135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[15:19]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem farið hefur fram. Hún hefur á margan hátt verið mjög jákvæð og það er gott að fara yfir málið heildstætt í upphafi. Ég vona að okkur gefist nægur tími í 2. umr. til að ræða málin ofan í kjölinn. Ég vona jafnframt að umræðan nái út í þjóðfélagið vegna þess að ég tel afar brýnt að við ræðum málin í þaula og í rólegheitum.

Ég hef stundum sagt að ég óski þess eins að dætur mínar fái að alast upp við jafnrétti í víðasta skilningi þess orðs. Í því felst að aðgangur að menntun fyrir þær á að vera gjaldfrjáls þannig að þær fái notið menntunar burt séð frá efnahag foreldra þeirra. Ég held að það sé algert lykilatriði. Á hinn bóginn áttum við framsóknarmenn okkur á því að hér þarf að vera öflugt og frjálst atvinnulíf án einokunar og hringamyndunar til að standa undir því mikla og dýra kerfi sem við höfum. Það staðsetur okkur framsóknarmenn á miðju stjórnmálanna og aðgreinir okkur að ýmsu leyti frá öðrum stjórnmálaflokkum.

Ég fagna því að málefni leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla séu rædd heildstætt. Ég fagna því einnig að hæstv. menntamálaráðherra hefur haft samráð við marga hagsmunaaðila, lögð hefur verið mikil vinna í þau frumvörp sem liggja fyrir. Frumvörpin byggjast að miklu leyti á svokölluðu 10 skrefa samkomulagi þar sem fram kemur að náðst hafa málamiðlanir varðandi margar tillögur sem lagðar voru fram í upphafi þótt ekki hafi náðst samkomulag um þær allar. Á það einkanlega við um frumvarpið um framhaldsskóla.

Ég varð fyrir vonbrigðum í morgun þegar við ræddum nýbirta PISA-könnun. Þar benti ég á að niðurstöður varðandi lesskilning og stærðfræði fimmtán ára nemenda væru því miður undir meðaltali OECD-ríkja og þeirra ríkja sem við viljum bera okkur saman við. Nokkrir hæstv. þingmenn sökuðu mig um, ef til vill til að dreifa umræðunni, að tala menntakerfið niður. Það gerði ég alls ekki. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt þegar við förum yfir menntamálin að við ræðum hvað miður hefur farið í skólakerfinu á undanförnum árum. Jafnframt er mikilvægt að virk umræða fari fram úti í þjóðfélaginu.

Taka ber PISA-könnunina alvarlega, eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt opinberlega. Ég fagna sérstaklega ummælum hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur sem sér í henni ný tækifæri og vill ræða hana frekar. Málefnaleg umræða þarf að eiga sér stað. Við þurfum að fara yfir málin heildstætt.

Ég gaf að vísu menntastefnu Sjálfstæðisflokksins falleinkunn út frá niðurstöðum könnunarinnar. Það var gert í ljósi skýrslu sem birtist þar sem Íslandi var raðað í efsta sæti hvað lífsskilyrði varðar og sú skýrsla var tekin marktæk. Við framsóknarmenn teljum að PISA-könnunin sé einnig marktæk þótt vissulega sé hægt að gagnrýna báðar kannanir að einhverju leyti.

Ég vísa einnig í ummæli hv. þm. Illuga Gunnarssonar þar sem hann vildi getumæla störf kennara sem einhvers konar lið í að bæta skólastarf í landinu. Ég sagði þá sem svo að nú væri komin getumæling á stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Árið 1995, með lögum sem tóku gildi árið 1996, má segja að farið hafi verið í algera miðstýringu, sérstaklega í framhaldsskólum landsins. Þá var horfið frá vinnu sem Svavar Gestsson, fyrrverandi menntamálaráðherra, hafði átt frumkvæði að og niðurstaðan voru þau lög sem við fellum nú úr gildi. Segja má að nú sé öllu snúið á hvolf, að stefnan hafi umpólast. Ég held að að vissu leyti sé gott að farið sé þannig yfir málin og stefnan könnuð en varðandi framhaldsskólana vara ég við að hoppað sé milli tveggja póla. Segja má að farið sé öfganna á milli.

Orðið sveigjanleiki kemur fram víða í frumvörpunum. Sveigjanleiki er að mörgu leyti mjög jákvæður. Við megum þó vara okkur á því að fara ekki út í of mikinn sveigjanleika vegna þess að honum getur fylgt mikið reglugerðarfargan og hugsanlegur kostnaður, svo eitthvað sé nefnt.

Ég ætla í eins stuttu máli og mér er unnt að fara yfir frumvörpin sem liggja fyrir og byrja á að fara yfir frumvarp til laga um leikskóla. Ég tel að margt jákvætt komi þar fram. Mikil þróun hefur verið á leikskólastiginu og ýmislegt jákvætt á sér stað. Ég tel einnig jákvætt að gerð sé samfella milli leikskólastigs og grunnskólastigsins og að kennarar hafi meiri möguleika á að færa sig á milli kerfanna tveggja í framtíðinni.

Með lögunum á einnig að styrkja forræði sveitarfélaganna á leikskólunum og tel ég það mjög jákvætt. Gera á skarpari skil á milli menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaganna og ég tel að það sé sá þáttur sem mest ber að fagna í frumvörpunum. Ákvæði í grunnskólalögunum um foreldraráð eru jákvæð og einnig fagna ég því að réttur barna með sérþarfir sé betur skilgreindur. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað sá þáttur er mikilvægur og afar jákvætt er að komin skuli vera skýr og skilgreind ákvæði um það.

Ég saknaði þess að sjá ekki ákvæði um gjaldfrjálsan leikskóla þótt ég telji að hvorugur ríkisstjórnarflokkanna hafi það sérstaklega á stefnuskrá sinni. Mín skoðun er sú að það væri mikið framfaraskref, skattbyrði ungs barnafólks hefur farið hækkandi og má segja að nú á seinni tímum beri þau þjóðfélagið á herðum sér.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson benti á að ef til vill ættu sveitarfélögin sjálf að ákveða hvort þau vilji gjaldtöku eða ekki. Taka má undir það að vissu leyti. Ég bendi á að í 31. gr. frumvarps til grunnskólalaga er ákvæði sem segir að grunnskóli eigi að vera gjaldfrjáls. Ég tel að hægt væri að stíga slíkt skref varðandi leikskólann en því þyrfti að sjálfsögðu að fylgja aukin framlög til sveitarstjórnarstigsins.

Í 34. gr. frumvarpsins er ákvæði um svokallaðan sprotasjóð. Þegar við förum yfir frumvörpin í menntamálanefnd þurfum við að skoða sjóðinn sérstaklega. Ég tek undir vangaveltur hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um að gæta þurfi jafnræðis við úthlutun úr þeim sjóði. Ég velti fyrir mér hvort ef til vill sé verið að opna á heimild til að veita í nánast hvaða stig skólans sem er úr sjóðnum. Það hefur yfirbragð kosningasjóðs þótt ég treysti hæstv. menntamálaráðherra mjög vel til að fara yfir og útdeila fjármunum með sanngjörnum hætti.

Varðandi lög um grunnskóla tel ég að jákvætt sé að auka sjálfstæði sveitarfélaganna eins og í lögum um leikskóla. Þó er varhugavert að öll yfirstjórn menntamála í málum grunnskóla sé hjá menntamálaráðuneytinu og ég fæ ekki betur séð en að þar sé um algjöra miðstýringu að ræða. Segja má að sé hoppað öfganna á milli hvað varðar grunnskólastigið og framhaldsskólastigið.

Ég vil fara nokkrum orðum um að tekið hefur verið út úr í 2. gr. laganna, sem fjallar um markmið grunnskólans, að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristilegu siðgæði. Ég átta mig á rökunum sem hæstv. menntamálaráðherra hefur fært fyrir breytingunni en ég vara þó við að gefið sé eftir í þeim efnum. Þó að þau orð sem koma í staðinn eigi að lýsa kristilegu siðgæði og standi fyrir það, eins og menntamálaráðherra orðaði það sjálf, er ekki um efnisbreytingu að ræða. Það hefur vakið mikla umræðu í þjóðfélaginu og ég velti fyrir mér hvað í samfélaginu kalli á þær breytingar. Þjóðfélag okkar er byggt á kristilegu siðgæði, við lifum í mjög friðsömu og umburðarlyndu þjóðfélagi, og segja má að öll okkar menning sé byggð á kristinni trú. Þjóðkirkjan hefur verið opin öllum sem hér búa og hafa átt um sárt að binda og skiptir þá engu hvaða trúarhópi fólk tilheyrir.

Trúarofstæki viljum við alls ekki sjá eða heyra um hér á landi og það hefur, eins og við vitum, skapað mikinn vanda úti í hinum stóra heimi. Á hinn bóginn er til nokkuð sem kalla mætti umburðarlyndisfasisma. Ég tel að þrýstingur sumra trúleysingja sé ekki af hinu góða og vil því vara fólk við að gefa eftir gagnvart því. Í vissum trúarbrögðum er bannað að borða ákveðnar kjöttegundir eins og svínakjöt en við viljum ekki ganga svo langt að meina öllum nemendum í skólum að borða slíkt. Ef við gerðum það værum við fallin í gryfju hins svokallaða umburðarlyndisfasisma.

Ef til vill er ekki meira um það að segja, umræðan mun halda áfram í þjóðfélaginu. Hæstv. menntamálaráðherra sendi út skilaboð um daginn til skólastjórnenda um að þeir mættu ekki veita börnum og ungmennum leyfi að fara í fermingarfræðslu. Ég skora á menntamálaráðherra að draga tilmælin til baka vegna þess að ég tel að þau standi þótt sagt hafi verið á heimasíðu menntamálaráðuneytisins að foreldrar megi biðja um slík leyfi. Tilmæli eru einfaldlega þannig að skólastjórnendum ber að fara eftir þeim og við því geta legið viðurlög eins og áminning og þess háttar.

Ég mun nú fjalla um skólamáltíðir sem er fjallað um í 23. gr.

Þar segir:

„Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja.“

Komið hefur fram að við berum okkur einna helst saman við Finnland hvað menntamálin varðar, enda standa Finnar sig þar vel, sérstaklega í PISA-könnuninni sem ég gerði að umtalsefni áðan. Finnar hafa boðið grunnskólanemendum upp á heitar skólamáltíðir þeim að kostnaðarlausu og ég tel að við ættum að skoða að fara sömu leið. Það getur verið mjög erfitt fyrir börn, sem eiga foreldra sem hafa ekki efni á greiða fyrir slíkar máltíðir, að bíða eftir hádegismatnum. Ég veit að kennarar hafa oft hlaupið í skarðið og jafnvel greitt fyrir máltíðirnar en ég held við getum leyst vandann með því að hafa skólamáltíðir ókeypis og legg til að það verði rætt á Alþingi um leið og við förum í gegnum frumvörpin.

Í frumvarpinu má segja að verið sé að leggja niður samræmdu prófin. Það er ekki alveg rétt vegna þess að tekin verða upp svokölluð könnunarpróf sem lögð verða fyrir fyrr á námsönninni. Ég velti fyrir mér hvort prófin verði ekki notuð áfram sem mælieining. Þau rök eiga vissulega rétt á sér sem segja að samræmd próf hafi verið of stýrandi og mótað skólastarfið í 10. bekk of mikið en ég vil þá taka fram að á því geta líka verið aðrar hliðar. Það leggur vissar kröfur á hendur bæði nemendum og skólum að standa sig og slíkt getur verið góður undirbúningur fyrir framhaldsskóla og lífsbaráttuna sjálfa sem oft og tíðum getur verið ansi hörð.

Varðandi frumvarp til grunnskólalaga vil ég að síðustu setja spurningarmerki við heimakennslu. Verið er að lengja nám upp í fimm ár til að auka gæði menntunar, eins og menntamálaráðherra komst að orði, en ég velti fyrir mér hvaða kröfur verða gerðar til þeirra sem fá að kenna heima. Ég get í fljótu bragði ekki séð hvernig gera á ríkar kröfur til foreldra sem kenna heima og vil þá jafnframt benda á að þeir sem eru teknir út úr skólastarfi og kennt heima eru oft börn sem mest þurfa á umhverfi skólans að halda. Það getur verið gert vegna trúarskoðana en ég bendi á að skólinn hefur miklu forvarna- og umönnunarhlutverki að gegna þannig að ég vil að við í menntamálanefnd og hæstv. menntamálaráðherra skoðum ákvæðið sérstaklega þannig að gerum ekki nein mistök.

Ég vík næst að frumvarpi til laga um framhaldsskóla, því frumvarpi sem sætir mestum breytingum. Breytingarnar eru helst fólgnar í því að skólarnir ákveða menntastefnu sína nánast sjálfir. Þeim er í sjálfsvald sett hvað nám er langt, hvaða kröfur eru gerðar til námsins en ef þeir vilja útskrifa nemendur með stúdentspróf ber þeim samkvæmt frumvarpinu að vinna í samráði við háskóla. Margt er jákvætt í því en þó tel ég að á vissan hátt sé gengið of langt eða, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðsson orðaði það, að sumir hlutir fari í hring. Orðið hefur umpólun á stefnunni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í þeim efnum. Við eigum líka að passa okkur á að gera ekki lítið úr fjölbreytileikanum sem verið hefur í framhaldsskólum landsins og tala ekki niður þá stefnu og vinnu sem þegar hefur verið unnin.

Með frumvarpinu tel ég að lagt sé á herðar ungmenna að ákveða mun fyrr hvaða leið þau velja sér í lífinu. Lagt er á herðar 15 ára unglings að ákveða hvað hann ætlar að taka sér fyrir hendur. Hann þarf í rauninni að ákveða framhaldsskóla með hliðsjón af því í hvaða háskóla hann ætlar að fara í framhaldinu. Ég held að við þurfum að ræða það ítarlega í þjóðfélaginu. Um er að ræða ungmenni sem hafa nánast engin önnur réttindi, þau hafa ekki réttindi til að kaupa sér áfengi eða annað sem varðar þeirra eigin hag. Ég tel því að við þurfum að skoða ákvæðið og legg til að það verði gert í menntamálanefnd.

Ekki er heldur bundið í lög hversu margar einingar liggja að baki stúdentsprófi, hvort um er að ræða 180, 120 og hvort þær verði fleiri eða færri. Ég beini þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að ávallt verði nægilegt fjármagn til skólanna sem vilja bjóða upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs og ekki verði þrýstingur á framhaldsskólana að stytta nám sitt. Við höfum þegar rætt styttingu framhaldsskóla og maður veltir fyrir sér hvort nú sé verið að lauma inn einhvers konar styttingu þar. Ég vil að málin verði rædd ofan í kjölinn vegna þess að þau ár sem maður eyðir í framhaldsskóla er oft besti tími ævinnar. Ég sé ekki ríkar ástæður fyrir því að við keyrum ungt fólk fyrr út á vinnumarkaðinn en við gerum nú.

Ég velti einnig fyrir mér hvort á ferðinni sé einhvers konar einkavæðingarstefna. Í ályktun Sjálfstæðisflokksins af landsfundi sjálfstæðismanna liggur fyrir að þeir vilja einkavæða frekar í menntamálunum og ég tel að frumvörpin séu viss þáttur í því. Ég get ekki skilið annað af orðum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að hann líti svo á að verið sé að greiða fyrir stofnun einkaskóla. Það er ekki í anda okkar framsóknarmanna, við höfum sagt að við viljum ekki sjá gjaldtöku í framhaldsskólum.

Til umræðu er fjórða frumvarpið, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Ég tel margt vera jákvætt í frumvarpinu. Aukin menntun mun skila sér til skólanna í betra starfi en sú menntun sem verið hefur krafist hingað til hefur að mínu mati verið mjög góð og fullnægt þörfum leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Lagt er til í frumvarpi um leikskóla að tveir þriðju hlutar starfsmanna verði faglærðir og við þurfum að fara mjög vel yfir málið vegna þess að 35% starfsmanna í leikskólum eru nú ófaglærðir og þar hefur verið mannekla. Launin eru þó of lág og ég fagna ummælum hæstv. menntamálaráðherra um að þau beri að hækka. Ég mun vissulega beita mér fyrir því að svo verði gert í komandi kjarasamningum en sú spurning vaknar hvort fólk muni sjá sér hag í að fara í fimm ára starf ef launin verða ekki mikið betri en þau eru nú. Kennarastarfið er göfugt starf og mjög mikilvægt er fyrir land og þjóð að hér alist upp vel menntaðir einstaklingar sem leiði landið okkar áfram til framfara.

Maður veltir einnig fyrir sér þeim kostnaði sem lenda mun á sveitarfélögum landsins. Starfsemi sveitarfélaganna hefur aukist talsvert eftir að leik- og grunnskólamál færðust á þeirra hendur og í augnablikinu vantar þau fjármagn til að standa undir því góða starfi sem þar fer fram. Ef lengingin á kennaranáminu þýðir hækkun á þeim útgjaldalið hvet ég ríkisstjórnina til að láta fjármagn fylgja hækkuninni.

Margt jákvætt er hér á ferð. Ég fagna því að taka eigi góðan tíma í að fara í gegnum frumvörpin. Gott er að ljúka umræðunni fyrir jól því að þá geta þau farið til umsagnaraðila og okkur ætti að gefast nægur tími til að ræða málin, ekki bara inni á Alþingi heldur líka úti í þjóðfélaginu. Ég hef farið í gegnum bloggheima og séð að fólk þar hefur mikinn áhuga á málinu.

Ég vænti góðs samstarfs við ríkisstjórnarflokkana og vona að við getum komist að ágætu samkomulagi vegna þess að um afar brýn mál er að ræða.