135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks.

307. mál
[18:50]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að fella úr gildi lög nr. 25/1921, um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks. Þetta eru gömul og rótgróin lög og hafa fyllilega sinnt hlutverki sínu enda er ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að Háskóla Íslands beri að láta af útgáfu almanaks, eins og segir, með leyfi forseta:

„... enda mæla augljós samræmingar- og öryggissjónarmið með því að áfram verði gefið út almanak.“

Svo að ég hugleiði nú aðeins ástæður þess að þetta er gert geta þessi rök um skatt, sem sagt kröfur 40. gr., sbr. 77. gr. stjórnarskrárinnar til skattlagningarheimilda — að teknu tilliti til þeirra stjórnarskrárákvæða að 6. gr. laga nr. 25/1921 fullnægi ekki þeim kröfum sem stjórnarskráin gerir til skattlagningarheimilda, enda feli ákvæðið í sér algjört framsal skattlagningarvalds í hendur framkvæmdarvaldsins.

Í fljótu bragði get ég ekki séð annað en að hægt sé að leysa þetta með öðrum hætti þannig að þetta sé kannski ekki raunveruleg ástæða niðurfellingar laganna. Raunveruleg ástæða sé einfaldlega aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og reglur um að víkja beri til hliðar reglum er takmarka samkeppni í atvinnurekstri þar á meðal reglur sem takmarka innflutning vara á samkeppnismarkaði.

Mér finnst afar slæmt að reglur sem við alþingismenn höfum afskaplega lítið að segja um skuli knýja okkur til að leggja niður framkvæmd sem mér virðist að lítill vilji sé til að gera. Þessar reglur hafa ekki alltaf reynst okkur Íslendingum vel. Ég get nefnt sem dæmi að útdeiling úr jöfnunarsjóði hvað varðar internetsamband víða á landsbyggðinni stoppar á EES-reglum.

Ég hef svo sem ekki mikið meira um þetta að segja. Ég harma að við séum að fá yfir okkur reglur sem höfum lítið að segja um. Ég býst svo við að frumvarpið fari til skoðunar í menntamálanefnd.