135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[15:05]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að tæpa aðeins á þessum málum af því að hér er um að ræða tímamótamál og ástæða til að óska hæstv. menntamálaráðherra innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Hér hefur náðst stórmerkileg niðurstaða í miklu framfaramáli í íslenskum skólamálum þar sem byggt er undir framtíð íslenska skólakerfisins í samvinnu við skólana. Árangurinn og afraksturinn af þeirri vinnu er afskaplega jákvætt starf sem ég held að marki tímamót í íslenskum skólamálum. Ég tel að lögin geti valdið straumhvörfum þegar litið er til kennaramenntunar, uppbyggingar þess náms og að ýmsu öðru leyti. Sérstaklega held ég að þetta eigi við um framhaldsskólann. Þó má segja að nái þessi mál fram að ganga eins og hér er lagt upp með þá stöndum við uppi með heildstætt skólakerfi frá leikskóla til loka framhaldsskóla. Það skapar skilyrði fyrir því að gera gott skólakerfi enn betra, töluvert betra. Menntamálin hafa komist í verulegan forgang. Annars vegar er ráðast í miklar fjárfestingar í íslenskum menntamálum og hins vegar allt lagaumhverfi í íslenska skólanum stórbætt.

Hvað varðar námstímann er farin mjög farsæl leið til að auka samfellu skólastiganna allra og gefa nemendum kost á því að fara í gegnum námið á þeim hraða sem þeim hentar og námsframboð ætti að verða sveigjanlegra en áður. Það er t.d. mjög jákvætt að breyta kjarnanum, kjarnagreinunum þannig að þær taki til þriggja greina og 45 eininga. Námssamsetningin miðast meira að hverjum einstaklingi en áður og sjálfstæði skólanna er stóraukið. Eftir þessar breytingar stöndum við uppi með fjölbreyttara framhaldsskólakerfi, sveigjanlegra nám og meira frelsi skólanna til að byggja upp öflugan og sjálfstæðan skóla með sérkennum. Á hinn bóginn hefur nemandinn fleiri tækifæri en áður til að setja námið saman eftir áhugasviðum sínum.

Það sætir sérstökum tíðindum að bók- og starfsnám skuli gert jafngilt til stúdentsprófs annars vegar og hins vegar verði tekið upp sérstakt framhaldsskólapróf. Ég held að það sé mikið framfaramál. Ég sagði áðan að mér þætti þessi niðurstaða almennt merkileg og marka tímamót í íslenskum skólamálum og valda straumhvörfum í menntamálum okkar að mjög mörgu leyti, bæði hvað varðar kennaranám og kennarastarfið í heild sinni.

Ég held að eftir nokkur ár, þegar þetta verður komið í gang og kennarar útskrifast úr lengra og breyttu námi, með meistaraprófsréttindi til að öðlast kennsluréttindi á þessum skólastigum, þótt eldri réttindapróf verði að sjálfsögðu jafngild, þá muni það auka veg, virðingu og launastig kennarastarfsins svo um munar. Ég held að hér hafi verið efnt til árangursríks samstarfs á milli menntamálayfirvalda og skólasamfélagsins alls. Það hlýtur að vera metnaðarmál, eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur margboðað og talað fyrir, að blása til þjóðarsáttar um að stórefla íslenskt menntakerfi. Hérna er hvort tveggja ráðist í stórbrotnar fjárfestingar í skólamálum, haldið áfram á þeirri braut síðustu ára en þessu fylgja auknar fjárveitingar og hins vegar er lagaumhverfi allra skólastiganna stórbætt, sérstaklega með það fyrir augum að auka sveigjanleika á milli skólastiga, frelsi skólanna til að byggja upp stúdentspróf og námsleiðir og auðvelda nemendunum að setja námið saman eftir áhugasviði nemandans, þ.e. með því að fækka kjarnagreinunum niður í þrjár og breyta vægi kjarnagreinanna til stúdentsprófs.

Ég held jafnframt að það sé afskaplega heppilegt að fela skólunum sjálfstæði til að móta sín eigin stúdentspróf sem að sjálfsögðu þurfa að hljóta samþykki og uppáskrift í menntamálaráðuneyti o.s.frv. Ég held að við fáum út úr þessu öflugri námsleiðir á mörgum sviðum og miklu fleiri nemendur sem ljúki formlegu og skilgreindu námi, þótt í fyrsta áfanga taki margir hverjir t.d. framhaldsskólaprófið sem samkvæmt frumvarpinu þarf til 90 einingar eða fái starfsréttindi og haldi svo áfram o.s.frv. Ég held að þetta sé til stórbrotinna framfara og bóta.

Það er mikið gleðiefni að þessi frumvörp skuli komin fram. Þau voru kynnt af hæstv. menntamálaráðherra í ríkisstjórn og síðan í þingflokkum og nú í 1. umr. á þinginu. Ég held að þetta séu þau stjórnarmál sem hvað mestum tíðindum sæta til framtíðar í pólitískri stefnumótun. Þessi mál eru þess eðlis að þau munu reynast okkur mjög árangursrík. Mun fleiri stúdentar munu örugglega útskrifast fyrr en ella. Ég held að það markmið, sem hæstv. menntamálaráðherra og aðrir hafa talað fyrir í mörg ár og leitað leiða til að ná farsælli lendingu í án þess að skerða með neinum hætti inntak námsins, sé eðlilegt og eftirsóknarvert og við eigum að sækjast eftir því að fleiri nemendur útskrifist fyrr með stúdentspróf. Þótt þeir sem það hentar fari á lengri tíma gegnum skólann þá held ég að þessum markmiðum verði öllum náð, að fleiri útskrifist fyrr með stúdentspróf, aðrir með framhaldsskólapróf eða starfsréttindapróf og eigi mjög greiða leið til að halda áfram, bæta við og klára stúdentsprófið síðar. Niðurstaðan verður annars vegar betra stúdentspróf en áður og betur miðað að þörfum hvers einstaklings en það er í dag.

Einnig munu frumvörpin hafa áhrif á það sem stundum er kallað brottfall en margir forustumenn og talsmenn í menntamálum hafa ekki viljað nota sem heiti yfir þá sem hætta námi tímabundið, taka sér hlé eða hætta alveg námi. Þeim sem ljúka formlegu námi mun fjölga og ég held að þorri hvers árgangs, eftir nokkur ár, ljúki formlegu námi úr framhaldsskóla líkt og þar sem við sjáum besta árangurinn, í löndum eins og Svíþjóð þar sem ég held að hlutfallið sé í kringum 90% eða þar yfir. Ég held að við munum ná því markmiði hratt, að yfirgnæfandi meiri hluti hvers einasta árgangs muni ljúka formlegu námi úr framhaldsskóla með þeim breytingum sem hér er lagt upp með. Námið er lagað að ólíkum þörfum nemenda og þeir geta sett nám sitt saman eins og þeim hentar utan um kjarnagreinarnar og okkar öflugu og góðu framhaldsskólar geta skilgreint stúdentsprófið eftir því sem hefðir skólanna segja til um og eins og þeir hafa byggst upp.

Skólarnir okkar hafa margir hverjir sérkenni. Þeir eru mjög ólíkir innbyrðis. Það eru margar tegundir og útgáfur af framhaldsskólunum þannig að sá sem útskrifast úr 10. bekk hefur úr fjölbreyttum tegundum framhaldsskóla til að velja, hvort sem það verða gömlu góðu bóknámsskólarnir eða stóru fjölbrautaskólarnir, úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu. Allt stefnir þetta í sömu átt, til mikilla framfara í íslenskum menntamálum. Þess vegna byrjaði ég ræðu mína á að óska hæstv. menntamálaráðherra innilega til hamingju með árangurinn af því farsæla starfi í menntamálaráðuneytinu sem skilar sér í þessum fjórum lagafrumvörpum. Ég held að niðurstaðan hljóti að verða framar vonum margra af því að það er ekki sjálfgefið að svo góð niðurstaða náist úr svo umfangsmiklu starfi, þar sem margir koma að. Að sjálfsögðu er erfitt að miðla málum á köflum en það sem eftir stendur er stóraukið sjálfstæði skólanna og heildstætt skólakerfi með sveigjanleika milli skólastiga í meiri mæli en áður. Það hentar betur nemendum til að fara í námið á sínum hraða en nú gefst.

Það er mjög jákvætt að auka svigrúm kennsluréttinda á milli skólastiga. Eins ber að nefna námsráðgjöfina sem efld mun sérstaklega. Það verður eitt af því sem mun eftir þessar lagabreytingar skipta miklu máli. Ég tel efni til að auka þann þátt verulega í skólakerfinu. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu, sérstaklega á framhaldsskólakerfinu og að öllu leyti mjög til góðs. Þetta eru mikil framfaramál sem ég tel að muni bæta íslenskt skólakerfi og íslenska menntun mjög mikið.

Í morgun var, í stuttri umræðu um störf þingsins, rætt um PISA-könnunina. Niðurstaða hennar hefur að sumu leyti ekki staðið undir væntingum. Hún er að sjálfsögðu að öðru leyti mjög jákvæð og góð. Þetta er, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði, mjög flókin könnun og erfitt að alhæfa og dæma út frá henni í örfáum setningum í stuttum ræðum. En með þeim frumvörpum sem við fjöllum um í dag er grunnur lagður að því að íslenskt skólakerfi verði áfram í fremstu röð og eitt það besta í heiminum. Þessi mál eru einfaldlega þess eðlis, um er að ræða jákvæðar miklar og róttækar breytingar á skólakerfi okkar og fjárfesting í skólakerfinu aukin til að skila okkur miklum árangri í framtíðinni.

Það er mjög jákvætt að þessi mál skuli koma fyrir þingið fyrir áramót og fara til nefndar sem mun að sjálfsögðu fá heilmikið verkefni með að ljúka þessum málum og koma aftur til þingsins síðar í vetur. Það er einnig fagnaðarefni að forræði sveitarfélaga skuli aukið til skólarekstrar og að sjálfstæði skóla skuli styrkt. Áðan fjallaði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lauslega um einkarekstur á grunnskólastigi og nefndi Hjallastefnuna sem dæmi. Ég held að það verði einungis til framfara að við sjáum aukningu á því að einkaaðilar reki skóla, ef menn vilja nota orðið einkarekstur yfir rekstur sem er ekki í ágóðaskyni heldur stofnaður utan um tiltekna hugmyndafræði í skólakerfinu eins og Hjallastefnuna. Ég tel að slíkum skólum fjölgi töluvert í skólakerfi okkar. Ég held að það væri til mikilla framfara. Þar skiptir rekstrarformið í sjálfu sér engu máli nema að því leyti að það getur bara verið til bóta að skólafólk með hugsjónir stofni með sér félag og hefji rekstur á skóla utan um tiltekna hugmyndafræði. Hér er ekki um að ræða hverfisskóla sem eru opinberir skólar heldur öflugur einkarekstur á grunnskólastigi til hliðar við opinberu hverfisskólana. Öflugur einkarekstur á grunnskólastigi til hliðar við opinbera hverfisskóla, skólar sem eru stofnaðir utan um tiltekna hugmyndafræði og eru ekki reknir í hagnaðarskyni, innheimta ekki skólagjöld eins t.d. Hjallaskólinn í Garðabæ sem var rætt um áðan, skapa ekki efnalega mismunun á milli barna. Ég tel til mikilla bóta að umfang slíks rekstrar aukist í íslensku skólastarfi.

Frá Norðurlöndunum þekkjum við að stjórnvöld, t.d. í Svíþjóð, hafa markvisst aukið á fjölbreytnina til að bæta og efla skólastarfið og fjölga valmöguleikum foreldra til að velja börnum sínum skóla eftir skólastefnu. Ég held að við eigum alls ekki að óttast það heldur þvert á móti stefna í þá átt að ekki verði um einkavæðingu á skólakerfi að ræða eða skólarekstrar í ágóðaskyni heldur fáum við fjölbreytilegri skóla, ekki síst grunnskóla því að framhaldsskólastigið er miklu fjölbreytilegra en grunnskólastigið. Aukin fjölbreytni á grunnskólastigi væri til mikilla bóta. Fjölbreytnin á leikskólastiginu er miklu meiri og þar hefur Hjallastefnan náð firnagóðum árangri. Þar er gott dæmi um öflugan einkarekstur á grunn- og leikskólastigi. Slíkur rekstur er einungis til að efla enn frekar íslenska menntun, enda ekki skólagjöld innheimt og ekki verið að mismuna eftir efnahag, einungis boðið upp á fleiri og betri valmöguleika.

Almennt er um að ræða mjög mikil framfaramál í íslenskum skólum sem valda straumhvörfum á mörgum stigum og ástæða til að fagna því sérstaklega að þessi mál skuli fram komin.