135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:10]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var gott að fá hingað í ræðustól hæstv. iðnaðarráðherra sem talsmann Samfylkingarinnar. Ég fagna því. Ég hef ítrekað auglýst hér eftir talsmanni Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum, hv. varaformanni Samfylkingar og hv. varaformanni heilbrigðisnefndar, Ágústi Ólafi Ágústssyni, en með litlum árangri. Ég fagna því að ráðherrann sem hér stóð skuli hafa svarað spurningum mínum en hann svaraði ekki nema tveimur af þremur. Og fór nú í verra.

Því vil ég ítreka þriðju spurninguna. Er það afstaða Samfylkingarinnar og hefur hún samþykkt það sérstaklega að 18. gr. fari óbreytt í gegn með þessu frumvarpi? 18. gr. sem hefur ekkert með efni frumvarpsins að gera. 18. gr. sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir að hann muni nota til þess að skipa nýrri stofnun stjórn, fimm manna stjórn, grein sem hann muni nota til þess að auglýsa eftir og ráða nýjan forstjóra til fimm ára eins og hann segir. Og það löngu áður en fyrir Alþingi er lagt frumvarp um innra skipulag og hlutverk þessarar stofnunar.

Er Samfylkingin virkilega tilbúin til þess að afhenda heilbrigðisráðherra opinn tékka að þessu leyti til þar sem í þessari lagagrein er hvergi kveðið á um innihald eða verkefni? Hvað þá að þarna sé að finna einhverjar leiðbeiningar til ráðherrans um það hvernig hann eigi að fara með þetta vald sem hann fær samkvæmt 18. gr. Þetta er bara einhendis skipun fimm manna stjórnar og einu kröfurnar sem gerðar eru þarna eru að forstjórinn skuli hafa háskólamenntun. Ég spyr því: Hver er afstaða Samfylkingarinnar? (Forseti hringir.) Er ráðherrann ekki tilbúin til að kippa 18. gr. út með okkur í bili?