135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn fær nú sín fyrstu fjárlög afgreidd og það má segja um þau eins og fleiri fyrirbæri tilverunnar …

(Forseti (StB): Forseti vill trufla hv. þingmann og vekja athygli hv. þingmanna á því að enn er ólokið atkvæðagreiðslu um afbrigði þannig að forseti vill biðja hv. þingmenn að sitja í salnum. Forseti biður hv. þingmann afsökunar á trufluninni en hann heldur ræðu sinni áfram þaðan sem frá var horfið.)

Allt í lagi ef klukkan verður stillt upp á nýtt, virðulegur forseti, það er fulllítið eftir af ræðutímanum.

Ríkisstjórnin er hér að fá sín fyrstu fjárlög samþykkt og það er með þau eins og fleira að þau eru kannski falleg úr fjarlægð en mesti glansinn fer af þeim þegar nær dregur. Viðamiklir málaflokkar eins og heilbrigðismál fá allsendis ófullnægjandi úrlausn. Mestum vonbrigðum hljóta þó fjárlögin að valda Samfylkingunni sem gekk til kosninga með gríðarleg loforð um umtalsvert aukin útgjöld til velferðarmála til að rétta hag barnafólks, til að koma til móts við fólk vegna kostnaðar við húsnæðisöflun, til að létta skattbyrði láglaunafólks.

Niðurstaða frumvarpsins er hins vegar sú að barnabætur skerðast, vaxtabætur hækka ekkert þrátt fyrir stóraukinn vaxtakostnað og skattleysismörk eru óbreytt frá tíð fyrri ríkisstjórnar að teknu tilliti til verðlags. Þennan beiska kaleik er Samfylkingin nú með brennheitan í höndunum og á mikið ódrukkið af honum.