135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[10:49]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Siv Friðleifsdóttur lagt fram ítarlegt minnihlutaálit og flutt rök fram í ítarlegri ræðu líka um að vísa eigi málinu frá, fært þau rök fyrir því að lagasetningin muni ekki hafa í för með sér þá skilvirkni sem stefnt er að. Það liggur faktískt ekki fyrir nein greining á þeim vandamálum sem við blasa eða hvort breytingarnar muni skila árangri. Það liggur ekki vönduð málsmeðferð að baki samningu frumvarpsins og ekkert samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila. Reyndar er ranglega fullyrt í frumvarpinu að það hafi verið gert. Ekkert mark hefur verið tekið á faglegum gestum sem komu á fund allsherjarnefndar. Enn fremur liggur ekki fyrir nein kostnaðargreining á frumvarpinu og við blasir að það muni hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir ríkissjóð.

Á þessum forsendum leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og næsta mál tekið á dagskrá. Gerist hið óvænta að það verði ekki samþykkt munum við sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.