135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:51]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Frú forseti. Íslenska þjóðkirkjan hefur yfirburðastöðu í þjóðfélaginu, kannski líkt og knattspyrnan hefur yfirburðastöðu á allar aðrar íþróttir, mestu peningana, mestu umfjöllunina og mestu hefðina. Ef kirkjan, þrátt fyrir þetta, á í erfiðleikum þarf hún kannski að líta í eigin barm.

Eins og meginþorri Íslendinga er ég alin upp í kristinni trú, ekki einasta ólst ég upp við guðsótta og góða siði á æskuheimili mínu, heldur hófust allir skóladagar mínir fyrstu fimm árin á því að standa fyrir aftan stólinn minn, syngja sálm og fara með faðirvorið áður en mér var boðið að gera svo vel að setjast og hefja nám mitt. Á mánudagsmorgnum voru hugvekjur í skólanum fyrir alla nemendur og kennara. Ég minnist þess ekki að nokkrum hafi þótt það orka tvímælis en tímarnir breytast og mennirnir með eins og sagt er og nú er svo komið að slík trúarleg innræting er með öllu óleyfileg í skólum landsins.

Seinna á lífsleiðinni þeytti lífið mér svo í ráðskonustarf í sumarbúðum þjóðkirkjunnar á Vestmannsvatni. Það var góður og skemmtilegur tími, þar var unnið mikið og gott starf af samhentum hópi starfsmanna. Þess vegna rennur mér til rifja að horfa upp á það hvernig kirkjan og ríkið gjaldfella þetta starf í sumarbúðunum trekk í trekk. Svo naumt eru peningar skammtaðir að einungis er hægt að sinna lágmarksviðhaldi, svo lítið er lagt í þennan þátt starfsins á vegum þjóðkirkjunnar að það er til helberrar skammar, sumarbúðastarfið sem er sú starfsemi kirkjunnar sem ætti að vera hvað hæst metin í þeirra ranni. Þar býðst börnum (Forseti hringir.) og unglingum að dvelja í góðum og tryggum félagsskap. (Forseti hringir.) Þar hefur kirkjan leyfi til að halda trú að börnum. (Forseti hringir.) Þangað geta öll börn sótt sem þess óska. (Forseti hringir.) Það er betra að kveikja ljós en að bölva myrkrinu.