135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt undir hér í einu. Varðandi Hitaveitu Suðurnesja og ummæli mín um Suðurnesjamenn má enginn skilja það svo að ég hafi ætlað að tala eitthvað óvirðulega um þá. Það sem ég átti þar einfaldlega við var að þar eru menn komnir í kompaní við einkaaðila með mjög mikilvæga kjarnastarfsemi sem ég held að menn séu ekki búnir að bíta úr nálinni með. Það voru að einhverju leyti pólitískar ákvarðanir heimamanna sjálfra sem leiddu inn á þá braut. En ríkisstjórnin fyrrverandi reið vissulega á vaðið þegar hún seldi hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja skilyrt þannig að einkaaðilar skyldu kaupa.

Varðandi heilbrigðismálin erum við auðvitað búin að taka hér á ýmsum punktum í umræðum undanfarna daga, deilur um einkarekstur og opinberan rekstur og skipulagsatriði heilbrigðisþjónustunnar. Það er á sínum stað. En þegar kemur að kjarnastarfsemi og sérhæfðustu starfsemi t.d. Landspítala – háskólasjúkrahúss er engri slíkri deilu til að dreifa. Það er ekkert til umræðu svo að ég viti að hjartaskurðlækningar verði annars staðar en þar. Þegar þær eru í fjársvelti, þegar þar er mörg hundruð manna biðlisti, er bara eitthvað mikið að og á því verðum við að taka. Þar er ekkert hægt að skjóta sér á bak við neinn ágreining, neinar deilur, um rekstrarform eða skipulag eða hvernig að málum skuli staðið. Við vorum stolt af því, Íslendingar, þegar við tókum hjartaskurðlækningar inn í landið. Það var glæsilegt að við skyldum gera það og að okkar fólk þyrfti ekki þurfa að fara utan og bíða þar eins og áður var. (Gripið fram í: Og deyja.) En við eigum bara að gera þetta sómasamlega ef við erum að þessu á annað borð.

Varðandi sveitarstjórnarmálin, jú, jú, þetta er allt saman á sínum stað. Afkoman er mjög mismunandi og við vitum að lausnanna verður þar af leiðandi að einhverju leyti að leita í því að koma auknum fjármunum til þeirra sveitarfélaga sem eru með erfiðastan rekstur, skuldsettust o.s.frv. Það bara gengur svo hægt, hv. þingmaður. Það er það sem maður er að verða alveg vitlaus á. Þetta er ár eftir ár eftir ár sama jarmið og ekkert gerist. (Gripið fram í: Ekkert gerist?) Nei.