135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:25]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við stöndum í þeim sporum að fram undan eru gríðarlega miklar breytingar í sjávarplássum landsins. Ég held að það sé óumdeilt að þetta eru örlagaár fyrir þau byggðarlög og fyrirsjáanlegt er miðað við þau skref sem ríkisstjórnin hefur stigið að það verður mikill samdráttur í útgerð í þessum plássum, mjög mikill.

Í þessari stöðu er það tillaga vinstri grænna að gera enn meira í öfuga átt, ganga enn lengra hin vondu skref sem ríkisstjórnin er að fara með tillögum sínum hér. Það eru bara tillögur um að gera þeim léttara að kaupa allar veiðiheimildirnar af smáútgerðarmönnunum sem munu hætta og eru að selja hver á fætur öðrum stóru fyrirtækjunum, Samherja og Brimi. Þangað fer kvótinn, og það er verið að gera þeim það léttara með því að aflétta þessari upphæð, 1,45 kr., í tillögum vinstri grænna. Það er framlag þeirra til atvinnumála í þessum byggðarlögum. Það er bónorð þeirra til sjálfstæðismanna. Það eru engar tillögur um að tryggja atvinnulíf á þessum stöðum, það eru engar tillögur til að mæta því þegar útvegsmenn fá 4 þús. krónur fyrir kílóið í dag sem er miklu meira en var áður en kvótinn var skorinn niður. Þeir fá yfir 230 kr. fyrir leigukílóið sem er miklu meira en var áður en kvótinn var skorinn niður.

Þeir hafa engar tillögur til að bregðast við þessari stöðu, bara tillögur til að ívilna útvegsmönnum enn meir en þegar er orðið.