135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[22:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki skal standa á þeirri sem hér stendur að reyna að nýta lýðræðið til að sjá til þess að hér verði allt með sem bestum hætti. Það er einmitt það sem ég er að gera með því að halda þá ræðu sem ég hélt áðan.

Ég ætla einungis að fagna því að hæstv. ráðherra hefur talað skýrt í umræðunni. Hann vill tryggja svo sem framast er kostur að hér verði hlutir gerðir með þeim hætti að þeir verði gegnheilir, að ekki verði neitt neitt fals eða svik í þessum efnum. Við verðum að koma fram eins trúverðug og við mögulega getum. Það getum við auðvitað gert með okkar færu sérfræðingum sem við bæði höfum nefnt. Ég tel að sú vinna sem á sér stað í rammaáætluninni, síðari hluta hennar, sé mjög mikilvæg í þessum efnum því að hún á eftir að tryggja að jarðvarmakostirnir sem eru til staðar á Íslandi verði skoðaðir með þeim gleraugum sem færustu sérfræðingar okkar geta gert. Jafnframt tryggir hún að grunnur sé að áframhaldandi umræðu um sjálfbærni jarðvarmavirkjananna og sömuleiðis sjálfbærni vatnsaflsvirkjananna því að eins og hæstv. ráðherra gat um réttilega eru ekki allir á einu máli um hvað sjálfbær vatnsaflsvirkjun er. Ég held að komin sé efnismikil umræða sem fylgt getur málinu í gegnum iðnaðarnefnd. Ég kem einnig til með að hafa auga með því sem umhverfisnefndarmaður hvort tilefni sé til að umhverfisnefnd gefi einhvers konar umsögn eða skoði frumvarpið samhliða iðnaðarnefnd.