135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að hv. þingmaður skuli stökkva upp á nef sér í andsvari við mig og skuli spyrja svo fáránlega sem hann gerir, um hvort ég sé á móti því að karlmenn taki þátt í jafnréttisbaráttunni. Hvað á það eiginlega að þýða, virðulegi forseti? Kunna menn sér ekki hóf í orðum? Veit hv. þingmaður ekki fyrir hvað ég hef staðið í umræðum á Alþingi þegar jafnréttismál eru annars vegar? Ég tel hann vita það. Hann á að vita betur og ætti því ekki að koma með spurningu af þessu tagi í andsvari. Ég sagði meira að segja í andsvari við hv. formann nefndarinnar áðan að við vissum öll að jafnrétti kynjanna væri sameiginlegt verkefni karla og kvenna. Á það trúi ég og við það stend ég.

Hins vegar vil ég benda hv. þingmanni á eða spyrja á móti: Hverjum er mismunað, hvoru kyninu er mismunað? Það er konum sem er mismunað. Það er verið að reyna að jafna hlut kvenna á við hlut karla í samfélaginu með þessum lögum. Þessi lög væru ekki til nema vegna þess að konur hafa borið skarðan hlut frá borði í samskiptum sínum við karla í gegnum tíðina. Karlmaðurinn er normið í þessu samfélagi en ekki konan. Því þurfum við að breyta. Við þingmenn á Alþingi Íslendinga berum ríkar skyldur og mikla ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna skiptir það okkur máli að þeir sem koma að málum séu starfi sínu vaxnir og hafi þá kunnáttu og þekkingu til að bera að líklegt sé að hægt verði að ná fram markmiðum frumvarpsins.

Ég er mjög sátt við markmið frumvarpsins. Ég hafði enga ástæðu til þess að gera neina athugasemd við þau. En ég hef efasemdir um að breytingartillögurnar sem nefndin leggur til þjóni nægilega vel þeim markmiðum.