135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[22:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég mun að mestu leyti halda mig við það að mæla fyrir breytingartillögum sem við þingmenn þingflokks Vinstri grænna flytjum saman, fara yfir þær og bera þær saman við efni frumvarpsins sem fyrir liggur og reyndar efni þingskapanna sjálfra sem ég gleymdi að taka með mér og einhver er kannski svo vænn að skutla í stólinn til mín, þ.e. bera gildandi þingskapalög saman við frumvarp forseta. Ég vil segja strax um þingskapalögin að þó að þeim hafi verið breytt og þar á meðal nú í vor talsvert tæknilega, eins og kom fram, er ég þeirrar skoðunar að þau eigi og hljóti að þurfa að vera áfram undir í vinnu hvað sem líður afgreiðslu þessa máls. Það á að tengja miklu metnaðarfyllri áætlun um að endurskipuleggja hér störfin og skoða þau ofan í kjölinn en enn liggur fyrir. Ég verð að játa það á mig eins og alla aðra sem hafa kannski haft aðstöðu til að hafa einhver áhrif að í tímans önn á undanförnum árum hefur það einhvern veginn lent í hálfgerðri útideyfu að Alþingi tæki sín eigin mál nógu föstum tökum og byggði betur að sjálfu sér. Ég held að Alþingi hafi ekki haft að þessu leyti nægan metnað fyrir eigin hönd og ég held að Alþingi hafi því miður, eins og vill verða, verið pínulítið spéhrædd stofnun og hrædd við að neikvæð umræða í fjölmiðlum og annars staðar mundi dynja á mönnum ef menn hefðu metnað og réðust í einhverjar myndarlegar og marktækar aðgerðir til að bæta virkilega starfsaðstæður og búa betur að þinginu, þingmönnum og ekki síst starfsfólki Alþingis og allri starfseminni hér. Það er þörf fyrir áframhaldandi störf í þessum efnum hvað sem líður meðferð þessa máls. Hvernig sem það verður afgreitt spái ég því að við sjáum ekki hér með fyrir endann á vinnu sem að þessu lýtur, bæði þingsköpunum sjálfum og ýmsu öðru sem tengist starfsemi Alþingis.

Ég verð þá fyrst að segja, virðulegur forseti, því miður að ég hef mikla ömun af því hvernig þetta mál hefur borið að og í hvaða farveg það er komið. Mér finnst mjög dapurlegt að ekki skuli takast betur til þegar Alþingi sjálft ræðir eigin vinnureglur og starfslöggjöf en hér hefur stefnt í, og stefnir í. Ég verð líka að segja fyrir mína eigin hönd sem einn af þingreyndustu mönnunum hér, væntanlega sá sem á eftir hæstv. félagsmálaráðherra hefur setið hér næstlengst samfellt, og lengst í heild, að mér finnst mjög dapurlegt eftir að hafa eytt hér rjómanum af starfsævi minni að þurfa að horfa upp á þingið í þessu ljósi, hvort sem það er gert innan frá sem gamalreyndur verkamaður hér eða utan úr samfélaginu. Það er kannski að sumu leyti gott að þjóðin er orðin upptekin við að baka fyrir jólin og ekki endilega að velta mikið fyrir sér hversu gott upplitið á því er að þjóðþingið sjálft skuli ekki ná að taka betur á og vera samstilltara í vinnubrögðum sínum þegar kemur að grundvallarleikreglum.

Ég vona að ég hafi í gegnum tíðina hér á þingi lagt mitt af mörkum og reynt að vinna vinnu mína sómasamlega. Svo mikið er held ég víst að ég mæti nokkuð vel og skrópa ekki mikið í vinnunni. Ég reyni að taka virkan þátt í störfunum og tel mig búa að þó nokkurri reynslu um það hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig og hvernig hið margslungna hlutverk þingsins og eðli þingmannsstarfsins mætist allt hér í einum punkti á vissan hátt innan veggja Alþingis, að ógleymdum þó þeim stóra hluta þingmannsstarfsins sem auðvitað liggur úti í samfélaginu, í samskiptum við kjósendur, þjóðina og þjóðarsálina. Mér finnst satt best að segja niðurlægjandi fyrir Alþingi að þetta skuli ganga svona fyrir sig.

Ég heimsótti þýska þjóðþingið fyrir nokkrum árum. Það var ákaflega lærdómsrík heimsókn og er þar að sjálfsögðu ólíku saman að jafna, hinum volduga Bundestag og Alþingi. Þó er ýmislegt sem má skoða og bera saman þó að stærðarhlutföll séu eins og þau eru og Þjóðverjar hafi sinn stíl á hlutunum og við okkar. Eitt vakti mikla athygli mína þegar forustumenn þýska þingsins, forseti þýska þingsins, fulltrúar í forsætisnefnd og forustumenn þingflokka á þýska þinginu, voru að ræða við okkur og við að bera saman bækur okkar og það var hvernig þeir nálguðust þingið sem fyrirbæri gagnvart þjóðinni og metnaðurinn og virðingin sem þeir lögðu í upplit þingsins og að yfir þeirri mynd sem þjóðin hefði af löggjafarsamkomu sinni væri reisn og virðuleiki. Þar á meðal sögðu þeir að það væri síðasta þrautaráðið, þegar öll önnur úrræði væri tæmd og öll sund lokuð, að bera á borð deilur uppi í þingsalnum, sérstaklega um málefni þingsins sjálfs, vinnubrögð, dagskrá, meðferð mála, umræður og annað slíkt. Vegna þess, sögðu þessir forustumenn á þýska þinginu, að við viljum ekki láta okkar þjóð horfa upp á það að sjálft þjóðþingið geti ekki leyst slíka hluti í góðu samkomulagi, haft reisn og virðingu yfir því sem þar er borið á borð og rætt er og gert í heyranda hljóði. Nú er auðvitað hinn þýski agi alþekktur og ég er ekki að segja að við eigum endilega að samsama okkur Þjóðverjum að öllu leyti, en það var þó ekki hægt að komast hjá því að verða dálítið snortinn af því hvernig þeir nálguðust þetta vegna þess að þetta snerist ekki um að kúga einn eða annan og þetta snerist ekki um einhverja harðstjórn heldur fyrst og fremst um virðingu og reisn, það skyldi leggja þessa hluti til grundvallar þegar menn ræddu málin á vettvangi formanna þingflokka í forsætisnefnd þingsins til að hafa sem bestan svip á hlutunum og ná samkomulagi eins lengi og frekast og þess væri nokkur kostur. Ég verð að segja að hvað varðar vinnuna að þessu máli hefðum við getað lært mikið af þýska þinginu, mjög mikið. Taki það til sín allir sem eiga, allir. Ég undanskil ekki sjálfan mig þar eða minn þingflokk.

Ég held að aðalógæfan í þessu máli sé sú að aðdragandinn að því frumvarpi sem hér hefur orðið að miklu deilumáli er ekki eins og hann hefði þurft að vera. Frumvarpið er sannanlega ekki samið af þverpólitískri nefnd með aðild allra þingflokka. Það er ekki heldur samið með aðild starfsmanna Alþingis. Það fæðist á einhvern mjög þröngan hátt og höfundarnir, eða kannski jaðrar við að nota megi þar eintölu, vinna það upp í hendur forseta sem leggur það síðan fram, kynnir það í drögum sem trúnaðarmál, fyrst í forsætisnefnd og svo miklu síðar á fáeinum fundum með formönnum þingflokka, og einu sinni óskaði forseti þingsins eftir fundi með mér sem formanni stjórnmálaflokks og reifaði lauslega við mig hugmyndir sínar um þessar breytingar. Einu sinni, í septembermánuði í haust ef minni mitt svíkur ekki. Þá þegar varaði ég forseta við því að vissar hugmyndir hans í frumvarpinu væru þannig að ég teldi öll tormerki á því að um þær gæti orðið sátt, a.m.k. af okkar hálfu. Þetta hefur þar af leiðandi forseti Alþingis a.m.k. vitað lengi hvað varðar afstöðu okkar í þingflokki Vinstri grænna. Ég held að það hafi verið mjög miður að þetta starf skyldi ekki vera sett af stað frá byrjun þannig að öll sjónarmið væru með, að frumvarpið sjálft væri samið af nefnd þingmanna allra þingflokka eða með aðild allra þingflokka og grunnurinn lagður þannig en ekki á því formi að fullbúið frumvarp birtist allt í einu í höndum forseta, og því miður fylgdu því næstum frá byrjun þau ummæli af hans hálfu að tvennu yrði ekki breytt, órjúfanleg tenging væri milli frumvarpsins og tiltekinna hliðarráðstafana sem hér hefur staðið til að gera, óverulegra að vísu, og varða fyrst og fremst starfsaðstæður þingmanna landsbyggðarkjördæmanna þriggja, minni háttar ráðstafanir sem tengjast nefndasviði Alþingis og aðstoðarmenn handa forustumönnum stjórnarandstöðuflokka.

Um þetta þrennt er það að segja að í fyrsta tilvikinu á við níu ára gamalt loforð sem hefur staðið upp á alla aðstandendur að efna. Ég hef ekki séð og sé ekki enn rökin fyrir því eða sanngirnina í því að spyrða það saman við breytingar á þingsköpum Alþingis, að efna nú loksins það loforð sem gefið var fyrir kjördæmabreytinguna 1999, að þegar til yrðu hin gríðarstóru og víðlendu landsbyggðarkjördæmi væri óumflýjanlegt að gera ráðstafanir til að auðvelda þingmönnum þar störfin við þessar landfræðilega erfiðu aðstæður og menn nefndu þá þegar sérstaklega hlutskipti þeirra sem yrðu einyrkjar, yrðu einir fulltrúar sinna flokka í þeim kjördæmum. Varðandi það að ráða eins og kannski þrjár viðbótarstarfsmenn á nefndasvið Alþingis eru þar ekki stórtíðindi á ferð, er það? Ekki ef haft er í huga að lengi hafa verið uppi hugmyndir um að efla þá starfsemi verulega. Hér hafa verið uppi hugmyndir um að stofna hagdeild eða hagskrifstofu, allt frá því að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Það hafa verið uppi hugmyndir um að styrkja nefndasviðið og Alþingi allt, t.d. með því að hér væri öflug ráðgjöf og þekking á sviði lögfræði til að meta lagaleg álitamál og ekki síst það hvort frumvörp stönguðust á við stjórnarskrá og fleira í þeim dúr.

Hér hafa lengi verið uppi hugmyndir um að efla starfsemi á bak við utanríkismálanefnd og þannig má áfram telja. Ráðning þriggja starfsemi, sem ekki einu sinni verða eyrnamerktir því að aðstoða stjórnarandstöðu sérstaklega, inn á nefndasvið, eru ekki stórtíðindi. Það er ekki heimsviðburður í mínum huga.

Í þriðja lagi hefur lengi verið rætt um að það væru að mörgu leyti ósanngjarnar aðstæður sem forustumenn stjórnarandstöðuflokka væru settir í, að kljást við keppinauta sína ríkisstjórnarmegin, formenn þeirra flokka sem jafnan eru ráðherrar, og aðstöðumunurinn ærinn. Ekkert er nú nýtt af þessu, ekki neitt. Ef raunverulegur vilji og samstaða er um að grípa til ráðstafana af þessu tagi gera menn það í krafti þeirra eigin ágætis og spyrða það ekki saman við aðra hluti, eins og þá hvernig við göngum frá leikreglunum hvað varðar umræður í þinginu og tilhögun funda og réttindi þingmanna sem eru lögvarin af þingsköpum.

Því miður hefur ekki að mínu mati reynst nægjanlegur vilji til að láta það fyrst og fremst ráða för hér í vinnunni að menn vilji og ætli sér að ná samstöðu. Nú ganga að sjálfsögðu ásakanirnar þar á báða bóga, eins og hér hefur komið fram, og við bætum okkur sjálfsagt ekki mikið með því að lengja umræður um það. En ég ætla bara að benda á eina til tvær staðreyndir sem ekki verða hraktar. Að slepptum örfáum dögum síðasta vor, eftir kosningar, er þetta þing nú á sínum fyrstu mánuðum. Við höfum verið hér síðan 1. október sl. Það er ekki langur tími á fjögurra ára kjörtímabili. Er einhver ástæða til að búa sér til heimatilbúna tímapressu og láta eins og það skipti sköpum hvort niðurstaða fæst í þessu máli einhverjum dögum, vikum eða þótt það væri einum til tveimur mánuðum fyrr eða síðar? Það er í raun það sem ræður för, menn eru ekki tilbúnir til að gefa því örlítinn viðbótartíma að láta reyna á það til þrautar hvort samstaða geti náðst.

Mér finnst það stórdapurlegt, sérstaklega vegna þess að ég hef býsna sterka sannfæringu fyrir því að þegar upp er staðið þurfi ekki að vera svo langt á milli sjónarmiða í þessu máli. Þetta er aðeins spurning um það hvort unnt er að finna flötinn og u.þ.b. svæðið þar sem menn gætu mæst með ólík sjónarmið. Við höfum alveg áttað okkur á því að við yrðum að ganga langt til móts við sjónarmið þeirra sem hafa viljað ganga harðast fram í því að takmarka umræður mjög verulega og í raun og veru gjörbreyta umræðuumhverfinu og réttindum þingmanna að því leyti frá því sem verið hefur. Það vill, finnst mér, stundum gleymast að við erum að fara úr þjóðþingi sem fyrir ekkert löngu síðan hafði ótakmarkaðan ræðutíma í öllum þremur umræðum um frumvörp og yfir í það núna að taka í einu skrefi það stóra stökk að loka alveg hvað tímamörkin snertir bæði 2. og 3. umr. Eins og hér kom fram áðan hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni spurðum við: Er ekki ágætisáfangi á þeirri leið að takmarka mjög verulega ræðutímann við 3. umr.? Fyrir því eru veigamikil efnisleg rök að það eigi ekki að þurfa að vera á kostnað neinna annarra markmiða vegna þess að þá er aðalumfjöllun og aðalefnisumræða og aðalrökræða yfirleitt búin um mál. Hún hefur farið fram við 1. umr. og þó sérstaklega 2. umr. sem er samkvæmt hefð og þingskapalögum meginefnisumræða um mál.

Menn vildu ganga lengra og við sögðum þá: Gott og vel, við skulum skoða það. Við höfum reynt að teygja okkur verulega í þá átt en þó viljað halda í a.m.k. ákveðinn rétt sem hægt væri að grípa til þegar mikið lægi við, þótt hann væri takmarkaður og bundinn við tiltölulega fá skipti kannski á hverju þingi.

Það hefur greinilega ekki dugað og hugur manna stendur fremur til þess að afgreiða þetta mál í ágreiningi og deilum og andstöðu við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar en að gefa því meiri tíma að leita sátta. Það finnst mér mjög dapurlega niðurstaða, ég hef sagt það áður og get endurtekið það hér að mér finnst ábyrgð forseta Alþingis mikil í þeim efnum. Mér finnst hans hlutur ekki vaxa við það að þurfa að bera ábyrgð á því og hafa forustu um þessi vinnubrögð. Ég lít svo á að ein meginskylda forseta Alþingis, eins og allra annarra góða verkstjóra hvar sem er, sé sú að reyna að skapa sátt og andrúmsloft samvinnu og friðar á vinnustaðnum og ef það á einhvers staðar við ætti það að eiga við á sjálfu þjóðþinginu.

Ég þóttist skynja það þegar leið á nóvembermánuð að þetta mál væri að fara í ógæfulegan farveg. Ég reyndi að gera mitt til þess með ýmsum hætti að fá menn til a.m.k. að staldra við, þar á meðal forseta Alþingis, hvort ekki mætti t.d. bíða með það í einhverja daga eða sólarhringa að leggja málið fram í ágreiningi, hvort það væri ekki þess virði að skoða það aðeins betur. Ég kom þeim skilaboðum, og við fleiri, rækilega til skila, að við værum tilbúin til að reyna að teygja okkur áfram í átt til samkomulags. Ég vil líka láta það koma fram úr ræðustóli á Alþingi að ég hafði samband við forsætisráðherra. Nú er þetta mál að sjálfsögðu á forræði þingsins og ég er ekki að tala við forsætisráðherra vegna þess að hann eigi að fara að blanda sér í það. (Gripið fram í.) Nei, nú skyldi hæstv. forseti varast að grípa ógætilega fram í. Það er líka þannig að forsætisráðherra er verkstjóri stjórnarmeirihlutans og þetta mál snýst mjög verulega um þau samskipti, samskipti stjórnarandstöðu annars vegar, minni hlutans á þingi, og hinnar þingbundnu ríkisstjórnar og meiri hlutans sem að baki henni er hins vegar. Það vita allir sem eitthvað vita um þingræði að þannig er það. Ég hafði samband við forsætisráðherra og höfðum við þá ekki átt mörg persónuleg samtölin frá því að ríkisstjórn var mynduð í vor satt best að segja. Ég sagði sem svo við hæstv. forsætisráðherra: Mér finnst rétt og skylt að hæstv. forsætisráðherra viti af því í hvaða stöðu þetta mál er og að ég hef miklar áhyggjur af að það sé að fara í ógæfulegan farveg.

Ég var ekki að biðja um neitt, ég tók það fram, en ég veit vel að það reyndur er hæstv. forsætisráðherra að hann skildi skilaboðin. Ég gerði meira, ég talaði aftur við hæstv. forsætisráðherra hér fyrir eins og þremur sólarhringum og kynnti honum málamiðlunartillögur okkar, tók skýrt fram að þetta væru engir úrslitakostir af okkar hálfu, við værum tilbúnir að teygja okkur áfram og reyna að ganga jafnvel enn lengra ef það mætti verða til samkomulags, nákvæmlega sömu skilaboð og forseti Alþingis hefur margfengið og komið var skýrt á framfæri í allsherjarnefnd. Þetta hefur ekki dugað. Þetta eru allt staðreyndir sem ég rek hér. Ég vona að enginn maður reyni að vefengja orð mín í þessum efnum. Svo geta menn auðvitað haldið hér áfram gagnkvæmum ásökunum um að sáttavilja hafi skort, en það hefur þá bara sinn gang.

Ég rek þetta hér vegna þess að ég held að enginn hafi neina sæmd af því að þetta mál gangi til enda í þeim farvegi sem það er. Það mun enginn hafa neina sérstaka sæmd af því ef þessi breyting verður gerð í erfiðum ágreiningi og með afleiðingum sem eru ekki heillavænlegar upp á samstarfsandrúmsloft milli manna hér á þessum vinnustað. Það er bara þannig.

Því miður er það svo að þótt vissulega séu sumar tillögur til bóta, í þessu frumvarpi forseta og fleiri, eru þar aðrir hlutir sem ég óttast mjög að muni ekki reynast heillavænlegir og að þar sé farið offari og gengið of langt, sérstaklega í því umhverfi og vegna þeirra aðstæðna sem við erum stödd í nákvæmlega núna. Ég óttast að sumar þessar breytingar, þótt þær séu í orði kveðnu og sagt að þær séu gerðar af góðum hug til þess að styrkja Alþingi, betrumbæta löggjafarstarfið o.s.frv., geti snúist upp í andhverfu sína.

Valdahlutföll í þessari stofnun eru þannig, meiri hluti svo fjölmennur og völdum innan þingsins þannig dreift, eða öllu heldur ekki dreift, um þessar mundir að þar er allt á hendi meiri hlutans. Allt. Meiri hlutinn hefur meiri völd, sterkari stöðu, en hann hefur yfirleitt nokkru sinni haft. (KÓ: … kosningar.) Já, það sé vegna kosninganna, segir hv. þingmaður. En þegar menn fá mikil völd þurfa menn að kunna að fara með þau. Það er til hlutur, hv. þm. Kjartan Ólafsson, ef þú hefur ekki heyrt af því, sem heitir sanngirni. Það er til nokkuð sem heitir lýðræðisþroski og lýðræðisskilningur. Það er ákaflega gott að hafa það í farteskinu og muna eftir því, sérstaklega þegar menn eru við völd og eru í meiri hluta. Það er ekki eitthvað sem menn fengu um aldur og ævi af himnum ofan eins og einvaldskonungarnir trúðu forðum. Það reyndist ekki þannig því að einvaldskonungunum var steypt af stóli og almenningur tók til sín þau völd sem honum réttilega ber. Síðan kalla menn það lýðræði, í anda þess fallega orðs, að það sé lýðurinn, fólkið sem ráði.

Því skulum við ekki heldur gleyma, hv. þingmenn, að við erum ekki hér sjálfra okkar vegna, í okkar eigin umboði. Við erum fulltrúar kjósenda okkar og verkfæri þeirra á þessum stað. Þaðan sprettur valdið. Það kemur ekki innan úr brjóstum okkar sjálfra, ekki innan úr brjóstum ríkisstjórnar og ráðherra, ekki innan úr brjóstum forseta Alþingis eða meiri hlutans hverju sinni, heldur frá þjóðinni. (LB: Hefur einhver dregið það í efa?) Ja, maður veltir því stundum fyrir sér hvort menn séu eitthvað ryðgaðir í þessum hlutum þegar maður stendur frammi fyrir vissum hlutum sem tengjast meðferð og skilningi þeirra á valdinu.

Hver er staðan hér? Hún er sú að meiri hlutinn eru 43 þingmenn af 63. Það þýðir að þeir eru meira en tveir þriðju og geta veitt sjálfum sér afbrigði gagnvart öllum ákvæðum þingskapanna. Ég játa það fúslega að það hefur haft umtalsverð áhrif á mat mitt á þessu máli að við stöndum í þeim sporum nú. Það hefur þegar reynt á að núverandi meiri hluti er ófeiminn við að nota þetta vald og veita sjálfum sér slík afbrigði. Það er erfitt að þurrka þá staðreynd út úr huganum að þannig er staðan. Hvað þýðir þetta? Jú, þetta þýðir m.a. það að sá sólarhringafjöldi að lágmarki sem þingsköpin ella tryggja að mál sé a.m.k. til umfjöllunar á leið sinni í gegnum þingið gildir ekki ef meiri hlutanum býður svo við að horfa.

Hver er staðan varðandi forustustörf í þinginu? Hún er sú að ekki bara forsetinn, sem hefur gríðarlega umfangsmikið og jafnvel vaxandi vald samkvæmt frumvarpinu, kemur frá meiri hlutanum, heldur fyrsti varaforseti líka, sem er afar óvenjulegt og helgast af því sama, að meiri hlutinn er svo fjölmennur og hann kaus að nota þann styrk sinn til að sækja sér líka fyrsta varaforseta Alþingis. Það þýðir að meiri hlutinn þarf ekki að deila forsetavaldinu með neinum öðrum en sjálfum sér nema ef svo ólíklega vildi til að bæði forseti og fyrsti varaforseti væru forfallaðir samtímis. Það er staðreynd sem við verðum líka að horfast í augu við, sem skipum þennan fáliðaða minni hluta, að ég tali ekki um okkur Vinstri græn, þá 9 þingmanna stjórnarandstöðu sem birtist a.m.k. í þessu máli.

Hver er staðan gagnvart forustu í þingnefndum og alþjóðanefndum? Hún er líka einsdæmi. Það þarf að fara langt aftur, hygg ég, til að finna stöðu þar sem meiri hlutinn hefur kosið að skammta sjálfum sér hverja einustu formennsku og varaformennsku í fastanefnd, hverja einustu formennsku og varaformennsku í alþjóðanefnd. Að vísu voru ekki margar undantekningar frá reglunni á síðasta kjörtímabili en þó að minnsta kosti ein mjög fræg, núverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, var sýnt það mikla traust að vera formaður sendinefndar Íslands á NATO-þinginu. Það voru kannski engin ósköp og ekki öfunda ég hann af því en hann var þar samt. Það sýnir að einhvers staðar í örlitlum afkima var sú hugsun að kannski gæti stjórnarandstaðan komið að einhverju, einn og einn maður. Ef við förum lengra aftur munum við þá tíma þegar reynt var að skipta formennsku í fastanefndum og alþjóðanefndum nokkuð sanngjarnt á milli þingflokka og á milli meiri hluta og minni hluta.

Þetta þurfum við að hafa í huga út frá þeim verkefnum, því stjórnskipulagi sem hér er og hinu mikla valdi forsetans. Við þurfum líka að hafa þetta í huga þegar við ræðum hið fjölþætta hlutverk Alþingis og muna að Alþingi er ekki bara afgreiðslustaður. Ég hrökk við áðan þegar ég, að vísu í gegnum sjónvarp á neðri hæðinni, hlustaði á ræðu og einn ræðumanna talaði um afköst, að með styttingu ræðutímans væri ætlunin að auka afköst Alþingis. Þá fór ég að hugsa: Bíddu, er það kannski þannig sem einhverjir nálgast þetta? Að þetta snúist um afköst í skilningnum magn? Að þetta gangi greiðar fyrir sig, hraðari afgreiðsla? (Gripið fram í: Vönduð vinnubrögð.) Ég held að hugtakið afköst sé mjög hættulegt hér. Afköst er fyrirbæri sem menn tengja við iðnaðarframleiðslu, færibönd og framleiðni á færiböndum frá Marel eða einhverju slíku (Gripið fram í: Hver talaði um afköst?) Það gerði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Ég held að menn þurfi að fara mjög varlega gagnvart öllu slíku og muna eftir því að það er ekki magnið heldur gæðin sem skipta máli, þ.e. að lagasetningin sé vönduð, að hér verði ekki mistök, að öll sjónarmið fái að koma fram og að menn gefi sér a.m.k. sæmilegan tíma til að huga að málunum, rannsaka þau ofan í kjölinn, að menn séu móttækilegir fyrir utanaðkomandi sjónarmiðum, leyfi umsagnaraðilum að koma sjónarmiðum sínum að, kallist á við þjóðina um málin. (Gripið fram í.) Þetta er fyrst og fremst það sem snýr að hlutverki Alþingis sem löggjafarvalds og kannski fjárstjórnarvalds. Þá er alveg ónefndur sá þátturinn sem er Alþingi sem helsti pólitíski umræðuvettvangur í landinu, vettvangur pólitískra skoðanaskipta. Þá er ónefndur sá þáttur sem snýr að því, óháð lagasetningu, að Alþingi standi sterkt gagnvart framkvæmdarvaldinu og veiti því aðhald. Hvernig búa menn best um að það sé tryggt? Er það með því að meiri hlutinn, sem ber ábyrgð á sama framkvæmdarvaldi, ráði hér öllu? Getur einhver fært málefnaleg rök fyrir því að þannig sé best búið um aðhald löggjafarvaldsins að framkvæmdarvaldinu, að sá hinn sami meiri hluti og ríkisstjórnin starfar í skjóli af fari með öll völd, allt forræði. Nei, auðvitað ekki, (Gripið fram í: Þetta frumvarp …) það gengur ekki upp. (LB: Þetta frumvarp mun ekki breyta því.) Það gengur ekki upp, hv. þingmaður. Nei, en það þyrfti kannski að gera það. Ég tala nú ekki um ef slíðra á beittasta brandinn sem stjórnarandstaðan hefur yfirleitt haft í sínum höndum og bítur helst þegar á reynir. (LB: Það er óheft málfrelsi.) Það þarf ekki að vera óheft málfrelsi en a.m.k. réttur til að veita andóf og sýna viðspyrnu þannig að færibandið gangi ekki á margföldum hraða.

Það má ekki gerast vegna þess að Alþingi má aldrei breytast í færiband fyrir umdeild, flókin eða illa unnin mál framkvæmdarvaldsins né mál þingmanna. Enn síður ætti Alþingi að láta nokkurn mann sjá að það afgreiði sín eigin mál öðruvísi en að undangengnum vönduðum undirbúningi, rækilegri skoðun og hefði gefið sér góðan tíma til að fara yfir málin.

Ég vil einnig nefna að Alþingi og starfsreglur þess, lög um þingsköp og það hvernig við stöndum að málum, er ekki okkar einkamál. Þess vegna undrast ég að menn skuli varla telja það rökræðu virði að hafna því að frumvarp um grundvallarstarfslöggjöf Alþingis geti farið til umsagnar í þjóðfélaginu, að ástæða geti verið til að kalla til skrafs og ráðagerða sérfróða aðila sem Alþingi hefði gagn af að bera sig saman við. Er það vegna þess að menn líta svo á að starf og starfshættir Alþingis séu einkamál þess, að þjóðinni komi það ekki við, að engum úti í þjóðfélaginu komi það við? Nei, vonandi ekki. Þá held ég að menn séu á hálum brautum, að horfa ekki á þetta með gagnstæðu hugarfari og segja: Það varðar auðvitað þjóðina miklu hvernig hér er staðið að málum. Við viljum hlusta á sjónarmið, ef einhver eru, þaðan.

Hvaða aðilar hefðu t.d. verið, að mínu mati, gagnlegir til skrafs og ráðagerða um þetta mál í nefnd eða á hvern hátt sem það hefði verið gert? Jú, það hefðu getað verið fræðimenn á sviði stjórnsýsluréttar, stjórnmálafræði, úr háskólasamfélaginu og víðar að. Það hefðu að sjálfsögðu getað verið sérfræðingar og forustumenn úr heildarsamtökum í landinu, sem eiga margvísleg samskipti við Alþingi og sækja hagsmuni sína mikið undir það. Ég tel að það væri að mörgu leyti áhugavert að ræða þá hluti við fulltrúa fjölmiðla, t.d. Blaðamannafélags Íslands. Hvernig upplifir fjölmiðlaheimurinn þingið og samskipti sín við það og öfugt? Það væri kannski þess virði að halda einn fund um slíkt, því ekki? Það var ekki gert, ekki talin ástæða til. Menn hæla því sem sérstaklega sem vönduðum vinnubrögðum og ítarlegri og rækilegri skoðun að allsherjarnefnd hafi verið með málið til skoðunar í nokkra sólarhringa. Er það ekki satt? Er það ekki staðreynd? Jú, það held ég.

Við, frú forseti, leggjum fram viðamiklar breytingartillögur. Ég ætla að nefna nokkrar þær helstu. Þær tengjast mjög þeim rökstuðningi og þeirri umfjöllun sem ég hef farið yfir. Ég skal reyna að fara hratt yfir sögu.

Við teljum að frumvarpið eins og það er nái alls ekki tilgangi sínum og sumar breytingar þess geti snúist upp í andhverfu sína, muni ekki styrkja þingið heldur hið gagnstæða. Sumir hlutar frumvarpsins eru í mótsögn við aðra og yfirlýstan tilgang málsins, t.d. ákvæðin um fundartíma, sem ég kem betur að.

Í breytingartillögum okkar á þingskjali 525 leggjum við til, í fyrsta lagi, og þar er nú ekki langt gengið, að þegar þannig háttar til að forseti Alþingis kemur úr röðum meiri hlutans, sem er hefðin hér á Íslandi, komi fyrsti varaforseti jafnan úr röðum minni hlutans. Það er þá a.m.k. þannig að forsetinn þarf að ráðgast við sinn nánasta og næsta samstarfsmann sem kæmi úr hinni fylkingunni. Auðvitað fyndist mér koma mjög vel til greina að gefa fyrsta varaforseta sérstaka stöðu í þingsköpunum og að kveðið sé á um að forseti og fyrsti varaforseti, sem jafnan kæmi úr gagnstæðri fylkingu, ættu með sér sérstakt samráð, t.d. um ákvörðun dagskrár, fundarboðun og fleira í þeim dúr. Þó yrði að vera, ef ágreiningur yrði uppi, að þá réði forseti hvort sem þeim ágreiningi væri lýst eða ekki.

Í öðru lagi leggjum við til að breyting verði gerð á 1. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um fundartíma. Þar segir m.a. að reglulegir fundir, samkvæmt starfsáætlun, í frumvarpinu, skuli ekki standa lengur en til átta síðdegis en frá því megi þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingið samþykkir, samanber 67. gr. Hvaða grein er það? Það er greinin um einfaldan meiri hluta, að einfaldur meiri hluti atkvæða ráði.

Svo segir:

„Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli, virðulegur forseti? Þetta þýðir það að forseti Alþingis getur hvenær sem er borið upp tillögu um að lengja fund og honum nægir til þess einfaldur meiri hluti stjórnarmeirihlutans, eða hluta hans, hverju sinni. Þetta ákvæði er í undarlegri mótsögn við yfirlýstan tilgang málsins, að búa til fyrirsjáanlegri og reglulegri ramma um fundastörfin. Hvaða hald er í því að setja í lög að fundir skuli jafnan vera búnir klukkan átta ef hvenær sem er og fyrirvaralaust er hægt að breyta því? Halda menn ekki að hætta verði á að forseti, undir þrýstingi frá ráðherrum meiri hlutans eða einhverjum öðrum um að drífa hlutina áfram, freistist til að grípa til þessa ákvæðis? Hvað hafa menn þá unnið með því, ef fimm mínútum fyrir átta á kvöldin er allt í einu tilkynnt að fundurinn standi í þrjá, fjóra tíma áfram eða hvað það verða margir klukkutímar í viðbót? Við leggjum til að forseta sé skylt, komi það til greina að tillaga kunni að verða flutt um lengri fund, að gera viðvart um það um miðjan dag og þurfi, ef svo má orða það, að flagga, eins og sagt er á máli kauphallarhéðna, og gera mönnum viðvart þannig að bæði þingmenn og starfsmenn Alþingis og aðrir sem málið varðar fái a.m.k. nokkurra klukkutíma ráðrúm til undirbúnings mögulegum lengdum fundartíma.

Í þriðja lagi leggjum við til varðandi kosningar í fastanefndir og alþjóðanefndir, að þó að þær fari fram samkvæmt sömu reglum og um þær gilda í dag, skv. 14. og 35. gr., þá skuli koma þarna inn leiðbeinandi ákvæði um það að jafnan sé leitast við að ná samkomulagi sem tryggi sanngjarna og hlutfallslega eðlilega dreifingu viðkomandi forustustarfa milli þingflokka og milli meiri hluta og minni hluta á hverjum tíma. Þarna er ekki gengið svo langt sem vissulega kæmi til greina, að flytja inn í þingsköpin ákvæði um að það skyldi kjósa hlutfallskosningu af heildarlista samkvæmt vali og d´Hondt-reglu og þá væntanlega þannig að stærsti flokkurinn eða þingflokkurinn veldi sér þá nefnd sem hann fyrst vildi taka, síðan næsti og koll af kolli. Þannig er að sjálfsögðu nauðaeinfalt að búa út kosningareglur sem tryggja ósköp einfaldlega hlutfallslega dreifingu forustustarfanna í þingnefndum í samræmi við þingstyrk flokka og meiri hluta og minni hluta. En hér er valin sú leið af því að væntanlega mundi mönnum þykja þetta róttæk breyting frá núgildandi ákvæðum, að setja inn leiðbeinandi reglu sem við mundum að sjálfsögðu treysta að yrði reynt að hafa í heiðri eftir að hún væri komin í lög.

Við leggjum í fjórða lagi til að sett verði inn ákvæði um almennan rétt þingmanna til að fá upplýsingar um opinber málefni og frá opinberum aðilum leiti þeir eftir slíku starfa sinna vegna. Þótt það sé vissulega þannig að almennt séð er þingmönnum vel tekið þegar þeir bera sig eftir gögnum og upplýsingum úr ráðuneytum eða opinberum stofnunum eða hjá almannasamtökum eða hvar það nú er, þá verða því miður líka stundum brögð að hinu að það er mikil tregða til að veita þingmönnum, jafnvel þingnefndum á Alþingi sem slíku, slíkar upplýsingar. Stundum er hægt að sækja þær eftir öðrum leiðum með formlegum fyrirspurnum, með því að beiðast skýrslu o.s.frv. en það er dálítið krókótt leið ef þetta snýst kannski fyrst og fremst um að fá einhver einföld, almenn eða opinber gögn. Það væri því tvímælalaust til bóta að setja inn leiðbeinandi reglu sem styrkti rétt og stöðu þingmanna að þessu leyti og reynslan sýnir að það er full þörf fyrir það.

Við lögðum það til í allsherjarnefnd og við leggjum það sömuleiðis til í breytingartillögu að ræðutími við 2. umr. fjárlagafrumvarps, hinn almenni ræðutími, skuli alltaf vera tvöfaldur og einnig að unnt sé að lotuskipta umræðunni eftir helstu efnisflokkum til að auðvelda skoðanaskipti þingmanna og ráðherra. Þessa breytingartillögu hefur meiri hlutinn að vísu að hluta til tekið upp í breytingartillöguskjali sínu og má kannski segja að málflutningur okkar við 1. umr. sem og tillögur okkar sem við spiluðum inn í allsherjarnefnd hafi að því leyti til náð þarna sumpart fram að ganga.

Við flytjum í breytingartillögum okkar nýja töflu um viðmiðunarræðutíma sem ég vísa til að öðru leyti og þar eru tímamörkin allmiklu rýmri en þau sem aðstandendur frumvarpsins leggja til í frumvarpinu og rýmri en þær breytingar eða þrátt fyrir að þær breytingar yrðu gerðar sem meiri hlutinn flytur tillögu um sem eru reyndar mjög óverulegar, þá er þar talsverður munur á. Það er vissulega alveg rétt sem hér hefur verið á bent að þar er talsverður munur á. Vil ég þá leggja áherslu á að tillögur okkar eru þær málamiðlunartillögur sem við lögðum fram. Þær ber ekki endilega að skoða sem óskafyrirkomulag okkar í þessum efnum en við vildum standa við í formi þeirra breytingartillagna sem við flyttum, þær tillögur og þann grundvöll til málamiðlunar sem við höfðum lagt fram. En þar til viðbótar viljum við að það sé á valdi hvers þingflokks að óska eftir því a.m.k. fjórum sinnum á hverju þingi að ræðutími við 1. og 2. umr. máls sé tvöfaldur eða við síðari umræðu þingsályktunartillögu og einu sinni geti þingflokkur á hverju þingi gripið til einhvers konar neyðarréttar sem við getum kallað svo og fengið því framgengt að 2. umr. um frumvarp eða síðari umræða um þingsályktunartillögu færi fram í tveimur ótímabundnum umræðum. Það er kannski ástæðulaust að nefna einhver dæmi um mál sem maður gæti hugsað sér að þessum rétti yrði beitt gagnvart en ég get þó nefnt t.d. ef hér kæmi fram tillaga til þingsályktunar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þar væru einn eða fleiri flokkar sem væru í minni hluta og réðu ekki dagskrá og fundahaldi á þingi í sérstöðu með því máli eða á móti, það skiptir ekki máli, þá gætu þeir gripið til þessa réttar í ljósi þess hvað málið væri gríðarlega viðamikið og afdrifaríkt og knúið fram slíka umræðu. Ætli einhverjum þætti það óeðlilegt, skaðlegt fyrir lýðræðið, vont fyrir Alþingi eða þjóðina að slík söguleg stórmál gætu fengið allt aðra og ítarlegri umfjöllun en önnur? Menn kunna að vísa til þess að forseti hafi heimildir til að lengja umræður og allt þetta og það sé þá í öllu falli hægt að tvöfalda hana en það kynni að þykja nokkuð magurt ef annað yrði ekki í boði og aðstæður væru kannski þannig hér að það einasta sem einhver hópur þingmanna, einn tveir þingflokkar í minni hluta t.d. ættu í sínum fórum eftir væri neyðarréttur af þessu tagi, og er þá eitthvað óeðlilegt eða ólýðræðislegt við að hann sé til staðar? Nei, það held ég ekki og ég er reyndar þeirrar skoðunar að einhver slík vörn fyrir málfrelsið ætti að vera í stjórnarskrá lýðveldisins sem verði að þessu leyti rétt þingmanna svipað og gerist í finnsku stjórnarskránni.

Við leggjum í sjöunda lagi til að síðari málsliður a-liðar 15. gr. frumvarpsins falli niður. Þar á að koma inn í þingsköpin — mér liggur við að segja læða inn í þingsköpin samkvæmt frumvarpi forseta og fleiri — algeru nýmæli sem ekki hefur áður verið í þingsköpum á Alþingi, sem sagt því að mismuna megi þingflokkum hvað varðar ræðutíma eftir stærð. Þetta er mál sem er auðvitað oft rökrætt með heitum tilfinningum bæði hér og annars staðar, spurningin um það hvort sjónarmiðið á að ráða þegar menn nálgast reglur, ræðurétt, málfrelsi í svona tilvikum að fullt jafnræði gildi milli talsmanna ólíkra sjónarmiða óháð stærð eða stærðarhlutföllin eigi að hafa þar eitthvert vægi. Þessu er skipað með mismunandi hætti á mismunandi stöðum. Það er vissulega rétt sem haldið er fram í greinargerð frumvarpsins að þetta þekkist í umræðum en hin reglan er þó ekki síður algeng. Hér var nefnt Evrópuráðsþingið, stór samkoma. Þar hafa flokkahópar jafnan rétt sem hópar utan um mismunandi sjónarmið en þeir eru gríðarlega ólíkir að stærð. Norðurlandaráð, þar er réttur flokkahópa til umræðna þegar kemur að tímalengd framsögumanna og talsmanna, jafn og eru þeir þó mjög ólíkir að stærð. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur utanríkisráðherra Íslands sama ræðutíma og utanríkisráðherra stórþjóða. Menn skyldu því fara varlega í að halda að það sé óumdeild regla að skipa þessu svona. En það hefur lengi blundað áhugi á vissum stöðum, bæði innan þings og í nágrenni við það, á að reyna að koma þessari reglu inn þannig að einnig þarna komi til aflsmunur hins stóra gagnvart minnihlutasjónarmiðum eða hvað við kjósum að kalla það, meiri hlutans gagnvart stjórnarandstöðunni.

Við leggjum til í áttunda lagi að þröskuldurinn til að veita afbrigði hækki úr tveimur þriðju í þrjá fjórðu. Það þarf nánast ekki að rökstyðja þá tillögu í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru á þingi nú að svo óvenjufjölmennur meiri hluti situr að hann getur ella skammtað sér afbrigði sjálfur og upphafið alla þá fresti og þá öryggisventla eða varnagla sem þingsköpin eiga að tryggja gagnvart því að mál fái ekki óhóflega flýtiafgreiðslu í gegnum þingið. Ég vísa aftur í þá sérstöku töflu um ræðutíma sem er í breytingartillögum okkar og er í veigamestu atriðum ólík þeirri sem meiri hlutinn leggur fram, að við leggjum til að við 1. umr. gildi í tveimur fyrri umræðunum óbreyttur ræðutími um frumvörp, þ.e. þær 20 og 10 mínútur sem gilda í dag. Við sjáum ekki sérstök rök fyrir því að það þurfi að stytta hann. Má ég þá minna á að í gildandi þingsköpum er óskilyrt heimild til að tvöfalda þann ræðutíma sem auðvitað hverfur ef þessar breytingar verða gerðar þannig að einnig að þessu leyti er verið að takmarka geysilega ræðutíma og ræðuréttindi við 1. umr.

Við leggjum til að almennur ræðuréttur ráðherra og þingmanna annarra en framsögumanna nefndarálita við 2. umr. verði 40 mínútur og 20 mínútur og síðan 5 ef haldnar eru fleiri ræður í stað 20 og 10 eins og meiri hlutinn leggur nú til í breytingartillögum sínum og telur sig þar hafa komið mikið til móts við okkur. Þó að hreyfingin sé í þá átt þá er hún ekki mikil, 5 mínútur á hvorum stað og bilið alllangt þarna á milli en við föllumst hins vegar á að ræðutími við 3. umr. sé sá sem frumvarpið upphaflega bar með sér enda höfðum við áður lýst okkur reiðubúin til þess að takmarka þann ræðutíma verulega. Aðrar breytingar á ræðutíma í tillöguskjali okkar eru mjög óverulegar og að mestu leyti getum við fallist á þá tímatöflu sem að öðru leyti gildir um þingsályktunartillögur, skýrslur og í þeim dúr.

Loks leggjum við til, virðulegi forseti, að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða og það ákvæði feli í sér ákvörðun um úttekt á starfsemi og starfsháttum Alþingis, starfsaðstöðu þingmanna jafnt sem starfsmanna og hlutverki og stöðu Alþingis í nútímasamfélagi eða samfélagi nútímans. Við viljum að þessu starfi stýri starfshópur eða nefnd fulltrúa allra þingflokka ásamt fulltrúum frá yfirstjórn Alþingis og Félagi starfsmanna Alþingis. Við leggjum sérstaka áherslu á það að þessir hlutir verði eftirleiðis unnir í góðri sátt og í samstarfi við almenna starfsmenn þingsins og þeirra félag en á því virðist því miður hafa orðið umtalsverður misbrestur samanber það sem fram kemur í umsögn Félags starfsmanna Alþingis sem sent var til allsherjarnefndar og fylgir með nefndaráliti okkar.

Þetta eru þær breytingartillögur sem við flytjum, virðulegi forseti, og ég held að þær skýri sig og rökstyðji sig í veigamiklum mæli sjálfar. Þær eru allar hugsaðar þannig að þær tryggi betur viðunandi jafnvægi innan þingsins, dreifi betur völdum allt frá valdi forsetans a.m.k. þannig að 1. varaforseti komi þá jafnan úr röðum minni hlutans sé forseti úr hópi meirihlutamanna. Að forustu í þingnefndum og alþjóðasendinefndum sé betur dreift, að þeir frestir og þeir öryggisventlar sem þingsköpin eiga að fela í sér séu til staðar áfram með því að þröskuldurinn fyrir veitingu afbrigða hækki. Þar með teljum við að það sé verulega dregið úr þeirri hættu sem ella blasir auðvitað við að þingsköpin breytt eins og forseti leggur til búi til háskalegan farveg fyrir flýtiafgreiðslu mála í gegnum þingið, að sjálfsögðu þá og því aðeins og fyrst og fremst ef óbilgjarn og harðsækinn meiri hluti kýs að beita valdi sínu þannig. En ætli það séu ekki einhver fordæmi fyrir því bæði úr skammtímaþingsögunni og lengra aftur og ætli ekki sé hætt við að það sem einu sinni hefur gerst eða reyndar margoft gerst á Alþingi geti gerst aftur, að stjórnblindur meiri hluti og ríkisstjórn hafi ekki endilega mikla samúð með því að þingið sé eitthvað að móast við þegar menn telja sig þurfa að koma málum áfram og það fljótt og vel.

Virðulegur forseti. Ég fer að ljúka máli mínu, enda tel ég mig hafa farið yfir það sem ég ætlaði mér að gera og gaf upp að ég mundi gera í ræðu minni, að rekja breytingartillögur okkar. Ég held að það væri verulega mikill annar svipur á niðurstöðu þessa máls ef lending gæti orðið eitthvað í áttina að því sem við erum að leggja til í breytingartillögum okkar og ég tala ekki um ef það gæti tekist um það sæmileg sátt. Það er nú þannig að góðir hlutir gerast gjarnan hægt og þeir mega gjarnan þróast hægt og oft er það heppilegt fyrir alla aðila að málin eigi sér dágóðan meðgöngutíma og gerist í skynsamlegum og yfirveguðum áföngum.

Ég spyr mig að því, herra forseti: Hvað er að því að menn taki þessa hluti áfram í einhverjum skrefum eins og reyndar hefur verið gert, t.d. með því að setja tímamörk á 1. umr. fyrir mörgum árum og þrói það áfram? Menn hafi í huga að þingið þróast sjálft óháð þingsköpunum og hefur gert það, ræðutími og starfshættir hafa breyst heilmikið án þess að það hafi verið þvingað fram með þingskapalagabreytingum. Ef menn telja síðan og komast að þeirri niðurstöðu, hafandi kannski tekið skemmri skref í þessum efnum, að ekki hafi verið nóg að gert er auðvelt að breyta því. Það er mjög auðvelt að ganga lengra í næstu umferð og takmarka ræðutíma enn frekar eða gera einhverjar aðrar þær breytingar á þingsköpunum sem menn vilja þá gera.

Hitt er alveg ljóst að ég held að það væri ákaflega torsótt að sækja málin í hina áttina, ég held að breytingar í þá átt verði mjög torsóttar við hvaða aðstæður sem eru uppi. Ég sé það seint fyrir mér að stjórnarmeirihluti á Alþingi verði við einhverjar aðstæður ginnkeyptur fyrir því að auka réttindi stjórnarandstöðu af þessu tagi á nýjan leik. Ég á ekki von á því að það verði auðsótt mál, a.m.k. ekki á meðan þeir flokkar eru fyrirferðarmiklir og ráða miklu sem standa að þessu máli.

Að lokum verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér finnst dapurlegt að málin skuli vera að festast í þeim farvegi sem raun ber vitni. Mér finnst þetta heldur leiðinleg stund fyrir Alþingi, að það skuli lenda í því að standa svona að verki þegar það er að taka á sínum eigin málum, sínum eigin starfsreglum. Ég held að það sé svo sem aldrei neitt sérstaklega góður svipur á því, hvorki inn á við né út á við, þegar hér logar allt stafna á milli í deilum. En við tökum því og skiljum það þegar hér fara í gegn og eru til umfjöllunar stórpólitísk deilumál sem eru eiginlega dæmd til að lenda í ágreiningi vegna þess að það liggur í eðli stjórnmálanna að menn eru ósammála um slíkt, einkavæðingu velferðarþjónustu eða hvað sem það gæti verið.

Það er sorglegt að menn skuli þurfa að lenda í slíkum deilum um það sem við gætum kannski kallað faglegt mál þingsins og á að geta verið algerlega hafið yfir flokkapólitík að mér finnst, af því að hér á engin önnur nálgun að gilda en sú sem tekur útgangspunkt í lýðræðislega þroskaðri hugsun af metnaði og virðingu fyrir því sem hér er gert, sanngirni og vilja til að ná saman.

Ég hlýt því að harma þessa niðurstöðu, mér eru hún mikil vonbrigði, ég dreg enga dul á það. Ég er ekkert að skorast undan minni ábyrgð og minna félaga í því, við erum að sjálfsögðu aðilar að þessari deilu, það dylst engum. En ég á þó erfitt með að sakast eitthvað við sjálfan mig í þeim efnum vegna þess að ég tel að við höfum komið heiðarlega og málefnalega fram og við séum að leggja hér fram okkar áherslur, tölum fyrir þeim og rökstyðjum þær þannig að menn eigi að geta tekið því, verið okkur ósammála eða sammála eftir atvikum og ekki að þurfa að hafa um það einhverjar óskaplegar hrakspár eða heimsendadóma.

Ég mun að sjálfsögðu taka gleði mína hvernig sem þessu máli reiðir af og að sjálfsögðu mun stjórnarandstaða hvers tíma glíma við störf hér í þinginu á grundvelli þeirra leikreglna sem gilda og auðvitað leynast oft ýmis úrræði í málum af þessu tagi þó að menn sjái þau ekki endilega strax. Það var hér ágætur maður sem einu sinni var formaður í þingnefnd og þar böksuðu menn mikið við að setja skattalög og þá sagði sá hinn sami gjarnan: Já, já, við erum að setja lögin núna en svo á skattgreiðandinn næsta leik. Hann finnur oft leiki, skattgreiðandinn, og það gerir komandi stjórnarandstaða örugglega líka. Ég get a.m.k. lofað hv. þingmönnum því að við munum gera okkar besta, hér eftir sem hingað til, til þess að halda uppi vaskri og málefnalegri stjórnarandstöðu meðan það er okkar hlutskipti.

Svo ætla ég sannarlega að vona að við berum gæfu til þess, þegar við lendum hinum megin víglínunnar og eigum aðild að meiri hluta, hverjir sem þá verða þar í verkum, að við munum sýna mikinn skilning og þroska í samskiptum okkar við minni hlutann og átta okkur á því grundvallareðli lýðræðisins að það er ákaflega mikilvægt að gera það. Annars eru þeir hlutir ekki í góðu sambandi.

Pútín Rússlandsforseti og hans félagar eru svolítið að flaska á þessu. Þó að menn hafi haft jafnvel ágæt orð um kosningar þar eystra held ég að ekki verði sagt að þar hafi menn sýnt mikinn lýðræðisþroska og skilning í verki, t.d. í samskiptum við veikburða andstöðu sem þar hefur verið að reyna að tala rödd lýðræðis og frjálsra skoðana, t.d. flokkur skákmeistarans Kasparovs. Við stöndum auðvitað með honum og okkur finnst sárt hvernig hann er leikinn, er það ekki? En við þyrftum kannski stundum að líta okkur aðeins nær og þurfum ekkert endilega út í heim, alla leið til Rússlands, til þess að tilefni gefist til að velta fyrir okkur grundvallarviðfangsefnum af þessu tagi. Hvernig umgöngumst við vald, hvernig lýðræðisþroska sýnum við í framgöngu okkar í stjórnmálum hér innan lands, í samskiptum okkar á þessum vettvangi? Er það endilega víst að það sé allt til fyrirmyndar? Mér finnst það ekki hafa verið í þessu máli. Það urðu mér umtalsverð vonbrigði en ég á erfitt með að finna einhverja sök í eigin brjósti í þeim efnum. Ég set ábyrgðina annars staðar, á höfunda og helstu aðstandendur þessa máls og þar fer fyrir forseti Alþingis.