135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[15:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það að fundarstjórn forseta var fullkomlega eðlileg hér og í samræmi við eðli þessa liðar í þingsköpum. Það er mikill misskilningur ef menn halda að umræður um störf þingsins séu frekar fyrir fram skipulögð en þjófstörtuð utandagskrárumræða, eins og því miður hefur stundum borið á, og menn telji að með því að komast fyrstir á mælendaskrá eigi þeir sjálfkrafa rétt á því að ljúka jafnframt umræðunni. Það á við þegar um skipulagða utandagskrárumræðu er að ræða en þessi liður er eðli málsins samkvæmt þannig að menn biðja um orðið og fá það í þeirri röð sem þeir biðja um það og síðan er tíminn upp í 20 mínútur nýttur til loka. Það þarf þess vegna ekkert frekar en svo ber undir að ræða um eitt og sama viðfangsefnið í þessari umræðu eins og kunnugt er. Ég held að athugasemdir hv. þingmanns falli dauðar niður og að þessu sinni hafi fundarstjórn forseta verið fullkomlega eðlileg miðað við efni máls.