135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

PISA-könnun.

[10:32]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Menntun og lífskjör á Íslandi eru þættir sem eru óaðskiljanlegir hvor frá öðrum. Í niðurstöðu PISA-könnunar, alþjóðlegs samanburður á menntakerfum, kemur í ljós að frammistaða 15 ára íslenskra nemenda í lestri og stærðfræði er mun lakari nú en árið 2000. Staða Íslands er slæm. Fjöldi landa með betri lesskilning hefur tvöfaldast frá því fyrir sex árum. Ekki er nóg með að við séum á niðurleið heldur erum við einnig undir meðaltali OECD-ríkja eða þeirra ríkja sem við viljum bera okkur saman við. Stærðfræði- og náttúrufræðikunnáttu ungmenna hefur einnig hrakað frá árinu 2003.

Við eigum að taka þessar niðurstöður mjög alvarlega. Menntun barna okkar og ungmenna er forsenda framfara á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með menntamálin í rúmlega 16 ár og það er kaldhæðnislegt þegar maður áttar sig á því að það er lengri tími en aldur þeirra nemenda sem könnunin náði til sem var 15 ára. Það vekur líka upp spurningar um stjórn menntamála í landinu að öfugt samhengi er milli þess hve miklum fjármunum við eyðum í menntun og þess hver frammistaða okkar er.

Nýframlögð frumvörp hæstv. menntamálaráðherra, sem á margan hátt eiga að kollvarpa núverandi kerfi, munu á engan hátt leysa þann vanda sem hér blasir við. Þau eru fyrst og fremst staðfesting á slælegri stjórn hingað til.

Virðulegi forseti. Með þessari könnun er komin mæling á menntastefnu Sjálfstæðisflokksins. Niðurstaðan er falleinkunn.