135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

fjárframlög til heilbrigðisþjónustu.

[15:05]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. forseta er verið að fresta fjárlagaumræðunni. Ég vona að það sé gert til að skapa svigrúm svo að ríkisstjórnin geti komið með fjármagn til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítalans. Það er ljóst, virðulegur forseti, að það fjármagn sem áætlað er í rekstur þessara eininga, sem eru grundvallareiningar í heilbrigðisþjónustu landsmanna, hrekkur ekki til. Fyrirsjáanlegt er að stórlega þarf að skerða þjónustu, bæði hjá Heilsugæslunni í Reykjavík og á Landspítalanum, á næsta ári ef við nýtum ekki tækifærið áður en fjárlög verða afgreidd.

Það er mjög ankannalegt að fylgjast með því að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli ekki beita sér meira í þessu máli. Þarna fer fram starfsemi sem snýr að öllum fjölskyldum í landinu. Við vitum að fjármagn vantar í þennan geira og nú hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins farið yfir sparnaðartillögur sem eru að mínu mati þess eðlis að við getum ekki búið við þær. Þá bregður svo við að hv. þm. Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar, skammar stjórnendur Heilsugæslunnar í Reykjavík sem eru að koma til móts við þær kröfur sem stjórnvöld gera, að heilsugæslan leggi fram sparnaðarhugmyndir og ekki eru gefnar vísbendingar um að leggja eigi fram meira fjármagn. Hv. þingmaður staðfestir grun minn um að nú eigi að gera þær breytingar sem ekki var hægt að gera með Framsóknarflokknum. Þetta segi ég í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde hefur sagt opinberlega að gera eigi grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu með Samfylkingunni, breytingar sem ekki hafi verið hægt að gera með fyrrum stjórnarflokki, Framsóknarflokknum. Þessi orð hv. þm. Ástu Möller hljóta að renna stoðum undir það að nú eigi að svelta heilbrigðiskerfið svo að hægt sé að fara í einkarekstur. (Forseti hringir.) Nú á að svelta allt heilbrigðiskerfið til að skapa andrúmsloft fyrir einkarekstur og það teljum við mjög óæskilega þróun.