135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

PISA-könnun.

[10:36]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef lauslega kynnt mér umræður um þessa PISA-könnun og ég tel að það sé full ástæða til að taka hana alvarlega en að sama skapi tel ég að hún sé hreint ekki hafin yfir gagnrýni og því er ágætt að við ræðum þetta í upphafi þessa dags þar sem við ætlum að ræða skólamál. Ég bendi á að komið hefur fram talsverð gagnrýni á framkvæmd könnunarinnar frá t.d. 15 evrópskum vísindamönnum frá sjö löndum sem telja að hún sé ekki fullnaðarmæling á árangri skólakerfa. Sú umræða hefur auðvitað farið fram líka á Íslandi. Ég bendi á rannsóknir Hafsteins Karlssonar, skólastjóra Salaskóla, sem hefur einmitt verið að bera saman íslenska og finnska skólakerfið og telur að hið finnska sé í rauninni tiltölulega íhaldssamt og hið íslenska frjálslyndara og hann spyr: Viljum við fórna því fyrir eitthvað annað? Hvaða árangri ætlum við að ná og hvað eigum við að mæla?

Hins vegar tel ég það sem kemur fram í könnuninni vera af slíkum toga að við þurfum að kafa ofan í þau gögn sem liggja að baki. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um lesskilning. Það veldur mér verulegum áhyggjum að sjá hvernig lesskilningi hefur hrakað. Ég tel líka að við þurfum að kafa aðeins ofan í tölur um það fjármagn sem við verjum til íslenska skólakerfisins því að það dugir ekki að horfa á það sem eina stærð. Við verðum að muna að við búum í stóru og dreifbýlu landi og rekum hér stundum tiltölulega fámenna skóla og það hefur auðvitað kostnað í för með sér.

Mér finnst mikilvægt að við nýtum þessa könnun til að skoða þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum og hvað má betur fara og að við nýtum þær vísbendingar sem þar koma fram. Ég tel mjög margt mikilvægt og vel gert í íslenska skólakerfinu sem við þurfum líka að gæta okkar á að halda vel utan um.