbrigðisráðherra ætli ekki að beita sér í þessu stóra bleika og bláa máli með því að fara að hlutast til um litina á göllunum. Ég held að það sé mikilvægara að foreldrarnir fái að ráða því.

Við þurfum bara að huga að því í þessu máli að hvort sem börnin eru klædd í bleika eða bláa galla snýst þetta um það að við foreldrarnir pössum upp á að þau fái jöfn tækifæri í lífinu og að við komum fram við þau, hvort sem þau eru stúlkur eða piltar, á sama hátt. Ég treysti því að það sé gert á opinberum (Forseti hringir.) fæðingardeildum.