135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:59]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki endurflutt fyrra svar mitt en í ræðu sinni sagði hv. þm. Kristinn Þór Júlíusson efnislega: Jú, víst — án þess að færa nokkur rök fyrir því hvers vegna hann endurtekur gagnrýni sína. Ég hef þegar svarað henni. Ég hef ekki verið á móti því að halar séu klipptir af stofnunum en ég hef gert athugasemdir við það.

Ég tel í raun að við séum meira samstiga um þessa hluti, í meiri hluta og minni hluta, en hér er látið í veðri vaka, um hvernig fjárreiður skuli vera og að fjáraukalög skuli ekki almennt nota með þeim hætti sem hér er gert. En þeim vinnubrögðum hefur ekki verið breytt á þessu þingi. Ég hef leyft mér að gagnrýna að stórar upphæðir skuli ekki teknar inn. En þar sem um það er að ræða að meiri hluti nefndarinnar ætlaði sér greinilega ekki að koma mikilvægum stofnunum til aðstoðar þá stóð ég að þessari breytingartillögu minni hlutans sem meðflutningsmaður. Ég vil vekja athygli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, þrátt fyrir okkar góða samband, á að út frá orðum hans hér áðan hefur ekki verið talið neinum vafa undirorpið að ég tilheyri minni hlutanum, vegna þeirra orða hans að ég hafi ákveðið að skipa mér í raðir með minni hluta. Ég tilheyri ekki ríkisstjórnarmeirihluta.

Varðandi það sem er efnisleg gagnrýni, að þessi tillaga sé 1.200 millj. kr. þensluauki, þá er það alrangt. Þarna er um að ræða að greiða niður skuldir sem hið opinbera hefur þegar stofnað til við aðila í samfélaginu. Það er auðvitað alltaf til vansa að opinberar stofnanir hafi slíkar skuldir í vanskilum. Um það veit ég að við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson erum algerlega sammála.