135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf þingsins.

[14:01]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að ég held að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi verið að lýsa eigin vanlíðan þegar hún lýsti því yfir að menn hefðu vind eða ekki vind eftir því hvort þeir væru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég held einmitt að Framsóknarflokkurinn hefði haft gott af því að tala opið, ærlega og hreinskilið í samstarfi sínu við Sjálfstæðisflokkinn í stað þess að beygja sig ætíð ... (Gripið fram í.) nei, vegna þess að það skiptir máli (Gripið fram í.) að við höfum talað saman um þessi mál opið og hreinskiptið og sett fram sjónarmið okkar og leyfum okkur að gera það. Það er einfaldlega heilbrigðisvottorð um það samstarf sem nú er í gangi. (Gripið fram í: Það er nákvæmlega þetta ...) Það er lykilatriðið og eins hitt að sú ríkisstjórn sem nú starfar hefur ákveðin verk að vinna og verkefni sem hún stefnir að og það breytir engu um það þó að einstaka þingmenn kunni í einstaka tilvikum ekki að vera sammála þeim ákvörðunum sem teknar eru. Þessi innkoma hv. þingmanns fannst mér alveg makalaus og endurspegla í raun og veru miklu frekar vanlíðan sem væntanlega hefur ráðið ríkjum á sínum tíma í samstarfinu. Lesa má úr orðum hennar að nú sé vindur í seglunum, nú sé hún komin í stjórnarandstöðu, nú sé kominn vindur, ef ég skil hv. þingmann rétt. (Gripið fram í.)

En hitt vildi ég segja varðandi þá fyrirspurn sem hér kom fram að það er afar óheppilegt að það séu deilur milli framkvæmdarvalds og dómsvalds um skipan þessara mála. Það er mikilvægt að við komum þessari skipan í annan farveg og það er mikilvægt að um þetta sé sæmileg sátt og einnig að virðing sé borin fyrir þessum stofnunum, bæði þinginu og dómstólum sem hefur verið þverrandi á undanförnum árum og að því viljum við vinna. Ég vil líka segja, (Forseti hringir.) af því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom upp áðan, að hv. þingmaður nefndi að hann væri opinn fyrir öllum þessum breytingum. Það hefur því komið fram að allir flokkar eru tilbúnir að skoða breytingar á þessum málum.