135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

Sundabraut.

321. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær umræður og undirtektir sem þetta mál hefur fengið. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls og lýst skoðunum sínum varðandi legu Sundabrautar og mikilvægi þessa verkefnis.

Ég get hins vegar ekki sagt annað en að svör hæstv. samgönguráðherra valda mér vissum vonbrigðum. Í fyrsta lagi segir hann að Reykjavíkurborg hafi ekki ákveðið legu Sundabrautar. Þá er auðvitað rétt að minna á að lega Sundabrautar hefur lengi verið í aðalskipulagi Reykjavíkur á hinni ystu leið. Vilji Reykjavíkurborgar hefur því um langt árabil legið fyrir um að fara ystu leið í þessu sambandi þótt taka þurfi sérstaka ákvörðun um göngin í skipulagi. Hins vegar liggur einnig fyrir þverpólitísk samstaða um það í borgarstjórn og allir hvetja hæstv. samgönguráðherra til að taka mark á því.

Í öðru lagi segir hæstv. ráðherra að hann geti ekki tekið afstöðu til legunnar og geti ekki tjáð sig vegna þess að hann muni hugsanlega þurfa að úrskurða í málinu. En það getur auðvitað átt við um öll samgönguverkefni í landinu. Ætlar samgönguráðherra hæstv. þá aldrei að hafa neina skoðun á því hvar vegir eiga að liggja vegna þess að hann þurfi hugsanlega að úrskurða í málinu, af því það hafi gjarnan komið fram ágreiningur milli Vegagerðar og sveitarfélags um legu vegarins? Er þá Vegagerðin sá stjórnmálaflokkur sem hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður samgöngunefndar, talaði um í fjölmiðlum fyrir stuttu? Það getur auðvitað ekki gengið.

Ég lýsi vonbrigðum mínum með þetta og einnig með að varðandi fjármögnunarleiðir segir samgönguráðherra enn að í raun séu allar leiðir opnar. Hvernig ætlar hæstv. samgönguráðherra að standa að ákvörðun í því sambandi? Þannig að mér sýnist þegar upp er staðið að ráðuneytið hafi ekki tekið af skarið með sveitarfélögunum varðandi legu Sundabrautar. Það hefur ekki verið (Forseti hringir.) ákveðið hvort um einkaframkvæmd verði að ræða, ekki ákveðið hvort beitt verði vegtollum eða skuggagjöldum og þannig mætti áfram telja. Þannig að ég spyr: Er þetta verkefni ekki í forgangi eins og hér hefur (Forseti hringir.) margsinnis verið kallað eftir, hæstv. ráðherra?