135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:08]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Eins og rakið var í framsöguræðu hennar þá er það alvarlegt að dregið hafi úr móðurmálskennslu í íslenskum skólum og að kynnt hafa verið áform um frekari niðurskurð, eins og segir í ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu.

Það er ekkert náttúrulögmál að fámenn þjóð tali sína eigin tungu og það er ekkert náttúrulögmál að sjálfstæð tunga lifi. Á hverju ári týnast tungumál, ekki eitt heldur mörg. Þess vegna, þó að staða íslenskrar tungu í íslensku samfélagi sé sterk í dag, þá er enginn sem segir að sú staða sé eilíf eða ævarandi. Spurningin er um hvernig til tekst og hvernig við höldum á málum sem þjóð, hvaða metnað við höfum fyrir stöðu tungumáls okkar.

Ég lít þannig á að það skipti miklu máli fyrir sjálfstæða þjóð eins og Íslendinga varðandi varðveislu menningar og þeirra gilda sem hafa gert hana að sjálfstæðri þjóð og sérstakri að gæta mjög vel að stöðu tungunnar. Það finnst mér vera meginatriði. Eins og ég lagði áherslu á í umræðum áðan þá skiptir máli að standa vörð um bókina, um lestur, sem er eitt af mikilvægustu atriðum til þess að ungt fólk geti kynnt sér og verið vel heima í íslensku máli.

Það er óþolandi að samskiptamálið á mörgum stöðum skuli vera annað en íslenska vegna þess að það er ekki gerð krafa til starfsmanna sem eru í þjónustu að kunna góð skil á íslenskri tungu. Við gerum kröfu um varúðarmerkingar séu á íslensku. Við eigum líka að gera kröfu til þess að allir sem eru í þjónustustörfum tali íslenska tungu.