135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:13]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem hefur farið fram í dag hefur okkur verið tíðrætt um hver fari með yfirstjórn á heilbrigðisþætti öldrunarstofnana. Eins og kom fram í framsöguræðu minni um nefndarálit meiri hluta heilbrigðisnefndar þá benti ég á það sem segir í nefndaráliti minni hluta heilbrigðisnefndar um þann þátt, en þar segir: „Minni hlutinn hvetur því til endurskoðunar á þeim hugmyndum sem fram koma í frumvarpi þessu um að færa faglega yfirstjórn og fjármögnun hjúkrunarheimila frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis.“

Nú kom fram í ræðu hv. þingmanns rétt áðan að með þessu hefði minni hlutinn eingöngu — eins og ég skrifaði niður eftir hv. þingmanni — verið að vísa til þeirra umsagna sem komu fram og lýstu þessum áhyggjum. Þess vegna þykir mér forvitnilegt að vita í framhaldi af því hver sé skoðun þingmannsins á þessu. Er það skoðun hv. þingmanns að í frumvarpinu felist að verið sé að færa faglega yfirstjórn og fjármögnun hjúkrunarheimila frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytisins? Er þetta kannski bara misskilningur minn eða hvernig er þessu varið?