135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:47]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Kristin fræði eru ríkur hluti af menningu okkar, sögu og bókmenntum. Þjóðfélag okkar er byggt upp á kristnum gildum, og þau mannréttindi og manngildi sem við byggjum löggjöf okkar á eru það einnig. Vantrú lítils minni hluta þjóðarinnar hefur mikið verið í umræðunni að undanförnu. Fullyrðingar hæstv. menntamálaráðherra um að eigin tilmæli um að banna skólastjórnendum að veita frí til fermingarfræðslu séu dauð og ómerk án þess þó að fella þau formlega úr gildi snúast um það eitt að styggja engan af ótta við að vera ekki nógu umburðarlynd og snúast um það hvernig hægt sé að láta í minni pokann án þess þó að styggja nokkurn.

Hið sama gera yfirlýsingar um að þó að hugtakið kristið siðgæði sé strokað út sem inntak menntunar sé ekki um efnislega breytingu að ræða.

Hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra vísaði í stjórnarskrána til rökstuðnings umtöluðum breytingum. Ég bendi á að mannréttindadómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjuskipan í líkingu við þá sem hér tíðkast brýtur ekki gegn jafnræðisreglu sé fyrir því söguleg hefð sem og að mikill meiri hluti landsmanna tilheyri þjóðkirkjunni og skipanin skerði ekki frelsi annarra trúfélaga. Maður spyr sig því hvað valdi þessu undanhaldi.

Ofsatrúarhópar eru eitt stærsta vandamál umheimsins. Fyrir þeim má aldrei hopa. Við megum á hinn bóginn ekki ganga svo langt í umburðarlyndinu að megi einhver ekki borða vissa matartegund í mötuneytum skóla af trúarástæðum megi það heldur ekki nokkur annar. Þá væri um hinn svokallaða umburðarlyndisfasisma að ræða. Þetta eru tveir andstæðir pólar og þá ber báða að varast.

Fræðsla um kristileg málefni er nauðsynlegur þáttur í uppvexti og arfleifð (Forseti hringir.) hinnar kristilegu þjóðar. Þau þarf að kenna í sambland við gagnrýna hugsun og heilbrigðan efa. (Forseti hringir.) Við erum frjálslynd þjóð og okkur er annt um (Forseti hringir.) orðspor okkar sem slíkt.