135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

131. mál
[16:31]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og skattanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, en það er að finna á þskj. 497.

Á því þingskjali kemur fram hverjir heimsóttu nefndina og þær umsagnir sem nefndin fékk. Enn fremur er þar rætt um tilgang frumvarpsins og síðan að nefndin hafi rætt þetta mjög ítarlega og fram hafi komið sú skoðun að ákvæði þess kynnu að stangast á við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Einnig var rætt um vandkvæði sem fælust í því fyrir skattyfirvöld að ná í staðgreiðslu þeirra starfsmanna sem starfa hjá erlendum starfsmannaleigum.

Við meðferð málsins hefur nefndin rætt hvort skattyfirvöld geti farið aðrar leiðir við að ná fram markmiðum frumvarpsins sem nefndin telur að horfi til almannaheilla. Í ljósi þeirrar umræðu leggur nefndin til viðbót við upphafsgrein frumvarpsins sem ætlað er að taka til starfsmannaleigna sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í EFTA-ríki eða í Færeyjum. Krafa skattyfirvalda um staðgreiðslu á samkvæmt því fyrst og fremst að beinast að viðkomandi starfsmannaleigu, og skyldur notendafyrirtækis í þeim efnum verða í formi ábyrgðar. Þá verði ráðherra gert að útlista nánar í reglugerð hvaða skilyrðum starfsmannaleigur þurfi að fullnægja til að geta staðið skil á staðgreiðslu hér á landi. Tillaga nefndarinnar gerir ráð fyrir að notendafyrirtækið geti tryggt í samningi við starfsmannaleiguna að hún standi skil á staðgreiðslu vegna hinna leigðu starfsmanna, t.d. með því að skilyrðisbinda leigugreiðslur sínar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem er að finna á nefndarálitinu.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Bjarni Benediktsson, Magnús Stefánsson, Lúðvík Bergvinsson og Ólöf Nordal.